21.05.1979
Neðri deild: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5120 í B-deild Alþingistíðinda. (4489)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég hef nú þegar við þessa umr. tekið til máls um það frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, og ég þarf þess vegna ekki að vera langorður. Ég mun fyrst og fremst í mínu máli fjalla um tvær fyrstu greinar frv., sem minna hafa verið ræddar en það ákvæði til bráðabirgða sem mestur styrinn stendur um.

Á fundi, sem haldinn var hér um miðnæturskeið, fjallaði ég ítarlega um sjónarmið mitt í sambandi við þetta mál og vil vísa til þeirrar ræðu minnar, þótt ég viti að áheyrendur hafi ekki verið mjög margir, enda langt liðið á nótt. Þar sagði ég frá því, að á sínum tíma hefði starfað framleiðsluráðslaganefnd og hún hefði gert drög að nýju frv. um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Sú nefnd klofnaði og minni hl. hennar skipuðu þeir Ásmundur Stefánsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, og Brynjólfur Bjarnason, fyrrum hagfræðingur Vinnuveitendasambandsins, en nú forstjóri Almenna bókafélagsins, en hann var fulltrúi Vinnuveitendasambandsins í þessari nefnd. Ég ræddi það ítarlega, að þessi ágæta nefnd hefði skilað skýrslu, sem kölluð er „Norðurlandaskýrsla um landbúnað og verðlagssamninga í Noregi, Svíþjóð og Danmörku“ — og þar kæmi greinilega fram að þrátt fyrir öll opinber afskipti af verðmyndunarmálum landbúnaðarins skini alls staðar í gegn að tekið væri tillit til heimsmarkaðsverðsins, þannig að verðmyndunarkerfið, kerfi landbúnaðarins, væri ekki lokað eins og það er hér á landi. Með þessu er átt við það, að sett eru svokölluð efri og neðri mörk á verð landbúnaðarafurða. Fari verðið niður fyrir svokölluð neðri mörk eru stuðningsaðgerðir heimilar af hálfu ríkisvaldsins, en fari verðið upp fyrir efri mörk er heimill innflutningur á landbúnaðarvörum til þessara landa, jafnvel þeirra sem ekki eru í Efnahagsbandalaginu eins og Danmörk er, og setur þeim óneitanlega meiri skorður.

Þær umræður, sem hafa átt sér stað í vetur um landbúnaðarmál, sérstaklega það atriði að framleiðendur í landbúnaði eigi að njóta í framtíðinni, ef nota má orðið „njóta“ í þessu sambandi, beinna samninga við ríkisvaldið, hafa byggst á þeirri forsendu, að á sínum tíma neituðu samtök neytenda samkv. lögum, þ. e. Alþýðusamband Íslands, að tilnefna menn í svokallaða Sexmannanefnd. Nú hefur það skeð, að miðstjórn Alþýðusambands Íslands og reyndar Vinnuveitendasambands Íslands einnig hafa lýst sig samþykkar þessum ákvæðum sem koma fram hjá minni hl. framleiðsluráðslaganefndarinnar, en þau sjónarmið ganga í berhögg við ákvæði frv. sem hér liggur fyrir til umr. og afgreiðslu.

Ég hefði sjálfur kosið að þetta mál hefði verið afgreitt í heild sinni, lögin hefðu verið tekin upp og öll ákvæði þeirra könnuð þannig að um greinargott yfirlit um stöðu málsins væri að ræða, en mér er kunnugt um að það tókst ekki á þessu þingi og til þess liggja ýmsar ástæður sem óþarfi er að rekja hér. En fyrst á annað borð er byrjað að krukka í þetta atriði tel ég rétt að þessum sjónarmiðum sé lýst, og ég hef nú ákveðið að fara þess á leit við hæstv. forseta að hann leiti afbrigða þannig að ég geti flutt skriflega brtt., sem er orðrétt tekin upp úr minnihlutaáliti framleiðsluráðslaganefndarinnar sem ég hef oft talað um. Brtt. mín er þannig orðuð, með leyfi forseta:

„1. 1. gr. frv. orðist þannig:

5. gr. laganna orðist svo:

Verðlagsráð landbúnaðarins skal skipuð sjö mönnum. Skulu tveir tilnefndir af stjórn Stéttarsambands bænda, einn af Framleiðsluráði landbúnaðarins, tveir af Alþýðusambandi Íslands og einn af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Ríkisstj. skipar formann Verðlagsráðs. Jafnmargir varamenn skulu tilnefndir á sama hátt.

Tilnefning í Verðlagsráð landbúnaðarins gildir til eins árs í senn og skal ráðið fullskipað 1. júlí ár hvert. Ályktanir Verðlagsráðs landbúnaðarins eru lögmætar ef meiri hl. samþykkir.

Formaður Verðlagsráðs er tengiliður ríkisstj. og ráðsins um öll þau atriði sem varða fyrirgreiðslu hins opinbera, svo sem tilhögun á niðurgreiðslum búvöruverðs á innlendum markaði, útflutningsbætur, framleiðslu- og framleiðslustöðvunarstyrki og önnur framlög eða aðgerðir sem áhrif hafa á afkomu framleiðenda.

2. 2. gr. frv. orðist svo:

3. og 4. mgr. 6. gr. falli brott.

3. 3. gr. frv. orðist svo:

Í stað orðsins „Sexmannanefnd“ í lögunum komi: Verðlagsráð landbúnaðarins.“

Ég leyfi mér, herra forseti, að fara þess á leit að hér verði heimilaðar umr. um þessa brtt. um leið og fjallað er um frv. sjálft og þær fjöldamörgu brtt. sem liggja frammi og ekki hafa enn verið dregnar til baka í sambandi við þetta frv.