13.11.1978
Sameinað þing: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér hefur orðið langt mál af fremur litlu tilefni. Ég get þó ekki stillt mig um að leggja hér fáein orð í belg, en lofa því, að þau verði ekki mjög mörg.

Mér finnst þessar umr. hafa farið nokkuð fram hjá kjarna þessa máls. En kjarni þessa máls er auðvitað sá, hvort hér sé um nauðsynlegt embætti að ræða eður ei. Ég held að fram hjá því verði ekki komist. Og óneitanlega skýtur það svolítið skökku við, að ríkisstj. sem í öðru orðinu talar um sparnað og ítrasta aðhald í öllum rekstri ríkisins, skuli stofna til embættis sem orkar tvímælis, að ekki sé meira sagt, a.m.k. frá mínum sjónarhóli.

Nú hefur það komið fram hjá hæstv. forsrh., að s.l. 4 ár starfaði ekki blaðafulltrúi á vegum ríkisstj. 1971–1974 starfaði hins vegar blaðafulltrúi ríkisstj. Þá voru átökin í landhelgismálinu efst á baugi og þess vegna e.t.v. meiri nauðsyn á þessu embætti en oft ella. Þá starfaði líka sérstakur blaðafulltrúi Landhelgisgæslunnar, og hygg ég að fjölmiðlamenn hafi allt eins gjarnan snúið sér til hans varðandi upplýsingar í sambandi við átökin í landhelgismálinu. Ekki veit ég betur en í utanrrn. starfi sérstakur blaða- eða upplýsingafulltrúi, sem hafi einkum það hlutverk að annast samskipti við erlenda fjölmiðla og fjölmiðlafólk.

Ég byggi það á 16 ára reynslu eða svo í fréttamennsku og fjölmiðlun, að starf blaðafulltrúa af þessu tagi er ónauðsynlegur milliliður, oftast nær. Íslenskt þjóðfélag er ekki svo flókið og mennirnir ekki það margir hér, að venjulega er afskaplega einfalt fyrir þá frétta- og fjölmiðlamenn, sem þurfa að afla sér upplýsinga, að fá þær upplýsingar beint og millliðalaust hjá ráðh. svo skulum við ekki heldur gleyma því, að hlutverk blaðafulltrúa er allajafna tvíþætt. Það er að miðla upplýsingum og líka á stundum að koma í veg fyrir óhagstæða upplýsingamiðlun. Þetta þekkja allir fjölmiðlamenn af eigin reynslu.

Hæstv. forsrh. talaði hér fagurlega um nauðsyn upplýsingastreymis og opins stjórnkerfis og stjórnsýslu. Þetta er auðvitað hárrétt og mikil nauðsyn. En ég held að þetta sé ekki endilega rétta leiðin, að stofna þarna nýtt embætti. Ef ráðh. ríkisstj. vilja halda góðu sambandi við fjölmiðla og almenning, þá gætu þeir einfaldlega haldið hver um sig einn blaðamannafund í mánuði. Þeim er það enginn ofætlan, að ég hygg. Þar geta þeir miðlað þeim fróðleik sem þeir vilja koma á framfæri. Þetta hefur ekki verið gert, en ég held að þetta mættu ráðh. gjarnan taka til athugunar.

Ég tel sem sagt, að ekki sé þörf á þessu embætti, og tek fram, að ég er eingöngu að ræða um embættið sem slíkt, ekki þann einstakling sem í það hefur verið skipaður, dreg mannkosti hans og hæfileika alls ekki í efa, síður en svo.

Mín skoðun er því sú, að hér sé verið að stofna embætti sem engin þörf sé að stofna, sé mætavel hægt að komast af án og að vel megi sjá fyrir upplýsingastreymi og eðlilegum samskiptum ríkisstjórnar ráðh. og fjölmiðla án þess að stofnað sé slíkt milliliðaembætti.