21.05.1979
Neðri deild: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5125 í B-deild Alþingistíðinda. (4494)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það er ljóst að taka verður framleiðslu- og markaðsmál landbúnaðarins föstum tökum, en hæstv. landbrh. og hæstv. ríkisstj. í heild hefur brugðist í því verkefni. Við þm. viljum áreiðanlega veita liðsinni okkar til að leysa þau vandamál sem nú blasa-við bændum landsins, en ég legg áherslu á að rækileg könnun og úttekt á stöðu atvinnuvegarins fari fram og úrræði mörkuð áður en teknar eru frekari ákvarðanir um verðábyrgð ríkissjóðs eða heimildir veittar Framleiðsluráði landbúnaðarins til að bæta bændum tekjuskerðingu vegna umframframleiðslu landbúnaðarvara. Ég gat þess vegna fallist á þá brtt., sem flutt er á þskj. 675, með þeirri breytingu sem lagt er til að gerð yrði á 2. mgr. þeirrar till., sbr. þskj. 826. En með tilvísun til úrslita atkvgr. til þessa og þar sem ég legg einnig áherslu á að í úttektargerð Sexmannanefndar séu könnuð þau nýju viðhorf, sem upp kunna að koma hjá bændum landsins vegna hinna einstöku vorharðinda sem ríkja í landinu, ítreka ég að ekki er tímabært að veita umrædda ábyrgðarheimild, enda núverandi stjórnvöldum ekki treystandi með hana að fara, og því segi ég nei.