13.11.1978
Sameinað þing: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ef ég ætlaði að nota þetta mál til sams konar pólitískra loftfimleika og hæstv. forsrh., þá er ég ekki viss um að það yrði stutt. En af því að ég ætla að reyna að halda mér við efnisatriðin ein, þá skal ég reyna að hafa þetta stutt.

Þau ummæli, sem ég lét hér frá mér fara þegar þetta mál var á dagskrá í síðustu viku, urðu hæstv. forsrh. tilefni til þess að dansa nokkuð snyrtilega í kringum veruleika sem hann bjó sér til sjálfur, en var í engu samhengi við það sem ég sagði. Ég vil hins vegar, áður en ég kem að því, fagna sérstaklega að hæstv. forsrh. skuli nú hafa gengið í lið með mér á þessum fundi til þess að leiðrétta þær missagnir sem hæstv. fjmrh. hafði um þetta mál hér í síðustu viku.

Málflutningur hæstv. fjmrh. í þeim umr. var á þann veg, að hér væri um að ræða stöðu sem væri hliðstæð hinum svokölluðu aðstoðarráðherrastörfum, og allt mat á því, hvað væri rétt eða rangt, hvað væri eðlilegt eða óeðlilegt í þessum efnum, bæri að fara fram á þeim grundvelli, að hér væri um stöðu eins konar aðstoðarráðherra að ræða, líkt og tveir aðrir ráðh. í núv. ríkisstj. hefðu þegar tekið sér.

Erindi mitt í þennan ræðustól var að benda hæstv. fjmrh. á það, að þetta væri rangt, hér væri um að ræða embætti eins og venjuleg embætti ríkisins og fylgdi það þeim reglum sem um þau væru sett. Ég fagna því sérstaklega, að þetta hefur komið fram nú.

Ég skal taka undir það með hæstv. forsrh., að það atriði, hvernig hann velur að ráðstafa stöðunni nú, undirstrikar enn frekar hvers eðlis þetta embætti er, hann viðurkennir að vissu leyti sérstöðu þess innan þessarar embættisskipunar með því að setja umræddan mann, en ekki skipa hann.

Athugasemdir mínar um pólitíska stöðu umrædds einstaklings voru eingöngu tengdar því, að hér væri um að ræða hliðstæðu aðstoðarráðherrastöðu, eins og fjmrh. lét í ljós. Hitt er svo annað mál, úr því að menn eru farnir almennt að hæla sér af því að vera áð færast nær nútímanum, sem vissulega ber að taka undir og fagna, þá hefði mér þótt eðlilegra að þetta embætti, þegar það er nú tekið upp á nýjan leik sem starfslegur vettvangur, sem það hefur ekki verið, að það hefði verið auglýst, þannig að öllum þeim fjölmörgu góðum starfskröftum, sem í þessu þjóðfélagi eru, hefði gefist kostur á að sækja um það á eðlilegan hátt. Við, sem viljum hafa nútímaleg vinnubrögð í þessum efnum, hefðum talið það eðlilegra.

Ég vil svo taka undir með hæstv. forsrh., að hið merka rit Agnars Kl. Jónssonar er að mörgu leyti fróðleg bók. En það er með þá bók eins og mörg önnur fræðirit, að það er oft forvitnilegra, sem stendur í neðanmálsgreinum, en hitt sem stendur í megintextanum. Í einni neðanmálsgrein þessarar bókar er m.a. vitnað til umr. sem áttu sér stað á Alþ. fyrir röskum áratug, þegar núv. hæstv. forsrh. gerði athugasemdir við það, hvernig efnahagsráðuneytið varð til og hvaða vinnubrögð voru höfð í þeim efnum. Úr því að við erum á annað borð farnir að gefa hvor öðrum ábendingar um tesefni úr ræðustól hér á Alþ., þá vil ég sem einn úr röðum hinna ungu þm. benda á þá ágætu ræðu sem í þessu merka riti er vitnað til neðanmáls, sem það fordæmi sem ég vildi kjósa að hæstv. forsrh. fylgdi.