21.05.1979
Neðri deild: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5139 í B-deild Alþingistíðinda. (4505)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt um þetta frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka eignarnámi hluta jarðarinnar Deildartungu í Reykholtsdalshreppi ásamt jarðhitaréttindum með því að lýsa því yfir, að eignaupptaka í hverri mynd sem hún er er andstæð lífsskoðunum mínum. Úrslitakostir í samskiptum ráðh. við fólkið ílandinu á að vera óþekkt úrræði. En hér stangast á lífsskoðanir annars vegar sósíalismans eða kommúnista og hins vegar hins frjálsa fólks. Ég harma að það skuli eiga sér stað hér á Alþingi Íslendinga.

Ef samkomulagstilraunir hafa verið fullreyndar, bæði um leigusamninga við eigendur og um kaup á umræddum verðmætum, þá álít ég að leigunám sé betri kosturinn af tvennu illu. Leigunám ætti ekki að tefja fyrir framkvæmdum á vegum hitaveitu fyrir Akranes og Borgarnes og Hvanneyri, að ég held, og ég vil frábiðja mér ummæli flokksbróður míns, hv. þm. Jósefs Þorgeirssonar, um að við flm. þeirrar brtt., sem er á þskj. 827 og er flutt af mér og hv. þm. Einari Ágústssyni, viljum viðhalda stöðugum deilum innan kjördæmisins, eins og hann komst að orði, með flutningi till. okkar um leigunám. Þetta eru ómakleg ummæli og ekki til þess fallin að tryggja frv. brautargengi eða fylgi. Till. okkar, ef samþ. verður, kemur ekki til með að tefja framkvæmdir og fullnægir þeim almennu þörfum, sem hæstv. iðnrh. gat um í ræðu sinni því að ég vil undirstrika að þetta mál er þess eðlis, að hér stangast á lífsskoðanir annars vegar hæstv, ráðh., sem er þjóðnýtingarmaður og trúr sinni köllun, og þeirra sem vilja verja eignarréttinn.

Ég vil leyfa mér að gera að nokkru umræðuefni vinnubrögð hæstv. ráðh. í hliðstæðu máli. Á ég þar við málsmeðferð í sambandi við aðra orkustofnun, þ. e. Landsvirkjun. Eins og menn vita er Landsvirkjun sameignarfyrirtækis ríkisins og Reykjavíkurborgar. Án þess að hafa nokkurt samráð við borgarráð Reykjavíkur eða við borgarstjórn Reykjavíkur, skipar iðnrh. 6. okt. 1978 nefnd til að gera till. til rn. um stofnun landsfyrirtækis um meginraforkuvinnslu á Íslandi og raforkuflutning í samræmi við markaða stefnu ríkisstj. í orkumálum. Hann setur þessari nefnd fyrir, án þess að hafa nokkurt samráð við annan eignaraðilann, sem er þó helmingseignaraðili í fyrirtæki sem heitir Landsvirkjun, að núverandi Landsvirkjun, Laxárvirkjun og 132 kw. byggðalína sameinist í eitt fyrirtæki. Sem sagt, það er sett á laggirnar nefnd til þess að vinna að hreytingu á eignaraðild án samráðs við eignaraðila vegna þess að um þetta hefur verið samið í stjórnarsáttmála, og nefndinni er sett ákveðið mark að vinna að. Þessi nefnd skilar að sjálfsögðu áliti og það álit og niðurstaða nefndarinnar er sent borgarráði með bréfi. Í þessu bréfi, sem ég vitna í, er þess farið á leit, að borgarráð setji á stofn aðra nefnd til þess að vinna að lagabreytingu sem gerði það lögum samkv. heimilt að þetta borgarfyrirtæki yrði sameignarfyrirtæki. Allt er þetta gert án samráðs við borgarstjórn eða borgarráð sem er eignaraðili. Þetta eru hrokafullar tilskipanir og ekki sæmandi íslenskum ráðamönnum.

Því geri ég þetta að umtalsefni, að ráðh. hefur viðhaft sömu starfsaðferð við eignaraðila Deildartunguhvers, og ég vil vitna máli mínu til staðfestingar í grein sem Björn Fr. Björnsson og Þorsteinn Helgason skrifuðu fyrir hönd eiganda Deildartunguhvers, en í þeirri grein segir, með leyfi forseta:

„Fulltrúar eiganda Deildartunguhvers gengu til samninga vitandi það að eignarnámsbeiðni HAB hafði legið í eitt ár á borði hjá iðnrh. Eftir hið fyrra af alls tveimur tilboðum HAB, 11.67 millj. kr. ársgreiðsla fyrir 150 sekúndulítra, kom fram að rn. hafði sett HAB samningsramma og lá fyrir að HAB fengi ekki starfsleyfi ráðh. væri farið út fyrir þann ramma.“ — Þetta er hrokafull valdníðsla, sem hér á sér stað, að koma í veg fyrir frjálsa samninga, sem lá við að tækjust, með slíkum rammasetningum. Og ef ég má, með leyfi forseta, halda áfram lestrinum: „Sem sjá má af lokatilboði HAB var rammi þessi svo þröngur, að í raun var ekki um samninga að ræða, heldur skyldi eigandi hversins hlíta verðákvörðun rn. Þá var því einnig lýst yfir, að um kaup ríkisins á hvernum væri ekki að ræða af hálfu ráðh. Svo sem nú er ljóst, ætlar ráðh., með beitingu eignarnámslaga, ríkissjóði í raun að kaupa hverinn, án þess að nokkrar viðræður í þá veru hafi áður átt sér stað við eiganda.“

Þetta eru furðuleg vinnubrögð og ekki til sóma fyrir ungan mann sem verður fyrir því — menn geta túlkað það hvort sem þeir vilja sem ólán eða happ — að verða ráðh. óðara er hann stigur fæti inn í Alþ. rétt eftir kosningar. Ráðherravald er til, en það er jafnhættulegt og hver önnur vopn. Í þessu tilfelli er það vopn gegn varnarlausum einstaklingum, gamalli konu í þessu tilfelli. Að þessum fullyrðingum í greininni, sem ég vitnaði til, vil ég færa nokkur rök, því að ég hef hér afrit af ummælum sem formaður starfshóps rn. lét bóka eftir sér 5. maí og eru að sjálfsögðu skráð í fundargerð um þessa fundi, er starfshópur rn. hélt og hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„GE (þ. e. Gísli Einarsson) upplýsir, að HAB muni ekki hafa umtalsvert svigrúm til endurskoðunar á tilboði sínu, enda séu þeir háðir starfsleyfi rn. Upplýsir Gísli að tilboð HAB sé mjög tekið að þrengja að ramma þeim sem líklegt er að hljóti brautargengi rn. Starfshópurinn lýsir því yfir, að hann sé reiðubúinn að draga sig í hlé úr viðræðunum, þegar sá rammi er á enda runninn sem honum var settur af hálfu rn., og reyna að koma beinum viðræðum á.“

Hér er sem sagt sett þak, takmörkun fyrir samkomulagi, — takmörkun sem er svo grimmilega á sett að jafnvel þó að samkomulag náist við viðsemjendur fái hitaveitan ekki starfsleyfi, ef hún fer út fyrir vilja ráðh. Ég trúi því ekki eitt einasta augnablik, þrátt fyrir það sem fram hefur komið hér á hv. Alþ., að til sé einn einasti maður innan Sjálfstfl. sem styður eignarnám það sem hér er um að ræða. Ég trúi því ekki fyrr en á reynir. Það verður að koma í ljós. Og mér er næst að bæta við, að ég trúi því ekki, að á hv. Alþingi Íslendinga sé meiri hl. fyrir slíkum ráðstöfunum sem þessum. Ef svo er, þá harma ég það.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson vitnaði mikið í sérskoðanir oddvitans í Reykholtsdalshreppi máli sínu til stuðnings og það hvað eftir annað. Fyrr í dag hefur hv. þm. Ólafur G. Einarsson, 9. landsk. þm., vitnað í bókun sem gerð var á fundi hreppsnefndar Reykholtsdalshrepps 20. maí, í gær. Ég ætla að leyfa mér að lesa hana upp aftur, með leyfi hæstv. forseta, og biðja hv. þm. um að taka eftir því, að það er engin aths. frá oddvitanum í þessari bókun. Öll þau ummæli eða samtöl, sem kunna að hafa átt sér stað utan við þá bókun sem hér er, þar sem málið er formlega afgreitt og víðkomandi aðili er viðstaddur, lýsi ég sem markleysu í þessum umr. En bókunin hljóðar svo:

„Á fundi hreppsnefndar Reykholtsdalshrepps 20. maí 1979 var eftirfarandi bókun gerð:

1. Hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps mótmælir algerlega framkomnu frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. að taka eignarnámi hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum og varar alvarlega við aðgerðum, sem kunna að leiða til erfiðari samskipta HAB og íbúa Reykholtsdalshrepps, sem líta á þetta sem sitt landhelgismál, eins og undirskriftir íbúa sýna glöggt.

2. Hreppsnefndin ítrekar þá skoðun sína, að samningar milli eiganda Deildartunguhvers og HAB hafi enn ekki verið reyndir til þrautar.

3. Það var álit hreppsnefndar Reykholtsdalshrepps, að ef samningar ekki tækjust, yrði hverinn tekinn leigunámi.

Nú hafa komið fram í Nd. Alþingis tvö frv. eða till. um leigunám á Deildartunguhver. Hreppsnefndin leyfir sér að skora á flm. þessara frv. eða till. að leita eftir samræmingu og mælir eindregið með því, að teknir verði 150 sekúndulítrar leigunámi til 20 ára.“

Þetta er samkv. gerðarbók Reykholtsdalshrepps og undirskrifað af Jóni Þórissyni oddvita.

Þetta er bókun af hreppsnefndarfundi í gær frá þeim oddvita sem hv. þm. Kjartan Ólafsson vitnaði hvað mest til áðan. Hann gerir þar enga aths. og þessi bókun er einróma samþykkt. Tal hv. þm. um samtöl sem hafi átt sér stað á milli hans og oddvitans prívat, einkasamtöl, er ekkert innlegg í málið sem hér er flutt. (KÓ: Viðræður á nefndarfundi, ekki einkasamtöl.) Þessi bókun sem ég var að lesa upp, er frá þeim fundi, þar sem mál þetta var rætt, og oddvitinn skrifaði undir þetta bréf. Eins og kemur fram í þessu bréfi og víða annars staðar og í umr., sem hér hafa átt sér stað, hafa viðræður ekki enn verið reyndar til hlítar.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál að sinni. Ég vildi benda á hliðstæður í embættisafglöpum hæstv. ráðh., hliðstæður í málflutningi og ákvörðunum, þ. e. Landsvirkjunar annars vegar, þar sem ráðstafanir eru gerðar án samráðs við annan eignaraðilann um framtíðarskipan mála þess fyrirtækis, og hins vegar það mál sem hér er til umr.

Ég vil að lokum segja það, að mér þætti afskaplega vænt um ef alþm. vildu hugleiða að Alþingi Íslendinga verður að koma í veg fyrir að þeir, sem hafa kommúnistíska „tendensa“, geti fótum troðið eignarrétt manna og þar með komið stefnumáli sínu í framkvæmd meðan þeir fara með völd, sem vonandi verður ekki til frambúðar í okkar blessaða landi.