21.05.1979
Neðri deild: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5149 í B-deild Alþingistíðinda. (4508)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í ræðu minni s. l. laugardag rakti ég nokkuð aðdraganda þessa máls, stofnun Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Á þeim árum sem ég gegndi embætti iðnrh., í fjögur ár, var þetta stóra mál mjög til meðferðar, og ég tel að tekist hafi að beina því inn á réttar brautir með samstarfi þessara sveitarfélaga: Akraneskaupstaðar, Borgarness og Andakílshrepps. Ég vil aðeins til viðbótar því, sem ég sagði þá, bæta við nokkrum orðum um það, hversu þetta mál horfir, því að mér er vissulega annt um þetta fyrirtæki.

Það má vera að í upphafi hafi sumir aðstandendur þessa fyrirtækis helst óskað að hitaveitan sjálf yrði eigandi að Deildartunguhver. En í þeim samningaumleitunum sem átt hafa sér stað undanfarna mánuði, hefur það mál ekki borið á góma, heldur hafa allar þær viðræður beinst í eina og sömu átt, sem sagt þá, að hitaveitan taki hverinn á leigu. Ef hv. þm. líta á grg. með stjfrv. um þetta mál, kemur það í ljós m. a. í þeim tilboðum frá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar sem þar eru birt að þar er jafnan farið fram á leigu.

Ég ætla líka að eftir að fram eru komnar brtt. sem liggja fyrir nú við frv., þá sé það mál í rauninni ekki til umr. að hitaveitan verði eigandi hversins.

Í frv. hæstv. iðnrh. var að vísu gert ráð fyrir því, að ríkissjóður tæki hverinn eignarnámi og afhenti hann Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, sem flestir munu hafa skilið þannig að það ætti að afhenda hann hitaveitunni til eignar. Hæstv. ráðh. hefur nú upplýst að það hafi ekki verið ætlunin og með till. sinni hefur hann tekið af skarið um það, að ekki eigi að afhenda hitaveitunni hverinn til eignar. Í brtt. þeirri, sem meiri hl. iðnn. flutti á þskj. 814, var líka kveðið svo á, að eftir að ríkið hafi tekið hverinn eignarnámi skuli afhenda hann Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar til afnota. Þessi till. var samþ. af stjórn hitaveitunnar.

Það er það sem ég vil undirstrika fyrst, að ekki liggur fyrir að Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar verði eigandi hversins, og stjórn hitaveitunnar hefur staðfest það með samþykkt sinni á þessari tillögu.

Það, sem hér liggur fyrir, er því tvennt: Annars vegar að ríkissjóður verði eigandi hversins með eignarnámi og veiti síðan hitaveitunni afnot hans eða leigu fyrir gjald eða greiðslu sem iðnrh. væntanlega ákveður. Hinn kosturinn er sá að taka hverinn leigunámi, eins og hér liggja fyrir till. um, og þá yrði leigan eða gjaldið fyrir afnotin, sem Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar þarf að greiða, ekki ákveðin af eigendum hversins, heldur af óvilhöllum matsmönnum. Leigan mundi verða ákveðin samkv. lögum frá 1973 um framkvæmd eignarnáms. Það yrði matsnefnd eignarnámsbóta sem skæri úr um leiguna.

Ég er ekki viss um, þegar ég hugsa það mál, að það sé betri kostur fyrir hitaveituna að eiga allt sitt í þessu efni andir ákvörðunum ráðh. á hverjum tíma. Ég mundi ætla að hitt væri betri kostur fyrir fyrirtækið, að fá mat og ákvörðun óvilhallra manna í þessu efni, matsnefndar eignarnámsbóta. Ef sá kosturinn yrði valinn, að ríkissjóður tæki hverinn eignarnámi, þá er gert ráð fyrir því í till. hæstv. ráðh., bæði í frv. upphaflega og eins í brtt. hæstv. ráðh. sem liggur fyrir á þskj. 840, að Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar greiði ríkissjóði eignarnámsbætur og allan kostnað hans af aðgerðum þessum. M. ö. o.: ríkissjóður mundi afhenda hitaveitunni þessi verðmæti til afnota, en hitaveitan á að greiða ríkissjóði eignarnámsbætur og allan kostnað. Hvað þýðir þetta? Ef bæturnar yrðu ákveðnar — við skulum segja nokkur hundruð millj., ég skal ekki geta mér neitt til um hver upphæðin verður, — en ef menn hugsa sér að það verði nokkur hundruð millj., þá kemur spurningin: Hvernig á að greiða það? Langalgengast hefur verið við eignarnámsbætur á Íslandi, að matsnefnd hefur ákveðið að eignarnámsbæturnar skuli greiddar strax, það verði staðgreiðsla. Að vísu er rétt að hafa í huga að matsnefndin hefur heimild til þess, ef henni sýnist ástæða til, að veita einhvern greiðslufrest á einhverju af matsverðinu og mundi, ef hún fer þá leið, að einhverju leyti vafalaust krefjast þess, að þær eftirstöðvar yrðu verðtryggðar. En ég bendi á það, að hitt er algengast, að um staðgreiðslu sé að ræða. Ef þarna yrðu ákveðnar allríflegar fjárhæðir, nokkur hundruð millj., og kannske allt eða meginhlutinn yrði staðgreiðsla sem ríkissjóður þyrfti að greiða og hann krefðist þess af hitaveitunni að hún endurgreiddi þetta, hvernig ætlar fyrirtækið að ráða við það? Ég býst ekki við að hitaveitan hafi neina möguleika til þess.

Í lánsfjáráætlun ríkisins fyrir árið 1979 eru áætlaðar 750 millj. til framkvæmda hitaveitunnar, sem er að vísu töluvert lægri upphæð en hitaveitan sjálf taldi sig þurfa, því að stjórn hitaveitunnar og ráðunautar óskuðu eindregið eftir því, að í ár yrði veitt ekki minna en 1050 millj. til nauðsynlegustu framkvæmda hitaveitunnar. Þetta skar hæstv. ráðh. eða ríkisstj. niður í 750 millj. Ef ríkissjóður verður nú að greiða stórar fúlgur fyrir eignarnámið og á samkv. lögum að krefja hitaveituna um þá fjárhæð, er þá ekki hugsanlegt að hæstv. iðnrh. segi sem svo: Það er ekkert fjármagn til nema taka það af þessu fé sem er á lánsfjáráætlun? Ég býst við að Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar mundi þá þykja þröngt fyrir dyrum, þegar fyrst er búið að skera niður í stórum stíl framkvæmdafé það, sem hún hefur óskað eftir, og síðan fari kannske verulegur hluti af því, sem eftir stendur, til eignarnámsbótanna. Eða er hugsanlegt að hæstv. iðnrh. mundi reyna að veita gjaldfrest, e. t. v, til langs tíma, á því sem ríkissjóður þarf að greiða vegna bótanna? Mér finnst að þetta þurfi vissulega að taka til athugunar, því að hér er um stóralvarlegt mál að ræða.

Í annan stað mundi hitaveitan væntanlega verða ofurseld vilja — ég vil ekki segja geðþótta, en vilja iðnrh. á hverjum tíma um það, hvað ætti að greiða áfram og með hvaða kjörum það sem eftir kynni að standa eða fyrir afnotin. Ég ætla að samskipti ýmissa sveitarfélaga á Íslandi við ýmsa ráðh. á ýmsum tímum hafi oft verið með þeim hætti, að mönnum þyki ekki unnt að ganga út frá því að tekið verði fullt tillit til þarfa og óska sveitarfélagsins. Ef hin leiðin væri valin, sem er að mínu viti skynsamlegri, sanngjarnari og rökréttari, að fara leigunámsleiðina, einmitt leiguaðferðina sem alltaf hefur verið talað um undanfarna mánuði og tilboð hitaveitunnar fjallar um, — ef sú leið yrði farin að taka hverinn leigunámi, þá þarf Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar ekki að sækja það undir eigendur hversins, ekki að sækja það undir ráðh., hver sem hann er á hverjum tíma, heldur eru það hinir óvilhöllu matsmenn sem ákveða árgjaldið og ákveða leiguna. Ef menn vilja reyna að gera sér einhverjar hugmyndir um það, hvert það árgjald kynni að vera, þá vil ég segja að þó að vitanlega sé ógerningur að fullyrða neitt um það má þó ætla að nokkrar líkur séu til þess, að ákvörðun matsnefndar yrði á bilinu milli 12.5 millj. og 18. millj., en það eru mörkin sem um er að tefla, nú hin fyrstu 10 ár. Hitaveitan hefur boðið fram 12.5 millj., eigendurnir voru seinast komnir niður í 18 millj. Það er ekki ósennilegt, miðað við úrslit ýmissa matsmála og ákvarðana í þeim efnum, að höfð yrði hliðsjón af þessum boðum, þannig að endanlegur úrskurður yrði einhvers staðar þar á milli.

Eftir því sem ég velti þessu máli fyrir mér tel ég að hagsmunum Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar sé miklu betur borgið með leigunámi en með eignarnámi ríkissjóðs af þeim ástæðum sem ég nú hef greint.

Ég ræddi nokkuð í fyrri ræðu minni um leigunám eða nám afnotaréttinda. Sumir ræðumanna hafa verið að draga í efa að leigunám ætti hér við. Það er alger misskilningur. Lögnám eða eignarnám getur verið með margvíslegum hætti, ýmist þannig áð eignarrétturinn er tekinn alveg eða hins vegar að afnotarétturinn er tekinn lögnámi, afnotaréttur eða ítaksréttindi eða annað slíkt. Í lögum um framkvæmd eignarnáms frá 1973 er t. d. beinlínis talað um það að ýmist sé með eignarnámi eða lögnámi hægt að taka eignarréttinn alveg eða takmörkuð eignarréttindi, það sé hægt að stofna afnotaréttindi, ítaksréttindi og önnur takmörkuð eignarréttindi yfir fasteignir. Þetta er nú almennt viðurkennt og á ekki að þurfa um það að deila. Og þó að leigunám hafi ekki oft verið notað hér á landi og helst þá í sambandi við leigunám til skamms tíma, — þó engan veginn eingöngu til skamms tíma, því að í lögum hafa verið og eru heimildir um leigunám til ótiltekins tíma, — þá segir það auðvitað ekkert um að ekki sé heimilt að taka þennan hver leigunámi. Ég held að ég tefji ekki tíma hv. d. á því að ræða það mál frekar.

En það er annað sem ég vil að lokum segja, og það er þetta: Það er augljóst að með því að keyra í gegnum þingið eignarnámslögin með það fyrir augum að taka hverinn eignarnámi til handa ríkissjóði er verið að stofna til ófriðar og ósamkomulags. Jafnvel eftir að tillögur um vissar breytingar hafa verið gerðar til þess að ganga til móts við hagsmuni Reykholtsdalshrepps gerir hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps samt sem áður í gær ályktun, þar sem hún mótmælir algerlega frv. um eignarnám og ítrekar að ef ekki náist samningar skuli taka hverinn leigunámi, en ekki eignarnámi.

Í till. hæstv. ráðh. er að hans sögn gengið mjög til móts við hagsmuni þess sveitarfélags þar sem hverinn er. Það er orðað þannig í till. hæstv. ráðh., að við eignarnámið verði m. a. höfð hliðsjón af hagsmunum íbúa Reykholtsdalshrepps. Ekki er fast að orði kveðið. Það mátti ekki segja, að gætt skyldi hagsmuna íbúa Reykholtsdalshrepps. Nei, í staðinn fyrir að þeirra skuli gætt á að hafa hliðsjón af þeim, og ekki aðeins það, heldur á m. a. að hafa hliðsjón af hagsmunum þeirra. Ég held að það sé erfitt að finna orðalag sem er öllu loðnara og segir minna en þessi setning hæstv. ráðh.

Þeir hagsmunir, sem hér er um að ræða í sambandi við Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, eru í fyrsta lagi hagsmunir þjóðfélagsins af því að spara erlenda, innflutta orku, spara gjaldeyri í stórum stíl. Í öðru lagi eru það sjálfsagðir hagsmunir hitaveitunnar og íbúanna á þessum svæðum. Með leigunámi er hvoru tveggja þessu gersamlega fullnægt og betur að minni hyggju en með eignarnámi. En hér eiga fleiri hlut að máli, eigendur hversins. Í stjórnarskránni okkar segir að eignarrétturinn sé friðhelgur, og það á að heyra til undantekninga að hann sé skertur. Það er auðvitað heimilt að skerða hann ef almenningsþörf krefur, enda komi fullt verð fyrir. En það eru líka óskráð lög hjá okkur, að ef þarf að skerða eignarréttinn á ekki að skerða hann meira en nauðsynlegt er til að fullnægja þessari almenningsþörf.

Ég minntist í fyrradag aðeins á það, sem núv. hæstv. forsrh. segir í riti sínu: Stjórnskipun Íslands, um þetta atriði: Hann talar þar t. d. um eignarnámslög eða lögnámslög, sem ýmist heimila töku á eignarrétti, að yfirfæra eignarréttinn eða að yfirfæra afnotarétt, nám afnotaréttar, segir síðan: „En aðalreglan sýnist hljóta að verða sú, að ekki sé gengið nær eignarnámsþola heldur en nauðsynlegt er til þess að hagsmunum eignarnema sé fullnægt.“

Það er alveg óvefengt, að hagsmunum Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar er fullnægt með leigunámi. Það er engin þörf á því að ganga lengra. Ef á að ganga lengra, þá er þar með verið að ganga á þau almennu sjónarmið, almennu skýringaratriði í sambandi við eignarnám og friðhelgi eignarréttarins sem hæstv. forsrh. lýsir skýrt og skilmerkilega í þessari setningu sem ég hér las. En það er einnig mikilvægt, að góð samvinna sé við íbúa og sveitarstjórn þess sveitarfélags þar sem hverinn er. Sá hreppur og þeir íbúar eiga auðvitað mikilla hagsmuna að gæta líka, og með því að fara eignarnámsleiðina er veruleg hætta á því, að stofnað sé til árekstra og ágreinings sem gæti dregið dilk á eftir sér. Ég ætla að með leigunámsleiðinni sé fullnægt betur en með eignarnámsleiðinni hagsmunum hitaveitunnar, en ég ætla að þá geti einnig tekist sæmilegur friður um málið gagnvart hreppsnefnd og íbúum sveitarfélagsins og eiganda hversins.