21.05.1979
Neðri deild: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5154 í B-deild Alþingistíðinda. (4513)

247. mál, Rafmagnseftirlit ríkisins

Frsm. (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Það mál, sem hér kemur til umr., frv. til l. um Rafmagnseftirlit ríkisins, stjfrv., er komið frá Ed. þar sem það var samþ. með lítils háttar breytingum, en iðnn. Ed. mun hafa orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. og það höfum við einnig orðið í iðnn. þessarar hv. d. Meginefni frv. er það að setja á fót stofnun er nefnist Rafmagnseftirlit ríkisins og annist þau störf varðandi rafmagnseftirlit sem frá greinir í frv. Það, sem helst hefur verið talið nokkurt álitamál í þessum efnum, er 9. gr., sem lýtur að tekjustofnum Rafmagnseftirlits ríkisins sem hér er ráðgert að setja á fót. Ég vil aðeins kynna hvað þar segir og þær breytingar sem þar hafa orðið. Í upphaflega frv. voru ákvæði á þessa leið:

„Til rekstrar Rafmagnseftirlits ríkisins skal fjár aflað á eftirfarandi hátt:

1. Eigendur raforkuvera og rafveitna skulu árlega greiða til Rafmagnseftirlits ríkisins gjald allt að 1.5% af heildartekjum þeirra af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku, söluskatti og verðjöfnunargjaldi. Ef eigandi raforkuvers notar sjálfur alla þá orku, sem þar er unnin, eða verulegan hluta hennar, og hún ekki mæld eða verðlögð eða ekki er vitað um tekjur af raforkusölu, skal hann greiða gjald af áætlaðri notkun.“

Þetta er 1. liður í 9. gr.

Þarna er sem sagt gert ráð fyrir að tekjurnar nemi 1.5% af heildartekjum af raforkusölu og leigu mælitækja að frádregnum þeim liðum sem þarna greinir. En í meðferð Ed. var þessi prósentutala lækkuð í það að vera 1.2%.

Rétt er að geta þess, að frá Sambandi ísl. rafveitna bárust andmæli við því að gjaldið yrði ákveðið eins og í upphaflegu frvgr. segir,1.5%, og það vildi reyndar halda sig við 1%, en Ed. breytti því í 1.2% og það er einnig svo samkv. okkar till. um að samþykkja frv. óbreytt eins og það kom frá Ed. En hér er einnig rétt að minna á annan tekjustofn sem efasemdir hafa komið fram um frá ákveðnum aðilum, svo sem ég mun greina frá hér rétt á eftir, en það er í em lið 9. gr. Þar segir:

„Þeir, sem flytja inn til landsins eftirlitsskyld rafföng og hluta þeirra eða framleiða þau innanlands, greiði til eftirlitsins gjald, sem miðast við innkaupsverð þeirra eða söluverð þeirra frá innlendum framleiðanda. Má gjald þetta nema allt að 3/4% af verðinu.“

Það er rétt að upplýsa að aths. hafa komið frá fjmrn. varðandi þessa tekjuöflun í bréfi sem okkur barst, að vísu eftir að iðnn. hafði gengið frá nál. Í þessu erindi fjmrn telur nokkra vankanta á að innheimta gjaldið með þessum hætti, en ráðuneytisstjóri fjmrn., sem undirritaði bréfið og ég átti síðan tal við um málið, féllst þó á að út af fyrir sig gæti hann unað við það og hans rn. að þetta stæði svona óbreytt í frv., en minnir sem sagt á vissa erfiðleika við innheimtuna.

Fleiri orð hef ég ekki um þetta nál. og hef lokið máli mínu, herra forseti.