13.11.1978
Sameinað þing: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

Umræður utan dagskrár

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Umr. utan dagskrár enda oftast þannig, áð þær breyta litlu sem engu um þau umræðuefni sem rætt er um hverju sinni. Þessi umr. virðist ekki vera nein undantekning frá því. Þær umr., sem hér hafa oft á tíðum farið fram utan dagskrár, virðast sjaldan leysa einn eða annan vanda. Þær eru fremur til komnar til þess að auglýsa eða vekja athygli á einu eða öðru umræðuefni en að leysa vandamál eða breyta einu eða öðru varðandi ákvarðanir sem teknar hafa verið.

Ég er þeirrar skoðunar varðandi þá umr., sem hér hefur farið fram, að það hafi borið brýna nauðsyn til að stofna til þess, að blaðafulltrúi tæki til starfa við ríkisstj. og yrði henni til aðstoðar til þess að miðla upplýsingum til fjölmiðla. Ég tel nauðsynlegt að ríkisstj. miðli hverju sinni miklum upplýsingum til fjölmiðla, þannig að almenningur eigi þess sem bestan kost að fylgjast með því, hvað sé að gerast í stjórnkerfinu í þeim innsta hring sem tekur mikilvægar ákvarðanir hverju sinni. Og ég er þeirrar skoðunar, að þessi ráðning brjóti ekki í bága við lög. Hitt er svo rétt að benda á, að eðlilegra hefði verið að nánara samráð hefði orðið innan ríkisstj. um skipan þessara máta. Og þá á ég kannske fyrst og fremst við það, að þetta er heldur leiðinlegt afspurnar, að það skuli upplýst hér í umr. að ráðherrar segi sem svo, að þeir heyri um slíkar mikilvægar niðurstöður og ákvarðanir forsrh. fyrst í kvöldfréttum í útvarpi.

Ég vil að lokum segja það, að ég treysti Magnúsi Torfa til þess að takast á hendur þau störf, sem forsrh. hefur falið honum, og óska honum góðs gengis í starfi hans. Ég vona að árangurinn af þessum umr. geti orðið sá, að samráð og samstarf ráðh. innan ríkisstj. og samstarfsflokka ríkisstj. komi til með að eflast og styrkjast frá því sem nú er. Til þess tel ég brýna þörf.