21.05.1979
Neðri deild: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5161 í B-deild Alþingistíðinda. (4533)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla því mjög harðlega, að annars vegar sé umr. um ríkisreikninginn slegið á frest til hausts, eins og hæstv. forseti minntist á að til stæði, en hins vegar sé hv. 7. þm. Reykv. heimilað hér úr ræðustól undir allt öðrum dagskrárlið að endurtaka allnokkuð af þeim rakalausn dylgjum og þvættingi sem hann fór með í ræðu sinni við umr. um ríkisreikninginn á föstudaginn var.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason lætur hér liggja að því, að það sé eftir einhverri ósk frá Alþb. að umr. um ríkisreikning hefur verið frestað. Ég vil upplýsa hv. þm. um það, að ég var hér næstur á mælendaskrá þegar þetta mál var tekið út af dagskrá á föstudaginn var, og ég hafði hugsað mér að svara þessum hv. þm. í nokkrum orðum. Ég ætla ekki að flytja þá ræðu hér undir öðrum dagskrárlið, en ég vil að það liggi ljóst fyrir, að það stendur ekki á svörum við þeim grófu dylgjum og fölsunum sem hv. þm. fór með á föstudaginn var varðandi viðskipti fyrirtækisins Rafafls við Kröflunefnd. Og ég vil aðeins segja það um þetta mál, til þess að ég fái hér álíka margar mínútur og hv. þm. Vilmundur Gylfason, að það, sem sagt er í ríkisreikningnum um þau viðskipti sem þarna fóru fram, er með þeim hætti að af því, sem þar stendur, er enga þá ályktun hægt að draga sem hv. þm. leyfði sér hér úr ræðustól á föstudaginn var. Það, sem í þessari bók stendur, Ríkisreikningnum fyrir árið 1977, er einfaldlega það, að endurskoðendur ríkisreiknings fara fram á ákveðnar skýringar, hvers vegna ákveðnir liðir í samskiptum fyrirtækisins Rafafls við Kröflunefnd séu hærri en svaraði til upphaflegs samnings. Það eru gefnar af hálfu rn. fullnægjandi skýringar í þessum efnum hér í ríkisreikningnum á bls. 418, og það kemur fram í þessari sömu bók á bls. 426 að endurskoðendur ríkisreikninga taka þessar skýringar gildar og telja engra frekari athugana þörf.

Af þessum einföldu ástæðum eru það allt hreinar dylgjur og falsanir, sem hv. þm. leyfir sér að fara með í þessum efnum, og hann heldur þar svipuðum hætti á hinu háa Alþingi og hann hefur leyft sér í ýmsum tilvikum í síðdegisblöðum borgarinnar fyrr og síðar. En rétt er á það að benda, að það er ekki eingöngu fyrirtækið Rafafl sem hefur fengið borgaðar fleiri krónur á þessum tíma fyrir sín verk en upphaflega var samið um, heldur má benda á að prósentvís hækka greiðslur t. d. til Slippstöðvarinnar á Akureyri meira fyrir aukaverk heldur en til fyrirtækisins Rafafls.

Það veit auðvitað hvert barn, þó að hv. þm. Vilmundur Gylfason þekki það e. t. v. ekki, að ef kaup hækkar um 40% á framkvæmdatíma ákveðins verks, þá hljóta greiðslur fyrir verkið að hækka, og ef unnið er meira en þrefalt víðtækara verk heldur en um var samið í upphafi samkvæmt útboðum, þá kostar slíkt auðvitað fleiri krónur en upphaflegur samningur um einn þriðjung verksins hljóðaði upp á. Má vera, að hv. þm. sé svo einfaldur að hann skilji ekki jafnaugljósar staðreyndir. Ég á þó erfitt með að trúa því. Ég held frekar að um hitt sé að ræða, að hann leyfi sér að fara vísvitandi með álygar og falsanir, vegna þess að hann haldi að hann geti platað einhverja aðra með því. En ég er hræddur um að slíkur málflutningur muni fyrr eða síðar koma þessum hv. þm. í koll, enda þótt hann hafi kannske flotið á honum stund og stund.

Hv. þm. hefur dylgjað um það, að formaður Kröflunefndar, hv. þm. Jón Sólnes, sem á sæti í Ed., hafi með þessum viðskiptum verið að ráðstafa fjármagni til Alþb. eða Þjóðviljans. Ég vil leyfa mér að vísa þessum ásökunum á bug og gæti haft um slík ummæli hin hörðustu orð, en þess gerist ekki þörf vegna þess að þau dæma sig sjálf. En ef tækifæri gefst til, hvort sem það verður nú fyrir þinglausnir í vor, sem ég vona, eða á haustþingi, þá hef ég hugsað mér að svara ræðu hv. 7. þm. Reykv. sem hann flutti hér á föstudaginn var.

Þetta er aðeins smáinnlegg til þess að þessi hv. þm. verði ekki enn sjálfumglaðari en hann hefur virst vera hér í ræðustólnum. — Ég ætla síðan að lokum að taka það fram um það frv. sem hér er til umr., að ég er stuðningsmaður þess, get stutt það eins og það kom frá Ed.