21.05.1979
Neðri deild: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5165 í B-deild Alþingistíðinda. (4548)

298. mál, ríkisreikningurinn 1977

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég fagna því mjög að fá tækifæri til þess nú um miðnættið í kvöld að koma á framfæri þeim aths. sem ég að gefnu tilefni hafði hugsað mér að flytja við þessa umr. Ég ætla ekki að fjalla almennt um efni þessarar stóru bókar sem ég hef hér í höndum, en hef hins vegar hugsað mér að svara með nokkrum orðum þeirri furðulegu ræðu sem flutt var á föstudaginn var af hv. 7. þm. Reykv., Vilmundi Gylfasyni.

Meginefnið í ræðu hans voru dylgjur um viðskipti framleiðslusamvinnufélagsins Rafafls við Kröflunefnd og ýmsar ákaflega furðulegar ályktanir sem hann leyfði sér að draga í þeim efnum af því sem í ríkisreikningnum segir. Ég vil leyfa mér að undirstrika í fyrsta lagi, að endurskoðendur ríkisreikninga segja hér á bls. 426 um þetta ákveðna mál, sem hv. 7. þm. Reykv. vakti máls á, að „eins og mál þetta er vaxið, verður við svo búið að standa“. Það er niðurstaða þeirra. Hérna er hins vegar á sömu síðu og næstu bls. hvert málið á fætur öðru þar sem endurskoðendur komast að annarri niðurstöðu og segja að viðkomandi mál séu áfram til athugunar vegna þess að þeir eru ekki búnir að fá þær skýringar sem þeir telja þörf á. En í þessu ákveðna máli, sem hv. 7. þm. Reykv. gerir að umtalsefni, taka þeir skýringar rn. gildar.

Meginefnið í ummælum hv. 7. þm. Reykv. um viðskipti Rafafls við Kröflunefnd byggðist á því, að samningsupphæðin í upphafi hefði verið um 30 millj. kr., eða eins og hér kemur fram í ríkisreikningnum á bls. 426, 30 millj. 382 þús., en lokagreiðslur hefðu numið, eins og hér segir, 123 millj. 748 þús. kr. Það er kannske auðvelt, ef menn telja sig ekki þurfa að líta á annað en þær tölur sem liggja á yfirborðinu, að gera þær upphæðir, sem þarna er um að ræða, tortryggilegar. En hver er skýringin á þessum mismun? Hún er svo einföld og svo augljós að hvert barn á að geta skilið hana, eins og ég benti á áðan, og þ. á m. hv. þm. Vilmundur Gylfason. Það verk, sem þarna var unnið af Rafafli svf. fyrir Kröfluvirkjun, var um það bil þrefalt viðameira áður en lauk heldur en miðað hafði verið við í hinu upphaflega útboði.

Ég er ekki að bera hér neitt blak af Kröflunefnd. Hún hefur næga menn til að verja sig hér. En ég ætla að svara vegna þeirra manna sem fjarstaddir eru og eru félagsmenn í þessu ákveðna framleiðslusamvinnufélagi, Rafafli, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur séð ástæðu til að leggja í einelti og veitast að hér úr ræðustól á Alþingi. Ef það verk, sem unnið er, er þrefalt meira en það sem upphaflega var samið um og átti að kosta 30 millj., er þá ekki eðlilegt að þrefalt meira verk kosti um það bil 90 millj.? Það ætti að vera sæmilega ljóst. Og ef laun hækka á tímabilinu, sem um er að ræða, um 40%, þá er ekki óeðlilegt að þessar greiðslur verði allmiklu hærri af þeim ástæðum, og þess vegna — af þessum tveimur ástæðum: annars vegar vegna launahækkana, hins vegar vegna þess að verkið var miklu, miklu meira en það sem samið var um í upphaflega útboðinu, þá fara þessar greiðslur upp í rúmlega 120 millj. Og ég leyfi mér að minna á það sem stendur í svari rn. á bls. 418, aðeins örfáar setningar úr því svari, sem er skýrt og ljóst, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir m. a.:

„Byggingarvísitala hækkaði úr u. þ. b. 101 í 176 á samningstímanum. Aukning launakjara var talsvert hærri og staðbundin þróun þeirra yfir tímabilið nokkuð á annan veg.“

Síðar í þessu sama svari segir:

„Flestir verkþættir framkvæmdanna við Kröfluvirkjun voru boðnir út að lokinni frumhönnun og hluta fullnaðarhönnunar. Var þessi háttur á hafður til þess að verktaki fengi nauðsynlegan undirbúningstíma til verksins án þess að verktafir hlytust af.

Hlutfall aukaverka er því mælikvarði á:

a) breytingar þær sem verða frá hönnunarstigi verkþáttarins við útboð uns fullnaðarhönnun hans er lokið,

b) breytingar þær sem gera þarf við framkvæmd verkþáttarins.“

Og ég held áfram og legg áherslu á og bið menn að taka hér sérstaklega eftir:

„Hið háa hlutfall aukaverka í verkþáttum við raf- og pípulagnir á því orsakir sínar í þeim hlutfallslega miklu breytingum sem urðu við fullnaðarhönnun og framkvæmd þessara verkþátta.

Eftirfarandi tölulegur samanburður á greiðslum til þriggja verktaka sýnir greinilega að verðbætur til Rafafis svf. voru í fullu samræmi við verðbætur til þeirra verktaka er unnu verk svipaðs eðlis. — Menn hafa þessar tölur fyrir framan sig, og hver hefur leyft sér að mótmæla þessu — eða hefur hv. þm. Vilmundur Gylfason einhver rök fram að færa til að vefengja það sem hér stendur? Síðan er sett hér upp tafla með samanburði, þar sem borið er saman það verk sem Rafafl var verktaki að og hins vegar Slippstöðin hf. og loks fyrirtækin Hamar, Stálsmiðjan og Héðinn sameiginlega. Það kemur fram m. a. í þeim samanburði, að greiðslurnar til Slippstöðvarinnar fyrir aukaverk eru hlutfallslega hærri en greiðslur til Rafafls, eins og þegar tölur á b!s. 419 bera með sér.

Í sjálfu sér ætti ekki að vera ýkjamikil þörf á því að ræða um þessi ásökunarefni í löngu máli, svo fráleit sem þau eru og svo einfaldar og augljósar skýringar sem eru á því, að lokagreiðsla fyrir það verk, sem þarna var unnið, er þetta miklu hærri en upphaflegur samningur um hluta verksins hljóðaði upp á. Ég get hins vegar tekið undir það, að auðvitað hefði verið æskilegt að fullnaðarhönnun á þessu stóra verki, Kröfluvirkjun, hefði legið fyrir þegar útboð fór fram upphaflega. En staðreyndin er sú, að á þeim tíma var af hálfu iðnrn. og iðnrh. þáv., Gunnars Thoroddsen, lagt mikið kapp á að flýta þessari virkjun. Það var mjög umdeilanleg ákvörðum að mínu viti. En þessi ákvörðun um að flýta Kröfluvirkjun, sem tekin var af iðnrn. á sínum tíma, varð til þess að þeir, sem með framkvæmd verksins höfðu að gera, buðu út einstaka þætti án þess að verkið væri fullhannað.

Rétt er að minna á það, í hverra erindum hv. þm. Vilmundur Gylfason er þegar hann hefur uppi þær árásir á þetta ákveðna samvinnufélag sem hann hefur staðið fyrir áður í síðdegisblöðunum og nú hér á Alþ. Sannleikurinn er nefnilega sá, að hér í landinu er mikill fjöldi verktakafyrirtækja í ýmsum greinum sem ástæða er til að ætla að nái að mata krókinn allmyndarlega við margvíslegar verklegar framkvæmdir. Framleiðslusamvinnufélagið Rafafl er stofnað af iðnsveinum í þessari grein til þess ekki hvað síst að hindra að óhæfilegur gróði renni í vasa einstakra verktaka úr hópi iðnmeistara. Það væri hægt að rekja fjöldamörg dæmi um það, að þetta ákveðna framleiðslusamvinnufélag, sem hv. þm. hefur hér gert að umtalsefni, hefur ekki aðeins borgað því fólki, sem hjá því vinnur, betri laun en almennt hefur gerst hjá einstökum iðnmeisturum í þessari grein, og ekki aðeins framfylgt með miklum sóma þeirri jafnlaunastefnu sem talsmenn Alþfl. hafa einstöku sinnum þóst vilja gera að sinni, þótt þeir virðist að vísu vera fallnir frá því nú um stundir, heldur hefur hér líka komið til að þetta ákveðna framleiðslusamvinnufélag, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason telur dæmi um spillinguna í þjóðfélaginu, um samtryggingarkerfi hinna ýmsu pólitísku flokka annarra en Alþfl., að því er skilja má, hefur við hvert verkið á eftir öðru tekið að sér eftir útboð að framkvæma stór verk og smá með mun lægri kostnaði en hinir einstöku iðnmeistarar í þessari grein hafa talið sig geta gert á sama tíma, og þetta framleiðslusamvinnufélag hefur samt greitt þeim, sem hjá því vinna, hærri laun en almennt tíðkast hjá meisturum í rafiðnaði. Það eru ekki þessir hlutir, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason sér ástæðu til að orða í fjölmiðlum eða hér á Alþ. Ég vil benda honum á eitt dæmi af mörgum í þessum efnum.

Á síðasta ári var boðin út hér í Reykjavík bygging 218 íbúða í verkamannabústöðum, og það er verið að flytja í fyrstu íbúðirnar í þessum byggingaráfanga nú síðar á þessu ári. Kostnaðaráætlun fyrir raflagnir í þessar 218 verkamannaíbúðir hljóðaði upp á 80 millj., og var þá miðað við þá verðlagningu sem tíðkast hafði af hálfu iðnmeistara í þessari grein. En framleiðslusamvinnufélagið Rafafl bauð í þetta verk 40 millj. kr., eða helmingi lægri tölu, sem þýðir á hverja íbúð í sparnað fyrir hvern íbúðarkaupanda af því láglaunafólki, sem þarna er um að ræða, um eða yfir 200 þús. kr. Gætu það orðið alldrjúgar upphæðir ef í öðrum iðngreinum kæmi fram álíka breyting til batnaðar og þarna hefur orðið. En það eru andstæðingar þessa framleiðslusamvinnufélags, sem er að vinna að því að lækka byggingarkostnaðinn, lækka húsnæðiskostnaðinn hjá lágtekjufólki í landinu, tryggja að það, sem greitt er fyrir verk, renni til þeirra sem vinna þau, en ekki til einstakra meistara sem lítið koma nærri verkinu sjálfir, en láta aðra vinna, — það eru andstæðingar þessa félags sem vafalaust hafa verið upphafsmenn að því að tefla fram þessum hv. þm., Vilmundi Gylfasyni, fyrst í síðdegisblöðunum, síðan hér á Alþ., með lygaáróður um þetta framleiðslusamvinnufélag. Hann er á þeirra vegum.

Ég mun nú brátt ljúka mínu máli. En ég vil aðeins segja það að lokum, að mér þykir leitt að hv. þm. Vilmundur Gylfason skuli viðhafa annan eins subbuskap í málflutningi sínum og var um að ræða í ræðu hans á föstudaginn var. Það var enginn fótur fyrir því sem hann var að halda fram. Hann hafði enga stoð til að byggja sinn málflutning á. Það, sem stendur í ríkisreikningnum, mælir allt gegn málflutningi hans. En hann reyndi að fleyta sér á stórum orðum sem ekkert var á bak við. (VG: Ég notaði aldrei orðið subbuskapur.) Ætli ég hafi ekki lært það orð af þér? Ég hafði ekki tamið mér að tala um pólitískan subbuskap fyrr en ég fór að hlusta á þínar ræður, hv. þm. Vilmundur Gylfason, og ég hygg að þetta sé orð sem út af fyrir sig sé ekki neitt til að skammast sín fyrir fyrir einn eða neinn að nota þegar við á. En ég gæti trúað að með tilkomu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar á hinn pólitíska vettvang utan þessa gamla húss og innan hafi þetta orð heyrst oftar en áður. En látum það vera.

En það, sem ég á við með pólitískum subbuskap, er það, þegar einstakir málflytjendur, hvort sem er úr röðum hv. þm. eða annars staðar, láta sig hafa það að draga stórar og viðamikla ályktanir, hafa uppi hinar stærstu fullyrðingar án þess að hafa neitt til að byggja á, án þess að hafa neitt í höndunum, virðast ekki hafa neinar áhyggjur af því, hvort ásakanirnar, sem verið er að bera fram, séu á rökum reistar eða ekki. En það er það sem skiptir máli, hvort viðkomandi málflytjandi hefur á einhverju að byggja. Og þegar ég segi að mér þyki leitt að heyra þvílíkan subbuskap í málflutningi hv. þm. Vilmundar Gylfasonar í ræðu hans á föstudaginn var, þá þykir mér það ekki síst leitt vegna þess, að ef það nú einhvern tíma kynni að gerast í framtíðinni, sem ég vona, að þessi áhugasami þm. detti niður á mál þar sem hann komist að merkilegum staðreyndum og áhugaverðum og geri tilraun til að koma því á framfæri við þjóðina, annaðhvort hér á Alþ. eða utan þess, og mín von er sú, að að því muni koma, en þá er hættan þessi, að það verði ekki tekið mark á honum, það trúi enginn því sem hann sé að segja, vegna þess að dæmin verða orðin svo mörg um málflutning af svipuðu tagi og hér fór fram af hans hálfu á föstudaginn var, þar sem ekkert er skeytt um raunveruleikann, ekki er skeytt um staðreyndir, en talað tungum út í bláinn. Við skulum samt vona að upp renni þeir tímar, að hinn mikli og góði áhugi þessa hv. þm. í baráttunni við spillinguna komi einhverju góðu til leiðar, og ég vil gjarnan leggja honum lið í þeim efnum. En þá verða menn líka að líta svolítið í kringum sig í hverju máli og spyrja spurninga áður en menn taka að fullyrða í gríð og erg.

Þetta get ég látið duga, en vil aðeins að lokum minna á það, að skýringin á viðskiptum framleiðslusamvinnufélagsins Rafafls og reikningsuppgjöri þess við Kröflunefnd er svo einföld sem ég gat um áðan, að verkið er metið þrefalt meira en sá einstaki þáttur þess, sem útboðið fjallaði um, og launin hækka um 40%. Þá er ég ekki að tala um hækkun launa frá upphafi tímabilsins til loka tímabilsins, heldur hækkun launa frá því sem þau voru þegar samningar fóru fram og til þess sem þau urðu að meðaltali á verktímabilinu. Það er rétt að gleyma því ekki heldur, að auðvitað var tilboði Rafafls í þetta ákveðna verk, þessar raflagnir við Kröfluvirkjun, tekið vegna þess að það var lægsta tilboðið. Og samningur var gerður um einingarverð á grundvelli þessa upphaflega tilboðs, einingarverð varðandi þær framkvæmdir sem fyrirtækið kynni að taka að sér og ekki fólust í útboðinu, og einingarverðið var miðað við grundvöll tilboðsins og þess vegna líka lægra en um hefði verið að ræða hjá öðrum hugsanlegum verktökum, ef við þá hefði verið samið. Og það er eins augljóst mál og verið getur, að ef Kröflunefnd hefði tekið þann kostinn að hafna lægsta tilboðinu, sem Rafafl gerði, og taka einhverju öðru hærra tilboði, þá hefði hún undir öllum kringumstæðum orðið að greiða meira fyrir verkíð í heild heldur en hún reyndist þurfa að greiða til Rafafls, vegna þess að allar eru þessar tölur annars vegar varðandi tilboðið sjálft og hins vegar einingarverð í sambandi við önnur verk í samhengi.

Ég ætla að vona að hv. þm. Vilmundur Gylfason dragi nokkurn lærdóm af þessu sínu frumhlaupi hér á föstudaginn var og geri svolítið meira að því framtíðinni að vega og meta hvaða mál eru af því tagi, að þau gefi efni til þess að ætla að ráðast á spillinguna í þjóðfélaginu þar sem þau eru, og hvaða mál eru ekki þess eðlis að spillingin sé þar til húsa. Það er út af fyrir sig gott að vera vel vopnaður, hafa margar byssur og vera skotglaður. En það skiptir máli hvert skotunum er beint, og það skiptir máli hvort hinn skotglaði utan þings eða innan hittir í mark eða hvort hann skýtur út í bláinn og öll viðleitnin verður gagnslaus.