13.11.1978
Efri deild: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég tek til máls til að lýsa yfir stuðningi við framgang þessa máls. Ég skal ekki rökstyðja það mikið. Það kemur fram nægilegur rökstuðningur annars vegar í grg. frv. og hins vegar í máli hæstv. dómsmrh. áðan.

Það er alkunna að dómsmál ganga seint á Íslandi, og veldur það margháttuðum erfiðleikum, bæði dómurum, lögmönnum og auðvitað ekki hvað síst því fólki sem sækja þarf rétt sinn á vegum dómstóla. Ég held þess vegna að brýna nauðsyn beri til þess að hraða framgangi þessa máls. Þetta er auðvitað ekki nema einn þáttur í miklu vandamáli, en þáttur sem áreiðanlega getur haft talsverða þýðingu. Mæli ég þess vegna eindregið með því, að n. hraði störfum og þetta frv. verði að lögum sem allra fyrst, enda þótt smávægilegur kostnaður kunni að verða því samfara. Sá kostnaður, sem kann að vera því samfara í Hæstarétti eða á ríkisins vegum, sparast áreiðanlega margfaldur annars staðar.