21.05.1979
Neðri deild: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5182 í B-deild Alþingistíðinda. (4552)

298. mál, ríkisreikningurinn 1977

Forseti (Ingvar Gíslason):

Hv. síðasti ræðumaður talaði um að þessi umr. væri illa til komin. En ég vil minna hv. þm. á að umr. nú er til komin vegna tímaskorts sem verið hefur hér í hv. þd. Þó að hún hafi starfað mikið og lengi hafa umr. orðið miklar um mál, og það þýðir ekkert að leyna sig því, að það er fyrir löngu búið að ræða um það við mig sem forseta þessarar deildar og aðra forseta þingsins, að þinglausnir muni fara fram þann tiltekna dag sem menn þekkja. Það var reyndar búið að tala um annan dag og raunar aðra daga fyrr, og ég hef ekki heyrt það fyrr en núna á allra síðustu dögum, að einhver ágreiningur hafi verið um það að reyna að ljúka þessu þingi um þetta leyti, í kringum 20. maí eða svo, eins og oft hefur verið áður.

Það er síður en svo, að ég sé nokkuð að núa hinum unga þm., sem hér talaði, því um nasir að hann sé ekki þingvanur. Það er síður en svo. Ég var aðeins að benda honum á að hér er farið eftir venju sem lengi hefur tíðkast, og það hefur verið samkomulag um eða reynt a. m. k. að ná samkomulagi um, hvernig þinglausnir mættu fara fram með skikkanlegum hætti, og velja þá mál þannig að því mætti fullnægja. Við komumst ekki hjá að velja og hafna í sambandi við val mála á dagskrá og hvaða mál skuli helst ganga fram, og því er ekki að leyna, að mér virtist að ríkisreikningurinn væri það mál sem mætti fresta til haustsins að ræða, og það er vissulega opið að halda þeirri umr. áfram. Ég vil benda á það, að miðað við það, sem fyrir liggur, að þinglausnir fari fram eftir tvo daga, þá verður að velja og hafna.