21.05.1979
Neðri deild: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5186 í B-deild Alþingistíðinda. (4555)

298. mál, ríkisreikningurinn 1977

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta þessar umr. miklu lengra fram á nóttina.

Í fyrsta lagi vil ég segja það um hv. þm. Kjartan Ólafsson og rök hans, að mér sýnist augljóst að hann skilur ekki hvað það er sem verið er að fjalla hér um og talið er gagnrýnivert, vefur þetta tilfinningarökum um rekstrarform, fyrirtæki og vini sína. Það er ekki mitt mál, hvað honum finnst vera æskilegt rekstrarform eða góðir vinir sínir. Ég endurtek það, að mér sýnist það nokkuð ljóst, að hann skilur ekki hvað verið er að gagnrýna.

Að því er tekur til hv. þm. Alberts Guðmundssonar og innleggs hans hér í málið, þá greinir hann auðvitað satt og rétt frá, eins og fram kemur af lestri úr ríkisreikningum. En málið er það, að það er einmitt hluti af óeðli þessa máls að upphaflega upphæðin skuli vera af stærðinni X, í þessu tilfelli 30 millj., en lokaupphæðin skuli vera fjór- til fimmföld, vegna þess að þegar um svo mikla aukningu er að ræða hafa augljóslega annaðhvort fyrstu útboðin átt sér allt of snemma stað, áður en það var mögulegt, eða að hér er um ný viðbótarverk að ræða, og þá hefðu átt að fara fram önnur útboð. Nú skulum við ekki fullyrða um — (KÓ: Að Gunnar Thoroddsen leggi peninga til Þjóðviljans?) Ég dreg ekki ályktanir í þá veru. Ég er aðeins að benda á hvað augljóslega eru óeðlileg viðskipti. Þó einhver aukning ætti sér stað mundu menn varla gera miklar aths. við það, en þegar aukningin er fjór- til fimmföld, þá er hér um ný verk að ræða sem augljóslega eru afhent án útboða. Ég veit að hv. þm. Albert Guðmundsson hefur slíkt viðskiptavit að hann mundi ekki fara svona að ef hann stæði að Kröfluvirkjun sem einkafyrirtæki eða öðrum fyrirtækjum. Og það var þetta sem aðrir verktakar gagnrýndu. Ég er hér fyrir framan mig með langan lista af úrklippum um þessar gagnrýniraddir og þeir höfðu fyllstu ástæðu til aðgagnrýna þetta. M. ö. o. : ég er aðeins að undirstrika það, að okkur hv. þm. Albert Guðmundsson greinir ekkert á. Það, sem hann lýsti og las úr reikningnum, voru gersamlega óeðlilegir viðskiptahættir á sínum tíma og þegar í stað gagnrýndir af öðrum, og á þeirri gagnrýni er nú verið að vekja athygli.

Herra forseti. Þetta er orðin löng umr. Ég hefði kosið að hún færi fram á öðrum tíma. Mér er það ekki til neinnar sérstakrar ánægju að verða að hanga hér í hálftómum sölum, og ég bið enn hv. þm. Albert Guðmundsson afsökunar á því, því að það er vissulega ekki tómlegt þar sem hann er. (Gripið fram í.) Já, það er von að spurt sé. (Gripið fram í: Það er vonandi að það fari að fækka.) Já, en kjarninn er sá, að úr því að sú ákvörðun var tekin — af ytri ástæðum sem ekki standa í mínu valdi — sú ákvörðun að láta þessa umr. fara fram, þá taldi ég mér ekki aðeins rétt, heldur skylt að taka þátt í henni. Ef þetta verður ekki annað en hjal við þingtíðindi, þá nær það ekki lengra, en þessar upplýsingar þurftu að skrást.