22.05.1979
Sameinað þing: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5199 í B-deild Alþingistíðinda. (4570)

353. mál, byggingamál kennaraskóla og skóla þroskaheftra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Varðandi þann lið fsp., hvenær áformað er að hefja framkvæmdir við nýjan áfanga Öskjuhlíðarskóla, þá er það mjög tímabær fsp. og eðlilegt að um það sé spurt af hv. fyrrv. menntmrh., sem mjög beitti sér fyrir kennslumálum þroskaheftra þegar hann var menntmrh., og ekki síður vegna þess, að í skýrslu hans til Alþ. frá 1978 kemur fram, að 2. áfangi Öskjuhlíðarskólans eigi að vera tilbúinn árið 1980. Því gæti það verið allt eins tímabær fsp. að spyrja hæstv. núv. menntmrh. hvort við það verði staðið sem fram kemur í skýrslunni varðandi þetta atriði, þannig að fram komi einnig hvenær áformað sé að ljúka 2. áfanga. Vil ég undirstrika og benda á að í þeim áfanga er gert ráð fyrir 1900 fermetra byggingarframkvæmdum sem kosta ekki undir 500 millj. kr. á verðlagi í dag. Eftir því sem ég hef næst komist er aðeins eftir að leggja síðustu hönd á teikningar og fá samþykki byggingarnefndar, þannig að lítið ætti að vera til fyrirstöðu að byggingarframkvæmdir ættu að geta hafist fljótlega og verið lokið á áætluðum tíma, samkv. skýrslu menntmrh. frá 1978, ef séð væri fyrir nægilegu fjármagni. En þegar 2. áfangi er fullbúinn má ætla að skólinn geti tekið við um 70 nemendum til viðbótar. Sá dráttur, sem hefur orðið, er fyrst og fremst vegna þess, að upphaflegum byggingarframkvæmdum og teikningum hefur verið breytt og þær endurmetnar í ljósi fenginnar reynslu. Við þá breytingu hefur verið lögð áhersla á og þar tekið verulegt tillit til skoðana starfsliðs og sérfræðinga skólans þess efnis að auka þjónustu fyrir þá nemendur, sem fyrir eru, en hafa búið við mjög ófullkomna aðstöðu. Í 2. áfanganum er lögð m. a. áhersla á þjálfunarstöð með íþróttasal og sundlaug, en slíkt hefur ekki verið fyrir hendi, auk þess sem um fimm viðbótarkennslustofur o. fl. verður að ræða í þeim áfanga. Hér er því fyrst og fremst um ófyrirsjáanlegan drátt að ræða vegna breytinga, sem gera hefur þurft á teikningum og byggingaráætlunum sem í ljós kom að gera þurfti þegar reynsla fékkst af starfsemi skólans, og í framhaldi af því hvað væri brýnast og þýðingarmest.

Að lokum vil ég benda á að 1977 voru veittar á fjárl. 30 millj. og 26 millj. 1978, sem ekki hefur verið fullnýtt vegna þess sem ég áður greindi frá. En það segir sig sjálft að sú upphæð er aðeins lítill hluti af því sem þarf til þess að ljúka 2. áfanga, sem kostar a. m. k. 500 millj. á núverandi verðlagi. Í ljósi þess, að það mark hefur verið sett í skýrslu menntmrh. frá 1978 að ljúka þeim áfanga 1980, en til þess þarf tæpar 500 millj. kr. til viðbótar því fjármagni sem fyrir er, vil ég ítreka að það væri einnig tímabært og brýnt að fá svar menntmrh. við því, hvenær nú er áætlað að 2. áfanga ljúki.