22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5204 í B-deild Alþingistíðinda. (4584)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka það að fá að komast hér að með þessa fsp., þó að hún hefði annars verið flutt með venjulegum hætti. En þar sem þingi er að ljúka hef ég þennan hátt á, með leyfi hæstv. forseta.

Það hefur verið töluvert ritað að undanförnu í blöðum að það eigi að loka vissum hælum og sjúkradeildum í sumar, og við því er ekkert að segja, vegna skorts á sérfræðingum sé sjúkradeildum lokað. En hins vegar þegar tilkynnt er um það, að sjúklingar á hælum eins og Kópavogshæli verði sendir heim, vangefnir og í sumum tilfellum örvita, þá fer manni ekki að lítast á framvindu mála. Og þegar það er í Morgunblaðinu í dag haft eftir stjórnarformanni ríkisspítalanna, sem er ráðuneytisstjóri í heilbr.- og trmrn., að sjúklingum á Kópavogshæli hafi ekki verið fækkað og stjórnarnefnd ríkisspítalanna hafi ekki fyrirhugað að svo verði í sumarleyfum, þá kemur mér það töluvert á óvart, því að nýlega hafa verið send út bréf frá Kópavogshæli sem segja nokkuð annað en formaður stjórnarnefndar ríkisspítalanna. Í bréfi, sem ein móðir fékk sem á barn sitt á þessu hæli, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna fækkunar á starfsfólki og sumarleyfis, þjálfunarskóla ríkisins, Kópavogshæli, munu aðstæður á barnadeildum stofnunarinnar breytast verulega til hins verra, a. m. k. yfir sumarmánuðina. Áðurnefnd fækkun á starfsfólki er til komin vegna þess að fjmrn. hefur krafist þess, að starfsmannafjöldi fari ekki fram úr heimildum sem veittar eru af fjvn. Alþingis og ákveðnar í fjárlögum. Þetta hefur þær alvarlegu afleiðingar í för með sér, að við getum ekki veitt öllum þeim börnum sem eru á barnadeildum stofnunarinnar, nægilega góða umönnun og meðferð. Þess vegna munum við grípa til þess ráðs að útskrifa þau barnanna, sem við teljum að geti verið heima hjá foreldrum, um takmarkaðan eða ákveðinn tíma. Samkv. sérfræðilegu mati teljum við fært að útskrifa barn yðar“ — og svo kemur nafn þess — „um fjögurra vikna skeið. Við gerum okkur ljóst að nokkrir erfiðleikar gætu verið á því að hafa hann heima, en það er hins vegar mun betri kostur en það sem stæði til boða hér í stofnuninni í sumar.

Vinsamlega hafið samband sem allra fyrst við félagsráðgjafa“ — tiltekinn félagsráðgjafa og tiltekinn lækni í ákveðinn síma — „ til þess að ákveða nánar dagsetningu útskriftar og hvenær hann komi aftur hingað að lokinni dvöl heima, eða til að ákveða nánar um viðtal þar sem við getum rætt þessi mál.“

M. ö. o.: þarna er farið að skrifa út bréf til foreldra fólks sem þarna er vistað. Og í þessu tilfelli, sem bréfið sem ég las upp fjallar um, er um örvita að ræða. Barn um 13 ára aldur, sem þekkir ekki einu sinni foreldra sína, á að senda heim á heimili móður og barna, sem er engan veginn fært um að taka við því. Þessi sjúklingur verður auðvitað allt árið að vera á stofnun, og þannig mun vera um fleiri.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. heilbrrh. hver hans skoðun sé á þessu máli og hvort ekki sé öruggt að það megi treysta því, að frá þessu verði horfið og að þessar stofnanir verði starfræktar eins og verið hefur á undanförnum árum. Ég tel að ef þetta verður gert séum við að stíga stórfellt skref aftur á bak, og meðan við erum að stíga stór skref aftur á bak í þessum málum, þá held ég að við ættum að hægja á ferðinni með ýmsar framfarir, sem kallaðar eru, á öðrum sviðum, ef við getum ekki staðið við svo sjálfsagðan hlut í þessu þjóðfélagi sem telur sig til menningarþjóðfélags, — þjóðfélags sem vill vernda lítilmagnann og sjá fyrir þeim sem ekki geta séð fyrir sér sjálfir og ekki geta verið annars staðar en á hælum eða sjúkrahúsum.

Ég vænti þess, að hæstv. heilbrrh. geti svarað þessu og sagt sitt álit á því, hvort fólk, sem hér á hlut að máli megi ekki treysta því, að frá þessu verði horfið.