22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5206 í B-deild Alþingistíðinda. (4586)

Umræður utan dagskrár

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég sé fyllstu ástæðu til þess að þakka hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni fyrir að hreyfa hér þessu máli Kópavogshælis, því að ef fer sem horfir í því máli og ekkert verður að gert stefnir í hið alvarlegasta ástand sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Ég hef kynnt mér nokkuð þetta mál. Ég heimsótti Kópavogshælið m. a. í því skyni í gær og kynnti mér allar aðstæður þar.

Hér gefst ekki tími til að rekja nema að litlu leyti hve fjármagnsskortur og mannekla hefur háð allri nauðsynlegri starfsemi þessa hælis og hve mikið skortir á að þjónusta við vistfólk sé viðunandi. En ef það er í raun rétt, sem ég trúi ekki enn, að til greina komi að sparnaðarráðstafanir verði látnar bitna á þessu hæli, þá held ég að ærin ástæða væri fyrir þá, sem hyggjast leggja slíkt til, að kynna sér ástand stofnunarinnar áður en úr slíku yrði. Auðvitað eru það neyðarúrræði sem má rekja til samdráttar-og sparnaðarráðstafana í heilbrigðisþjónustunni. En það fullyrði og eftir að hafa skoðað og kynnt mér aðstæður á þessari stofnun, að ef slíkur sparnaður bitnar á henni, þá er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

Vistun á þessari stofnun er algert neyðarúrræði og vonandi verður hægt að létta þar á með tilkomu heildarlöggjafar um aðstoð við þroskahefta og framkvæmd hennar. Á þessari stofnun eru nú vistmenn sem ekki eiga í annað hús að venda, því að vegna mjög mikillar líkamlegrar og andlegrar fötlunar hafa aðrar stofnanir ekki treyst sér til þess að taka við þeim. Þeir einstaklingar, sem þarna dveljast, þurfa margir mjög mikla umönnun og eru margir hverjir svo algerlega ósjálfbjarga, að fötlun margra hverra, ef ekki flestra, krefst þess, að á hvert barn sé a. m. k. einn starfsmaður við daglega ummönnun, auk þess sem skortur á iðjuþjálfurum og sérmenntuðu starfsliði háir eðlilegri starfsemi stofnunarinnar. Með því starfsliði, sem þarna var um s. l. áramót, má segja að rétt sé hægt að fylgja lágmarkskröfum um mannúðlega meðferð, en ef fækka á starfsfólki er það ekki á færi stofnunarinnar að veita slíka þjónustu, og verður hún því að grípa til þess neyðarúrræðis að fækka vistmönnum.

Staðreynd er, að ef viðhalda á lágmarksþjónustu með e. t. v. vissum sveigjanleika til þess að stunda einhverja þjálfun og nauðsynlega meðferð þarf 1.25–1.50 starfsmenn á hvert barn. Nú eru starfsmenn þar 0.8 á hvert barn, og má benda á að t. d. á geðdeild Barnaspítala Hringsins eru starfsmenn 1.8 á hvert barn.

Stöðugildi á Kópavogshæli voru um s. l. áramót um 215, eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um, og hefur fækkað niður í rúmlega 180. Ber okkur þar ekki saman, hæstv. heilbrrh., en það er sennilega hægt að fá nánar úr því skorið hvor fer með rétt í því máli. Of ef enn á að fækka starfsmönnum hlýtur að vera ljóst að ekki er hægt að halda uppi nauðsynlegri þjónustu. Því leikur mér hugur á að vita og það verður að vera ljóst, þegar ráðuneytisstjóri heilbrrn. segir í Morgunblaðinu í dag að ekki sé ætlunin að senda vistfólk heim í sumarleyfum starfsfólks, hvort orð hans megi túlka svo, að það eigi að halda stöðugildum sem nauðsynleg eru til þess að viðhalda lágmarksþjónustu, sem er að mati kunnugustu manna 215, eða hvort orð hans megi túlka svo, að viðunandi þjónustu sé uppi haldið á Kópavogshæli með þeim stöðugildum sem þar eru í dag, 180 eða 190, eða jafnvel hugsanlegri fækkun í 170, sem er sú tala sem heimildin samkv. fjárlögum segir til um.

Við skulum muna það, að þarna eru einstaklingar sem eiga þess ekki kost að verja rétt sinn, og það minnsta, sem hægt er að ætlast til af þjóðfélaginu, er að sparnaðaráform ríkisins gangi ekki svo á þann lágmarksrétt sem þjóðfélaginu ber skylda til þess að veita þeim, að ekki sé hægt að fullnægja kröfum um lágmarksþjónustu við þá, þannig að þeir njóti mannúðlegrar meðferðar. Því vona ég að orð ráðuneytisstjóra — og hæstv. heilbrrh. getur eflaust svarað því — megi túlka svo, að ekki verði fækkað starfsmönnum hælisins og stöðugildum frá því sem var um áramót, þannig að 215 starfsmönnum verði haldið. Annars er verið að vekja falskar vonir hjá aðstandendum vistmanna á Kópavogshæli með slíkri yfirlýsingu, því að það getur hver sagt sér það sjálfur, að Kópavogshælið getur ekki haldið uppi algerri lágmarksþjónustu nema með slíkum starfsmannafjölda að hægt sé að halda uppi daglegri umönnun vistmanna. Því vona ég að ráðuneytisstjóri heilbr.- og trmrn. hafi einhverja lausn á vandanum eftir yfirlýsingu hans í Morgunblaðinu í dag.

Ýmislegt annað er nauðsynlegt að taka til athugunar varðandi aðbúnað stofnunarinnar, eins og viðhald ýmiss konar sem er í algeru lágmarki, enda ekki veittar nema 13 millj. á síðustu fjárlögum til viðhalds öllu þessu mikla húsnæði. Þá má nefna slæma aðstöðu til þvotta á hælinu, lélega eldunaraðstöðu o. fl. En það er nánast eins og allt virðist nógu gott fyrir þessa stofnun.

Ég veit að hæstv. heilbrrh. hefur mikinn skilning á þessum málum, og ég vænti hæstv. fjmrh. einnig, og heiti því á þá að bæta úr því neyðarástandi, sem nú er yfirvofandi á Kópavogshæli, og ríkisvaldið sameinist um að láta ekki þessi sparnaðaráform leggjast á garðinn þar sem hann er lægstur.