22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5208 í B-deild Alþingistíðinda. (4588)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Ég vil aðeins endurtaka það sem hann sagði, að ekki væru hugmyndir uppi um fækkun vistmanna á Kópavogshælinu hjá stjórnarnefnd ríkisspítalanna eða forstöðumönnum hælisins, og hann tók sem ráðh. sömu stefnu, að ekki ætti að fækka vistmönnum þar. Þess vegna vil ég eindregið fara þess á leit við hann, að hann afturkalli þau bréf, sem starfsfólk hælisins hefur sent út til aðstandenda þessa fólks, og að haldið verði uppi þeirri þjónustu sem þetta þjóðfélag hefur einsett sér að halda uppi gagnvart þessum sjúklingum. Ef það verður gert og þessi bréf verða afturkölluð, þá tel ég að sé séð fyrir sömu þjónustu og verið hefur undanfarið. — Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þessi mál og þakka hæstv. forseta fyrir.