22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5221 í B-deild Alþingistíðinda. (4599)

285. mál, vegáætlun 1979-82

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Enda þótt ég hafi fjallað um vegáætlun í fjvn. vildi ég víkja að örfáum atriðum í sambandi við þessa umr. Ég get ekki látið hjá líða, þar sem ég tek í fyrsta sinn þátt í umr. um vegáætlun hér á hv. Alþ., að lýsa sérstökum vonbrigðum með það, hversu lítið framkvæmdafé er í vegamálum á árinu 1979. Miðað við fjárlög 1978 er þetta allmikil minnkun á raungildi, sem bitnar ekki hvað síst á því kjördæmi sem ég er þm. fyrir, Vesturlandskjördæmi, í almennum vegaverkefnum. Það er þó ljós punktur í sambandi við árið 1979, að eins og hv. þm. hafa sjálfsagt tekið eftir er verulega aukið viðhaldsfé sem mun að mati Vegagerðarinnar nægja fyrir allt að 70–72% af þörf vegaviðhalds, eftir því mati sem Vegagerðin leggur á þau mál.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. nm. í fjvn. fyrir jákvæða afstöðu sem þeir hafa sýnt í því að breyta því, sem var áður í vegáætluninni, að taka Bröttubrekku út af stofnbrautum. Þetta er mjög mikilvægt atriði, bæði fyrir Vesturland í heild og ekki síður fyrir íbúa í Dalasýslu, að Brattabrekka sé í stofnbraut.

Varðandi áætlunina fyrir árin 1980–1982, þá tel ég ástæðu til að fagna því, að hér stefnir vissulega í rétta átt að því markmiði að auka framkvæmdir í vegagerð. Og það ber einnig að undirstrika það hér, að það er vissulega viðurkenningarvert að hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. hafa farið að till. fjvn. um að auka framkvæmdafé 1980 um einn milljarð með því að ákveða sérstaka lántöku til Borgarfjarðarbrúar. Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því að Vegagerð ríkisins vinnur á sérstakan hátt að því að auka upplýsingaöflun, efla rannsóknir og raunhæfa áætlanagerð um uppbyggingu vegakerfisins um landið. Er þegar ljóst að flokkun verkefna, eins og nú er ákveðið, þ. e. a. s. að stofnbrautir eru flokkaðar í almenn verkefni, bundið slitlag og sérstök verkefni, þetta eru nýmæli sem augljóslega munu auðvelda ákvarðanatöku í þessum málum á komandi árum. Ég vil vekja athygli á þeim þætti er snýr að varanlegu slitlagi. Þetta er sérstakt nýmæli sem mikill áhugi er fyrir í okkar landi og hefur farið vaxandi ár frá ári. Í því sambandi þykir mér rétt að benda á sérstaka tilraunastarfsemi sem Vegagerð ríkisins hefur með höndum, svonefnt Ottadekk, og á augljóslega eftir að hafa talsverð áhrif í þessum málaflokki þegar fram líða stundir. Þeir, sem hafa ekið um þessa kafla, hafa þegar orðið varir við mikinn mun. Þarna er um að ræða nýja tegund framkvæmda. Ef vel tekst til, sem væntanlega fæst úr skorið á þessu sumri, eru vonir um að þarna verði hægt að ná stærri og fljótvirkari aðgerðum á þessu sviði heldur en áður hefur þekkst og jafnframt ódýrari.

Á síðasta fundi í fjvn. um vegáætlunina sagði vegamálastjóri um áætlunina í heild, að hann teldi að hún væri mjög fullkomin, miðað við það sem áður hefur verið, og bæri vott um ákveðinn vilja til skipulags og áætlunargerðar í vegagerð. Hann taldi einnig að þrátt fyrir þennan stutta tíma, sem vegáætlunin hefur verið í skoðun hér á hv. Alþ., hefði samband og samstarf við alþm. og áhugi þeirra fyrir framgangi samgöngumála á þessu sviði verið með sérstökum hætti. Það, sem mér finnst vera jákvæðast í sambandi við þetta, var að hann taldi að nauðsynlegt væri að vinna að áætlunum um stórverkefni í vegagerð til lengri tíma en nú er gert.

Ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til að leggja áherslu á þetta atriði. Það verður að hefja nú þegar áætlun um stórverkefni í vegagerð, áætlun til t. d. 12 ára, og í þessari áætlun komi einnig áætlun um bundið slitlag á vegakerfið. Um þetta hafa þegar komið fram till. á hv. Alþ. og orðið nokkrar umr., en ég tel að hér þurfi að gera betur. Það er alveg ljóst, að Vegagerð ríkisins verður að fá aukið fé og mannafla til að vinna að slíkri áætlun. Það kom greinilega í ljós í umr. um þessa vegáætlun nú, að t. d. liggur ekki fyrir unnin áætlun um tengingu vegakerfis Vestfjarða við aðalvegakerfi landsins. Það er ekki tilbúið þótt fé til framkvæmda hefði fengist. Svo mætti lengi telja. Það er skoðun mín, að við komumst aldrei hratt áfram í þessu stórmáli nema við höfum fyrir framan okkur raunhæfa áætlun um hvernig vegakerfið á að vera og hvaða valkostir koma til greina, þar með kostnaðaráætlun, til þess að hægt sé að taka ákvörðun um fjármögnun framkvæmda sem yrði framkvæmd eftir slíkri fyrirframgerðri áætlun.

Ég fer ekki dult með þá skoðun mína, að við eigum að fjármagna sérstakar arðbærar stórframkvæmdir í vegakerfi landsins með lánafyrirgreiðslu sem væri jafnvel fengin hjá alþjóðastofnunum sem þróunarlán. Þetta var gert á sínum tíma í sambandi við stórframkvæmdir við hafnagerð, sbr. Þorlákshöfn og Grindavík. Alveg er ljóst í dag að þær hefðu ekki verið byggðar svo fljótt ef þessi lántaka hefði ekki komið til.

Við höfum sem betur fer framkvæmt stórverkefni á undanförnum árum í vegagerð. Ég nefni Keflavíkurveginn, sem kostaði á verðlagi í dag rúma 6 milljarða kr. Ég nefni veginn Reykjavík — Selfoss með bundnu slitlagi, sem kostar á verðlagi í dag einnig rúma 6 milljarða kr. Ég nefni veginn um Skeiðarársand, sem kostar einnig á verðlagi í dag rúma 6 milljarða kr. Ég nefni veginn með brú um Borgarfjörð, sem áætlað er að kosti rúmlega 6.4 milljarða kr. Allt eru þetta stórframkvæmdir sem skila þegar miklum arði og hægt er að framkvæma eftir fyrirframgerðu skipulagi um framkvæmdir og fjármögnun.

Ég er einn af þeim bifreiðaeigendum þessa lands sem þurfa að endurnýja einkabifreið annað eða þriðja hvert ár vegna aksturs um þjóðvegi okkar lands, sem eru í því ástandi að bifreið þolir ekki lengra úthald. Ég er þess vegna af eðlilegum ástæðum áhugasamur um þá skoðun að við hljótum að geta gert betur í þessum málum en til þessa hefur verið gert, ef við stöndum saman um stórhuga framkvæmdir. Ég vænti þess, að hv. alþm. séu mér sammála um að framkvæmdir í samgöngumálum og þá ekki hvað síst í vegamálum séu eitt af forgangsverkefnum í okkar landi og sérstaklega eigi að vinna að áætlun til margra ára um að leysa brýnustu þörfina á þessu sviði. Ég tel að við hljótum að staldra nú við og átta okkur á því, á hvern hátt þetta verður best gert. Með því sköpum við öryggi um búsetu í landinu, og við hljótum að hafa það stolt að við viljum að vegakerfi okkar komist í það horf að það þoli a. m. k. samanburð við nágrannalönd okkar, a. m. k. á Norðurlöndum, því að hvað sem við deilum um þessi framkvæmdamál fram og aftur, þá verður því ekki haggað, að góðir vegir eru lífsnauðsyn og besta fjárfesting hverrar þjóðar.

Ég vil svo nota tækifærið og þakka Vegagerð ríkisins, vegamálastjóra og hans mönnum og formanni fjvn. og fjvn. í heild fyrir samstarfið um þessi mál. Eftir þá reynslu, sem ég hef fengið í sambandi við þetta samstarf og þessa vinnu að vegáætlun, er ég bjartsýnn á að okkur takist að stilla saman kröftum og ná þeim árangri í samgöngumálum sem við getum verið stoltir af og er lífsnauðsyn fyrir þjóðina í heild.