22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5223 í B-deild Alþingistíðinda. (4600)

285. mál, vegáætlun 1979-82

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fá atriði sem ég vil minnast á við þessa umr. um vegáætlun. Ég kemst ekki hjá að byrja mál mitt á því að láta í ljós óánægju með það, hve litlu fjármagni verður varið til byggingar nýrra þjóðvega nú á árinu 1979, en ég tel að þar hefði þurft að vera um allmiklu hærri fjárhæð að ræða. Það er hins vegar ekki því að neita, að þarna kemur fram angi af þeirri niðurskurðarstefnu varðandi verklegar framkvæmdir sem ekki hefur farið leynt að átt hefur miklu fylgi að fagna hér á Alþ. nú í vetur og reyndar oft áður.

Við umr. fyrr á þessu þingi hef ég sem stuðningsmaður þessarar ríkisstj. látið í ljós þá afstöðu mína, að lengra hafi verið gengið í átt til niðurskurðar ýmissa þjóðhagslega brýnni verklegra framkvæmda, bæði í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, lánsfjáráætlun og einnig nú við vegáætlun, heldur en góðu hófi gegnir. Og ég vil vara mjög við þeim röddum sem allt of oft heyrast og ganga í þá átt, að ríkið taki allt of mikið í sinn hlut af þjóðfélagsþegnunum, vegna þess að því aðeins verðúr nauðsynlegum verkum, samfélagslega mikilvægum verkefnum, hrundið í framkvæmd í þessu landi, hvort sem er við vegagerð eða annað, að menn treysti sér til þess hér á hinu háa Alþ. að afla þess fjár sem til þess þarf og það verður að sjálfsögðu ekki gert nema með álögum á þjóðfélagsþegnana. Myndin, sem við sjáum á súluriti sem fylgir nál. hv. fjvn., sýnir að fjárveiting til byggingar nýrra þjóðvega á árinu 1979 verður allmiklu lægri að raungildi en sem nemur því þó allt of lága fjármagni sem varið var í þessu skyni á síðasta ári. Ég geri mér að vísu grein fyrir því, að sú mynd, sem súluritið sýnir, gefur ekki að öllu leyti rétta mynd í þessum efnum vegna þess að nú er gert ráð fyrir að afla sérstaks fjár með skuldabréfaútboði að upphæð 2 milljarðar kr: í ár og á næstu árum varðandi Norður- og Austurveg, sem væntanlega kemur að verulegu leyti, og máske öllu leyti til viðbótar sem framkvæmdafé á árinu 1979. Sé sú upphæð reiknuð þarna með verður heildarmyndin nokkru betri miðað við næstu ár á undan, þannig að í raun ætti framkvæmdafé til nýrra þjóðvega á þessu ári að geta orðið nokkru meira en var á síðasta ári, enda er það alger lágmarkskrafa að svo verði.

Ég vil aðeins koma hér örstutt inn á málefni sem varða það kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á Vestjörðum er vegakerfið ákaflega víðáttumikið, en jafnframt eitt hið lakasta á landinu. Það hefur ekki farið mikið fyrir stórum verkefnum á undanförnum árum og er í þeim efnum þá helst að nefna Djúpveginn. En það er í fyrsta skipti á þessari vegáætlun nú sem gert er ráð fyrir nokkru fjármagni til þess mikla og ákaflega brýna verkefnis sem hér heitir tenging Inndjúps, þ. e. a. s. tenging byggðanna við Ísafjarðardjúp, þ. á m. Ísafjarðarkaupstaðar og Bolungarvíkur, kaupstaðanna tveggja á Vestfjörðum, við aðalakvegakerfi landsins. Það er að sjálfsögðu ástæða til að harma það, hversu lengi þetta sjálfsagða verkefni hefur dregist, en fyrir því eru m. a. þær ástæður, að menn hafa þar heima fyrir ekki verið einhuga um það, hvaða vegarstæði ætti að velja. Ég vil láta þá skoðun í ljós af minni hálfu, að ég tel að sá ágreiningur, sem uppi hefur verið í þeim efnum, megi alls ekki verða til þess að valda frekari drætti á að hafist verði handa um þessa mikilvægu framkvæmd.

Í þessari vegáætlun er gert ráð fyrir að hafist verði handa um tengingu Inndjúps árið 1982 með byrjunarfjárveitingu upp á 250 millj. kr. Um leið og ég fagna því, að hér kemur í fyrsta skipti á vegáætlun áætluð tala í þessu skyni, vil ég jafnframt harma að það skuli ekki vera gert ráð fyrir að fyrr verði hafist handa um það verkefni sem hér um ræðir, að gert skuli ráð fyrir að það biði enn í 3 ár. En ég vil geta þess, að fyrir þessu eru þó ákveðnar ástæður, og það tel ég að sé rétt að komi fram við þessar umr. Sumt eru ástæður sem enginn mannlegur máttur getur trúlega komist fram hjá. Forstöðumenn Vegagerðarinnar, sem hér hefur verið borið lof á í þessum umr., og af mínum litlu kynnum við þá hygg ég að það sé að maklegleikum, þeir hafa gert grein fyrir því í viðræðum við okkur þm. Vestf., að útilokað sé með öllu að hefjast handa um þetta stóra verkefni nema á undan fari svo sem tveggja ára undirbúningstími. Ég hef engar forsendur til að draga í efa þau verkfræðilegu og tæknilegu rök sem þeir byggja þá niðurstóðu á. En það sýnir okkur hins vegar hversu brýnt hefði verið að hefja þennan undirbúning fyrr, þennan tveggja ára undirbúningstíma.

Það, sem ég vil segja að lokum um þetta mál, er það, að með tilliti til þess, að vegamálastjóri og starfsmenn hans telja tæknilega mögulegt að hefjast handa um þetta verkefni að tveimur árum liðnum, þ. e. a. s. 1981, og með tilliti til þess, hversu Vestfirðingar hafa lengi orðið að bíða eftir því að fá viðunandi vegatengingu við aðalakvegakerfi landsins, þá vil ég að það komi fram við þessar umr., að ég tel ástæðu til að leggja mjög mikið kapp á að upphafi þessara framkvæmda verði flýtt þannig að þær geti hafist árið 1981. Ég leyfi mér að taka það fram, að mér er kunnugt um að aðrir þm. Vestf. eru í þeim efnum sömu skoðunar. Ég hef þó ekki hugsað mér að flytja brtt. nú við afgreiðslu vegáætlunar hvað þetta varðar, en leggja áherslu á málið, en það mun gefast tækifæri við endurskoðun vegáætlunar að tveimur árum liðnum til að láta á þetta mál reyna. Hér er mjög veigamikið hagsmunamál á ferð fyrir meginþorra íbúa Vestjarða. Og það vil ég einnig taka fram, að mér finnst að það mætti íhuga þann möguleika, að hluta af byrjunarfjárveitingu yrði þá hugsanlega aflað með skuldabréfaútboði sem gæti átt þátt í því að færa verkið fram um eitt ár, svo það geti hafist strax þegar tæknilegum undirbúningi er lokið

Varðandi val á leið í þessum efnum, hvaða valkostur yrði tekinn í sambandi við tengingu Inndjúps við aðalakvegakerfið, — um það ætla ég ekki að tjá mig úr þessum ræðustól nú. Þar koma fleiri en einn valkostur til greina. En ég vil aðeins taka fram, að ég tel að það sé skylda okkar, sem erum fulltrúar á Alþingi fyrir Vestfirðinga, að hafa um það frumkvæði og forgöngu í samvinnu við Vegagerðina að á þann hnút verði höggvið á næstu mánuðum og komist í þeim efnum að ákveðinni og endanlegri niðurstöðu, þannig að tryggja megi að allur tæknilegur undirbúningur verði fyrir hendi að tveimur árum liðnum. En samkv. upplýsingum vegamálastjóra og starfsmanna hans á það að vera unnt ef ákvörðun um vegarstæði verður tekin nú innan nokkurra mánaða.

Ég ætla ekki að fara að öðru leyti út í að ræða einstök verkefni, en sé þó ástæðu til að þakka hv. fjvn. sérstaklega fyrir þá brtt. sem hún flutti hér nú síðast og hv. formaður fjvn. gerði grein fyrir, að Svalvogavegur frá Þingeyri um Svalvoga og í Lokinhamra í Arnarfirði fengi áfram að standa í flokki þjóðvega landsins. Það kann að vera að mönnum virðist að hér sé ekki um stórt mál að ræða, en satt að segja hygg ég að sá vegur, sem þarna ræðir um og liggur frá Þingeyri að bæjum í Lokinhamradal í Arnarfirði, sé síst ómerkari en ýmsir aðrir. Málum er þannig háttað, að í rauninni má kalla að þarna sé nú um eins konar einkaveg að ræða. Frá Keldudal í Dýrafirði að Lokinhömrum er þetta rudd braut sem einstaklingar hafa tekið sig fram um að leggja og Vegagerðin hefur þar ekki miklu-til kostað hingað til. En einmitt þarna í Lokinhamradal eru þeir einu, ef ég veit rétt, — ég bið þá um leiðréttingu ef aðrir vita betur, -þeir einu bæir á öllu landinu, fyrir utan Látravík við Hornbjargsvita sem varla er reyndar hægt að telja með í þessum efnum, — þeir einu bæir á öllu landinu sem ekki eru í vegasambandi við akvegakerfi landsins um veg sem viðurkenndur er af Vegagerðinni. Og það hefði að mínu viti verið heldur köld kveðja til þeirra íbúa, sem þarna eru um að ræða, einu bændanna í landinu sem ekki eru í viðurkenndu vegasambandi, en hafa aðeins þennan ruðning einkaframtaks, ef þessi vegarspotti hefði nú verið tekinn út af tölu þjóðvega. Ég vil þvert á móti vænta þess, að ekki líði mjög langur tími þangað til hægt verði að gera verulegar lagfæringar á þessum vegi. Ég skal taka fram, að auðvitað komumst við ekki hjá því, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að taka meira eða minna tillit til hinna svokölluðu arðsemissjónarmiða, sem oft er nú talað um, bæði hvað varðar vegagerð og aðrar framkvæmdir, og ekki ætla ég að afneita þeim. En hitt vil ég segja, að það er varhugavert að hafa þann mælikvarða, sem spyr aðeins um arðsemissjónarmið, einan uppi, einnig í sambandi við vegagerð. Og það er nú svo með byggðir eins og t. d. þessa í Lokinhamradal, að það er ugglaust erfitt að færa rök fyrir nauðsyn vegar á slíka staði út frá arðsemissjónarmiðum. En ef þau ein hefðu verið höfð í huga á liðnum áratugum í þessu landi, þá má líka búast við að ærið margan vegarspottann vantaði sem við þó höfum nú í okkar þjóðvegakerfi. Þess vegna held ég að okkur sé skylt að líta þarna jafnan til fleiri átta. Það verður vissulega stór stund í okkar sögu þegar síðustu sveitabæirnir á öllu landinu, bæirnir í Lokinhamradal, hafa verið tengdir með viðunandi hætti við akvegakerfi landsins, og væntanlega verður það áður en langt um líður.