22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5231 í B-deild Alþingistíðinda. (4603)

285. mál, vegáætlun 1979-82

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja vegáætlun lengi né heldur þennan fund. Þó langar mig að taka það fram, að ég fagna vitanlega góðum áformum varðandi 1980 og svo næstu ár. Ég vil líka taka það fram, að ég fer ekki að sama skapi fagnandi heim í kjördæmi mitt með tilliti til þess sem veitt er í vegina nú á þessu ári, en mér skilst að framkvæmdamáttur minn heldur frá því sem var á s. l. ári og var þó nógu erfitt að standa þá frammi fyrir kjósendum sínum. Ég tel rétt, að þetta komi hér fram.

Ég vil einnig benda á að það er dálítið örðugt að gera samanburð á milli ríkisstj. um það, hvernig staðið er að vegamálum á hverju ríkisstjórnartímabili, og þar kemur náttúrlega tvennt til. Annars vegar er það, að stundum er það svo að ein ríkisstj. ákveður og önnur framkvæmir síðan áformin og aflar tekna til að framkvæma þau. Við vitum aldrei hvenær verða stjórnarskipti o. s. frv. Einnig eru ákaflega misjafnar aðstæður sem geta alveg skipt sköpum um það, hvað menn treysta sér til að gera í þessum málum öllum. Í því sambandi vil ég vekja alveg sérstaklega athygli á því í sambandi við umr. sem oft fara fram, bæði hér í hv. Alþ. og annars staðar, einmitt um vegamálin, að mér finnst ekki alltaf nægilega koma til skila þau baksvið sem þarna er um að ræða. Árið 1973 var toppár í framlögum til vegagerðar af ástæðum sem öllum hv. þm. eru vafalaust kunnar. Þá var keppt að því að opna hringveginn á þjóðhátíðarári og tekið mikið lán og til alllangs tíma til þess að ljúka því verki. Þannig myndaðist mikill toppur í vegaframlögin á því ári. Ég held að það hafi engum komið til hugar þá að unnt yrði að fylgja þeim öldufaldi sem þá reis í sambandi við vegagerð hér á landi.

Svo er annað sem mér finnst ekki koma nægilega vel fram, þegar rætt er um þessi mál og samhengið í þeim. Þegar við höfðum byggt upp Vegasjóð og af nokkurri bjartsýni varð stórkostleg breyting, þegar lögin um Vegasjóð voru sett. Þá fékkst miklu meira fé í vegina en hafði verið þá um sinn. En síðan gerist það, að bensínverð og annað olíuverð margfaldast, og þetta lamar Vegasjóðinn. Menn treystust ekki til þess þá að halda uppi fullum dampi í vegagerðinni vegna þeirrar margföldunar sem þá varð á bensínverði. Það var ekki um nokkurra tuga prósenta hækkun að ræða, heldur margfaldaðist verðið. Og þá var enginn, — ég fullyrði það: það var enginn tilbúinn með ákveðin úrræði til þess að halda uppi fullum afköstum. Og því segi ég það, að það skyldi enginn nú áfellast þá menn, sem þá fóru með þessi mál, þó að svo færi sem fór, að það kom nokkur slaki á. Það þýðir ekkert að mæla sig undan ábyrgð á því. Menn voru ekki með tiltæk úrræði og það var kannske ekki von. Ég er ekki að álasa neinum fyrir það.

Ég sem sagt fagna því eindregið, að það eru uppi ákveðin áform um að auka fjármagn til vegagerðarinnar frá 1980 og áfram svo langt sem séð verður, þ. e. a. s. svo langt sem þessi áætlun nær. En ég fagna þessu þó með örlítilli varúð vegna þess að um fjármögnunina segir svo í þessari stjórnartillögu: Um seinni ár vegáætlunar vísast til næsta kafla. Og þar segir: „Á þessu stigi er ekki tekin afstaða til þess, með hvaða hætti þessa fjár verði aflað. Verður að líta svo á að eðlilegra sé að taka þetta mál upp samhliða frekari stefnumörkun fjárl. næsta árs.“ Það má vissulega segja að þetta sé alveg laukrétt. Það er ekkert óeðlilegt við það að fjalla um þetta þegar afgreidd verða fjárlög og lánsfjáráætlun á næsta ári. En svona er þetta núna. Það er ekki búið að ganga frá þessu í einstökum atriðum. Og þó að ég, eins og væntanlega allir hv. þm., fagni því einlæglega að þessi eru áformin, þá skulum við gera okkur ljóst að við erum ekki komin lengra en þetta. Það er ekki búið að negla það niður hvernig fjár verði aflað til þess arna. En ég vil láta það koma fram hér alveg ákveðið, að ég mun styðja að þeirri lausn sem þá þykir tiltæk til þess að standa við þessi fyrirheit. Það er alveg klárt.

Að lokum vil ég svo taka undir það sem hér hefur komið fram hjá fleirum en einum hv. þm., að lýsa stuðningi við þau áform að reyna að taka fyrir sérstök og ábatasöm stórverkefni í vegagerð og afla til þeirra sérstaks lánsfjár, sem þá aftur dreifðist á nokkru lengri tíma að greiða en meðan á framkvæmdum stendur. Ég er eindregið fylgjandi því, að þetta verði reynt, og hef reyndar staðið að tillöguflutningi í þá stefnu á hv. Alþ. í vetur.

Svo að lokum vil ég aðeins segja það, að þegar rætt er hér um vegi eða öllu heldur vegleysur Íslands og talað um vanþróun Íslendinga í vegamálum og höfð um það mörg orð og stundum stór, bæði hér á hv. Alþ. og annars staðar þar sem þessi mál eru rædd, þá held ég að sé þarflaust að gleyma því sem gert hefur verið í þessum málum. Það hefur ekki verið neitt létt verk að vega þetta land allt saman, vega hvern einasta fjallveg á landinu og leggja akfæran veg heim að hverju byggðu bóli, þetta hefur ekki verið neitt smáátak, og svo að brúa allar jökulár, allar ár á landinu. Og það er alveg óþarfi að strika yfir þetta þegar verið er að ræða þessi mál. Þó menn dvelji ekki við það lengi, þá eiga menn ekki að láta eins og aldrei hafi neitt verið gert hér í vegamálum, — en það er stundum gert. Ég er ekki að halda því fram, að það hafi verið gert sérstaklega í þessum umr., en það er alloft gert, bæði innan þings og utan, og því vík ég að þessu. Við eigum hér þakkir að gjalda, og ég vil ljúka þessum orðum með því að láta í 1jós þakklæti mitt til þeirra, sem nú starfa hjá Vegagerð ríkisins fyrir ágætt samstarf við þá stofnun fyrr og síðar.