22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5232 í B-deild Alþingistíðinda. (4604)

285. mál, vegáætlun 1979-82

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. fór nokkrum orðum um það, hvað vinstri stjórnir væru duglegar í samgöngumálum borið saman við stjórnir sem Sjálfstfl. væri í og eftir atvikum Framsfl.

Ég ætla nú ekki að fara að svara þessari speki og allra síst þegar vitnað er til áætlunargerða og aðaluppistaðan í þessum fullyrðingum eru fyrirætlanir á næstu árum. Það er upplýst að það liggur ekkert fyrir endanlega um það, hvernig aflað verður alls þess fjár sem þarf til að standa við þessar fyrirætlanir. Ég læt bíða að ræða þetta þar til við sjáum betur efndirnar í þessu efni.

En ég stóð nú ekki upp út af þessu, heldur af sérstöku tilefni. Það er vegna þess að hér hefur sérstaklega komið til umr. tenging Inndjúps. Það fer ekki á milli mála, að það er ákaflega þýðingarmikil samgöngubót fyrir þann landshluta sem um er að ræða. Þessi samgöngubót er svo þýðingarmikil, að það er lítt viðunandi og í raun og veru alls ekki viðunandi, að þar verði ekki brátt bót á ráðin. Það má segja að það hafi dregist of lengi að gera átak í þessum efnum og það hafi dregist of lengi að velja ákveðna leið fyrir tengingu Inndjúpsins við aðalakvegakerfi landsins. En það er upplýst nú, að það verður eftir nokkra mánuði hægt að taka endanlega ákvörðun um það, hvaða leið á að fara, og það er upplýst líka af Vegagerðinni og sérfræðingum Vegagerðarinnar, að það er hægt af tæknilegum ástæðum að hefja framkvæmdir þegar á árinu 1980. Það er því ekki alls kostar rétt, sem hæstv. samgrh. sagði í umr. fyrr í kvöld, að það væri ekki hægt af tæknilegum ástæðum, vegna þess að vegarstæðið væri ekki ákveðið, að hefja framkvæmdir við þessa vegagerð fyrr en árið 1981.

Ég er þakklátur hæstv. ráðh. fyrir að lýsa vilja sínum í þessu efni og skoðun sinni á því, að nauðsynlegt væri að flýta þessu og færa framkvæmdirnar fram um eitt ár, þannig að þær hefjist árið 1981 í staðinn fyrir á árinu 1982. En því miður varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum fyrst hæstv. ráðh. fór að minnast á þetta. Ég var að vonast eftir því, að hæstv. ráðh. lýsti yfir að hann mundi beita sér fyrir því og vinna að því að framkvæmdir yrðu hafnar á árinu 1981 og fjárframlög veitt í því skyni. En hæstv. ráðh. sagði aðeins að þetta yrði athugað sérstaklega, eins og hann orðaði það. Það er góðra gjalda vert að athuga hlutina, en það, sem gildir í þessu efni, eru raunverulegar framkvæmdir. Og ég vil nota þetta tækifæri til þess að skora á hæstv. samgrh. að vinna markvisst að því, að það geti orðið framkvæmdir í þessu máli á þann veg að þær hefjist á árinu 1981, en ekki á árinu 1982. Það er ekkert því til fyrirstöðu að það sé hægt, ef fjárveiting er fyrir hendi. Og ég veit það — og það hefur líka komið fram hér í umr. fyrr í kvöld frá hv. 3. þm. Vestf., að aðrir þm. Vestf. hafa sama áhuga á þessu og það verður gerð sú krafa af þm. Vestf. og af fólkinu, sem býr við þær fráleitu aðstæður, sem eru afleiðing af því að þetta verk er ekki þegar hafið og þessi dráttur verður á því, — það verður krafa þessa fólks, að það verði ekki lengur látið sæta því að búa við — aðrar aðstæður í samgöngumálum en allir aðrir landsmenn.