13.11.1978
Neðri deild: 14. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

38. mál, verðlag

Frsm. minni hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um afstöðu fulltrúa Sjálfstfl. í hv. fjh.- og viðskn. til þessa máls. Álit okkar er á þskj. 81, en þar leggjum við til að þetta frv. verði samþykkt með þeirri breyt., að í stað orðanna, „sex mánuðum eftir að þau eru staðfest“, eins og ákveðið er í lögunum, komi: tólf mánuðum eftir að þau eru staðfest. Þetta þýðir í raun, að lögin mundu öðlast gildi 16. maí 1979 í stað 1. nóv. eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Það er út af fyrir sig ánægjulegt, að hæstv. ríkisstj. eða hæstv. viðskrh. vilji vanda undirbúning að gildistöku laganna, — ég dreg það ekkert í efa, — en hins vegar teljum við fulltrúar Sjálfstfl. í n. að sex mánaða tími til viðbótar ætti að nægja til undirbúnings þess að lögin öðlist gildi. Það er út af fyrir sig ámælisvert, að hæstv. fyrrv. viðskrh. virðist ekkert hafa gert til þess að undirbúa gildistöku laganna, sem áttu að öðlast gildi nú 16. nóv. og öðlast þann dag gildi ef ekkert verður að gert. Okkur er hins vegar ljóst að slíkt er útilokað, svo margt er þar óunnið og raunverulega er allt óunnið til að undirbúa þessa gildistöku. Við teljum að ef vilji er fyrir hendi hjá hæstv. ríkisstj. til þess að lögin öðlist gildi sem fyrst, þá væri hægt að samþykkja brtt. okkar sem er á þskj. 81.