22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5241 í B-deild Alþingistíðinda. (4628)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Allshn. Nd. hefur í allan vetur á mörgum fundum verið að athuga það mál sem þessi till. fjallar um. Það var upphaflega skoðun nokkurra nm., að n. gæti á eigin vegum gert ályktun sem gæti þá farið fyrir Nd. og hefði ekki þurft að bíða eftir afgreiðslu hv. Sþ. En niðurstaðan varð þó sú, að nm. kusu að Alþ. allt segði álit sitt á því hvað gera skyldi í þessu máli.

Ég verð að segja það, að eigi önnur n. nú að fara að taka upp sama starf og við höfum verið að vinna í vetur, þá finnst mér það eins og Einbjörn sé að taka í Tvíbjörn, og e. t. v. kemur Þríbjörn þar á eftir eftir þessu alþekkta lögmáli.

Menn geta haft ýmsar skoðanir á því, hvort frumkvæði allshn. Nd. hafi átt rétt á sér. En ég bendi á það, að í þeirri n. eru að sjálfsögðu eins og öðrum þingnefndum fulltrúar allra þingflokka. Við vorum öll sammála um að láta þetta mál með einhverjum hætti til okkar taka og niðurstaðan liggur hér fyrir. Ég sé þess vegna ekki að það sé til framdráttar þessu máli að önnur n. fari að eyða öðru ári í að athuga það. Ef niðurstaða alþm. verður sú, að ævistarf Skúla Pálssonar skuli lagt í Laxalón og liggja þar óbætt hjá garði, þá er best að það komi fram nú þegar. Það er ekki hægt að leika sér að því endalaust að fjalla um málefni manna, — því að hér er vissulega um merkilegt starf að ræða, og fyrst og fremst er hér um að ræða — ég vil segja: afdrif einstaklings og fjölskyldu hans í efnahagslegu tilliti, — það er ekki hægt að bíða lengur eftir niðurstöðu þessa máls.

Eins og ég sagði í upphafi, herra forseti, geta menn eflaust endalaust deilt um hvort við hefðum ekki átt að láta þetta líða hjá eins og hvert annað óhapp í þjóðfélaginu. En það varð niðurstaða okkar allra að taka okkur fram um að reyna að kynna okkur þetta mál. Við höfum haldið um það fjölmarga fundi, kallað til fjöldamarga aðila til þess að reyna að fá sem sannastar upplýsingar, og það eina, sem við förum fram á, er að sett verði á stofn nefnd sem vinni hratt að þeim tilteknu verkefnum sem voru áðan lesin upp. Það má vel vera að ýmsum þyki það óviðkunnanlegt að ræða slíkt mál á þessum tíma sólarhrings, menn hefðu gjarnan viljað vera viðstaddir og taka þátt í umr. Það get ég út af fyrir sig vel skilið. En ég get ekki vorkennt þeim frekar en þá t. a. m. sjálfum mér. Ég veit ekki betur en ég hafi þrem sinnum í vetur verið strikaður út af mælendaskrá þegar mál voru tekin fyrir á þeim tíma sólarhrings sem er óeðlilegur fundartími, og ég hef ekkert sagt við því. Það er mín sök að vera ekki viðstaddur þegar þau mál, sem ég vildi taka þátt í, hafa verið rædd. Á sama hátt tel ég að þeir, sem láta sig þetta mál varða, hefðu átt að vera hér viðstaddir og mæla þá gegn því. Ég fer fram á það, að hv. Alþ. lýsi skoðun sinni í atkvgr. á því, hvort það telur þessa till. sanngjarna eða ekki. Ef hún fellur, þá sættum við okkur auðvitað við það. En ef hún verður samþ., sem ég vona, þá ætlast ég til þess og vænti þess og vona að niðurstaða fáist í þessum málum, því að óvissan er það sem er allra verst í þessu alvarlega máli fyrir þann sem í hlut á.