22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5243 í B-deild Alþingistíðinda. (4631)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef aldrei heyrt það þau ár sem ég hef setið á þingi að till., sem flutt er á Alþ., sé eitthvert dómstólamál. Ég hef aldrei vitað til þess, að Alþ. hafi vísað máli til dómstóla. Þetta er alveg ný kenning sem þessi hv. þm. hefur hér uppi. Ég tel það virðingarvert í alla staði að allshn. Nd. skuli koma sér saman um að flytja hér þáltill. um fiskeldi að Laxalóni. Hún er að hreyfa hér merku máli. Fiskeldismál eru meðal þeirra mála sem við Íslendingar stöndum ákaflega illa að vígi í. Það er sótt eftir víða að úr heiminum að kaupa af;okkur laxaseiði og silungsseiði eða regnbogasilung. Við erum engan veginn þess umkomnir að sinna þeim pöntunum. Við getum gert þetta að stórkostlegri útflutningsvöru, og ég skil ekki þá menn sem hlaupa alltaf í baklás þegar verið er að brydda upp á nýjungum. Hér er um mál að ræða sem er deilumál. Hvers vegna má ekki rannsaka þetta mál? Þegar allshn. flytur málið hér í þingi, þá átti till. hv. 2. þm. Suðurl. auðvitað að koma fram við fyrri. umr. þessa máls, að vísa því þá til n. En að koma hér fram kvöldið áður en þingi á að slíta og fara þá fram á að vísa máli til n., það er sama og að biðja um að drepa viðkomandi till. Ég er algerlega á móti slíkum vinnubrögðum, og ég tel það til minnkunar fyrir hv. þm. að standa hér upp í kvöld til þess að fara fram á það að drepa mál með þessum hætti. Ef menn eru á móti þessu máli og vilja fella það, þá skulu þeir bara sýna það þegar till. kemur til atkv., að þeir felli till. frá allshn. Ég skil ekki hvað er hér á bak við. Hvað eru menn að óttast? Hvers konar hugarfar er hér á bak við? Þetta er forpokað hugarfar sem allir eru búnir að fá nóg af. Hv. 5. þm. Norðurl. e. virðist vera talsmaður hugarfars sem tíðkaðist fyrir 100 árum, og ég óska honum til hamingju.