22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5250 í B-deild Alþingistíðinda. (4639)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Það virðist vera að þetta mál sé mjög viðkvæmt. Ég bjóst ekki við því að það væri svo sem hér hefur komið fram. En ég vil taka það strax fram í byrjun ræðu minnar, að ég var ekki við þegar 1. umr. fór fram um þetta mál og hafði þess vegna ekki getað óskað eftir að það færi til n. eins og venja er með þau mál sem eru tekin fyrir, hvort sem er í d. eða Sþ. (Gripið fram í.) Það er mjög eðlilegt, þó það sé n. sem flytur mál, að því sé vísað til n. eins og venja er . Ég veit ekki hver háttur hefur verið hafður á í þessu tilfelli. Það hefur kannske verið óskað eftir því sérstaklega, að það væru aðeins tvær umr. um þessa þáltill.

Það kemur fram í ræðum manna sem hafa talað með þessu máli, að þetta sé afskaplega gott mál og nauðsynlegt að koma því áleiðis. Ég sé þá ekki rök fyrir því, að það hefði ekki mátt skoðast í allshn. Sþ. Úr því að það var svona gott mál hefði ekki verið óeðlilegt að lofa n. að fjalla um það enn frekar en gert hefur verið. Það er búið að taka það fram hér, að það hafi verið kallaðir margir menn til þess að ræða við allshn. Nd., og ég hef ekki rengt það og mun ekki rengja. Ég veit að það er rétt, en ég var fyrst og fremst með það í huga, að þetta gengi eins og önnur mál og fengi eðlilega meðferð hér í Sþ.

Ég vil líka koma að fleiri atriðum sem minnst hefur verið á. Það er langt frá því að ég sé á móti því brautryðjendastarfi sem talið er að Skúli Pálsson á Laxalóni hafi unnið í fiskræktarmálum. Ég ætla ekki að rengja það. Ég er því ekki það kunnugur, að ég geti sagt um það, hvort hann hafi unnið það eða ekki. En ég vil segja það, að ég hef ekki lagt það til að sparka neitt í hann, eins og hér var sagt af einum hv. þm. Ég vil taka það fram, að þegar rætt er um þessi mál er gersamlega sneitt hjá því, að við Íslendingar eigum fiskræktarstöð sem er á vegum ríkisins. Það hefur ekki verið eitt einasta orð sagt um hana hér. Væri nú ekki alveg eins eðlilegt að Alþ. segði eitthvað um hana og legði þá frekar til hennar fjármuni til að halda áfram því tilrauna- og brautryðjandastarfi sem þar hefur farið fram? Ég vil segja það, að mér finnst hér skjóta dálítið skökku við, ef við eigum endilega að taka upp hanskann fyrir einstakling og leggja fjármagn til hans, frekar en í þá stöð sem íslenska ríkið hefur byggt upp og rekur og er fjárvana.

Ég þekki það ekki, að það hafi verið farið eins illa með Skúla Pálsson og hér hefur verið sagt. Ég vil því gjarnan að þetta mál fái þá meðferð, sem ég hef hér lagt til, og verði sent til nefndar.

Það hefur komið hér fram, að unnið hafi verið að þessu í allan vetur af allshn. Nd., og svo er sagt að ég sé að skjóta málinu á frest með því að óska að það fái þinglega meðferð og fari til n. og verði athugað. Af hverju var þessi n. ekki búin að skila þessu máli fyrr inn í Sþ. heldur en í lok þingsins? Ég held að það sé ekki síður eitthvað athugavert við það, að hún hafi verið að vinna að því í allan vetur. Hvað var svona vandasamt?

Nei, það er margt við þetta að athuga, og ég held að það sé ekkert á móti því, að þetta mál fái örlitið betri athugun, og að það sé ekkert á móti því m. a. vegna þess, að þessi till. eða þál., sem hér er til umr., er töluvert furðulega upp sett, eins og reyndar er búið að taka fram. Auk þess kemur alls ekki fram í þessari till., sem kannske er ekki von, hvað hún kostar þjóðina eða íslenska ríkið.

Það er e. t. v. enn þá réttara fyrir mig að óska eftir því, að till. fari til fjvn. heldur en hún verði send til allshn., en ég hafði fyrst og fremst það í huga, að eðlilegt væri að þessi till. fengi umfjöllun í nefnd eins og aðrar till. þó að hún komi frá allshn. Nd.

Þá vil ég aðeins minna á það, sem hér hefur áður komið fram, að í fyrsta kafla till. er gert ráð fyrir að skipuð verði þriggja manna nefnd sem falið verði að vinna að tilgreindum verkefnum, en það er alls ekki nefnt, hvernig á að skipa þessa nefnd. Er það ríkisstj., sem á að skipa hana, eða hver á að gera það? Það er ekki neitt um þetta í till. Og eiginlega er öll þessi uppsetning ákaflega furðuleg og laus í reipunum. Ég held að það veiti ekki af því að till. fari í n. og verði athuguð þar.