22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5251 í B-deild Alþingistíðinda. (4640)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að ræða neitt að ráði a. m. k. um þessa till. efnislega. Það er þó ekki ofsögum sagt af því, sýnist mér, að hún er dálitið furðulega upp sett. Ég sé ekki að það komi nokkurs staðar fram, hvernig á að skipa þessa nefnd. Ef Alþ. ætti að gera það, þá hefði ég álitið að það ætti að segja að Alþing: álykti að kjósa nefnd. En ef einhver annar á að skipa hana en Alþ., þá held ég að nauðsynlegt sé að taka fram hver það á að vera. Mér sýnist það vera út í bláinn að orða þetta svona. Og ég er alveg undrandi á því starfssviði sem þessari þriggja manna nefnd er ætlað að hafa. Hún á t. d. að meta brautryðjandastarf. Ég man aldrei eftir að ég hafi séð það, að þingnefnd hafi verið skipuð til þess að meta brautryðjandastarf einhvers manns. Það hlýtur þá að verða mikið brautryðjandastarf sem þessi nefnd hefur með höndum. Það verður töluvert vandasamt að móta það þannig, að vel fari á, og væntanlega hefur það töluverða þýðingu upp á framtíðina, því að þarna verður gefið fordæmi fyrir því, hvernig á að meta brautryðjandastörf af skipaðri nefnd að undirlagi Alþingis. Þetta þykir mér stórfurðulegt, satt að segja.

Svo segir hér að nefndin eigi að meta verðmæti stöðvarinnar að Laxalóni. Jú, en eins og einn hv. ræðumaður benti á áðan væri ekki óeðlilegt að tryggja það, að til kæmu menn sem hefðu kunnáttu til að meta slíkt. En hvað um það, hér segir að það eigi að meta verðmæti stöðvarinnar að Laxalóni með það fyrir augum að Alþ. samþykki að ríkið festi kaup á henni. Þetta þykir mér dálítið merkilegt. Og ég er að velta því fyrir mér, hver er munurinn á því að meta þessa stöð með það fyrir augum, að ríkið kaupi hana, eða meti hana með eitthvað annað fyrir augum eða bara meti hana blátt áfram. Eitthvað sérstakt hlýtur að vaka þarna fyrir mönnum. En mér kemur í hug frásögn Laxdælu af því, þegar Snorri goði höndlaði við stjúpa sinn með fóðurleifð sína.

Þetta er nokkuð, satt að segja, sem er mjög furðulegt og torskilið í þessari till. Nú geta auðvitað verið deildar meiningar um það, — og ég er ekkert að fordæma aðra þm. þótt þeir hafi aðra skoðun á því en ég, — en mér finnst það mjög óeðlilegt að taka fyrir einn einstakling á þann hátt, sem hér er gert, og gera hans mál að þingmáli með þessu móti. Mér finnst það ekki eðlilegt, og ég fékk ekki betra álit á þessum málatilbúnaði við það að sjá viðbrögð hv. 1. þm. Vestf. við — ég vil segja: minni háttar mótblæstri hér í hv. Sþ. Þau voru ákaflega hörð og snögg. Þessi ágæti vinur minn og geðgóði maður virtist verða svo reiður af þessum — sem ég tel — minni háttar mótblæstri, að ég varð alveg hissa. Og sem sagt, ég fékk ekki aukið álit á þessu máli við þau viðbrögð hans.

Ég ætla að standa við það, ég skal ekki fara mörgum orðum um efni þessarar till. En mig langar til að segja örfá orð í sambandi við þær umr., sem hér hafa orðið um meðferð till. í Sþ., með tilliti til þess sérstaklega að hún er flutt, eins og segir á þskj., af allshn. Nd. Þetta þykir mér eftirtektarvert. Það getur vel verið að þetta hafi gerst áður, en ég man ekki eftir því. Náttúrlega er ekki neinn atburður fordæmanlegur fyrir það eitt að hann hefur ekki gerst áður.

Nú sýnist mér það liggja alveg í augum uppi, að miðað við allar venjur hefði átt að vísa þessari till. til fjvn. við 1. umr. hennar. Það er venja að ákveða tvær umr. ef till. hafa mikla fjárhagslega þýðingu, og eins og þetta er upp sett, þá getur maður ekki annað en reiknað með því, að framkvæmd till. gæti haft mikla fjárhagslega þýðingu.

Nú var till. ekki vísað til fjvn. eða annarrar n. við 1. umr., og ég er auðvitað ekki að sakast um það við einn eða neinn. Ég hefði getað verið hér viðstaddur og gert þá till. um það. Hins vegar benti hæstv. forseti á það, að samkv. þingskapalögum má vísa till, til n. á hvaða stigi umr. sem er. En á því að vísa till. til n. nú eru vitanlega þau vandkvæði, sem hv. þm. sem hér hafa talað og eru stuðningsmenn þessarar till. hafa bent á, að þá er ekki líklegt eða næstum útilokað að hún yrði afgreidd á þessu þingi, svo það er dálítið snúið.

En ég vil segja það sem mína skoðun, að ég get ekki séð að það skipti nokkru máli um það að till. sé vísað til n. eða ekki í Sþ., þótt n. í annarri hvorri d. flytji hana hér. Ég get ekki séð að það skipti nokkru máli, hvort t. d. þeir menn sem hafa undirbúið þessa till., fulltrúar í allshn. hv. Nd., hafa undirbúið hana í nafni nefndarinnar eða bara sem þingmannahópur. Ég átta mig ekki á því, að það geti skipt nokkru máli. Og ef taka ætti þann sið upp, að beita nefndunum eftir því sem við verður komið í öðrum hlutum þingsins en þær eru kosnar í, þá held ég að um það hljóti að vakna ákaflega margar spurningar, hvernig með skuli fara. Ef nefnd úr deild getur flutt mál í Sþ. og það er talin nægileg athugun, af því að það er nefnd í deild, væri þá t. d. hægt að hugsa sér að vísa máli hér í Sþ. til skoðunar hjá nefnd í deild? Ég hugsa að mönnum fyndist það óeðlilegt, og ég álít það líka að það væri mjög óeðlilegt. En efnislega væri það þó ekki annað en það sem menn eru að tala um hér, að af því að nefnd í deild hefur skoðað málið þurfi það ekki sérstaka skoðun í Sþ. Efnislega væri það það sama að senda það t. d. allshn. hv. Nd. til skoðunar. Og mér kemur í hug sá möguleiki, ef t. d. þetta væri tíðkanlegt orðið hér, að nefndir í mismunandi deildum þingsins gætu gert sig gildandi í öðrum hlutum þings, þá sé ég ekki að neitt væri því til fyrirstöðu, að t. d. meiri hl. fjvn. flytti mál í Nd., en mér sýnist að það væri mjög óeðlilegt, og eins að minni hl. fjvn. flytti aftur mál í Ed. Ég nefni þessa nefnd sem dæmi, því að ef nefndir verða virkar og geta komið svona fram, nefnd í Nd. getur komið fram í Sþ. o. s. frv., því skyldi þá ekki hluti nefndar í Sþ., sem á sæti í viðkomandi deild, geta komið fram sem slíkur? Þetta held ég að menn þurfi allt vel að skoða, ef á annað borð er farið út í slíkt. Og mér finnst sérstök ástæða til þess að íhuga þetta og velta þessu aðeins fyrir sér, af því að því menn hafa hér borið það í mál, að vegna þess að þessi till. hafi verið undirbúin og flutt af nefnd í annarri málstofu en hér situr í kvöld, þá þurfi ekki að vísa henni til nefndar. Það er svo auðvitað matsatriði að öðru leyti, því að það er ekki neitt einsdæmi að mál fari ekki til nefnda. Við því er ekkert að segja, það hefur oft gerst og er ekkert fordæmanlegt út af fyrir sig.

Ég veit ekki betur en sá háttur hafi verið á hafður hér á hv. Alþ. til þessa, að hver málstofa, ef má nota það orð, eða hver hluti þingsins hafi búið við sínar nefndir, þær hafi starfað innan þess hluta, en ekki sem slíkar í öðrum hlutum þingsins. Og ég held satt að segja að það sé töluvert örðugt að framkvæma þetta á annan hátt. Það er a. m. k. atriði sem menn verða að skoða í heild.

Þessar hugleiðingar vildi ég láta koma hér fram, sérstaklega í tilefni af þeim orðum sem hér hafa fallið um að það væri út í bláinn að vísa málinu til nefndar í Sþ. vegna þess að það hefði verið unnið af nefnd í annarri þd.

Ég vil svo að lokum segja það, að við að líta á þessa till., hvernig hún er uppbyggð, og svo einnig það, að með till. er auðsjáanlega stefnt að verulegum útgjöldum, þá held ég að það veitti ekki af að till. yrði tekin til skoðunar og þá að sjálfsögðu í hv. fjvn.