22.05.1979
Efri deild: 114. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5262 í B-deild Alþingistíðinda. (4647)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég tek nú hér til máls ekki síst af því, að ég bý í sveitarfélagi sem fyrir mörgum árum lét öðru sveitarfélagi í té sín mestu auðæfi, þ. e. heita vatnið, og enn fremur vegna þess, að íbúar Mosfellssveitar gera sér grein fyrir því í dag, hve aðstaða þeirra væri á allan hátt allt önnur ef þessi auðæfi hefðu ekki verið látin burt úr sveitarfélaginu.

Varðandi þetta mál vil ég segja það, að í stjórnarskrá okkar er gert ráð fyrir eignarnámi þar sem almenningsheill varðar að slíkt fari fram, og ég er þess vegna hlynntur því, að þau miklu auðæfi, sem þarna er um að ræða, verði nýtt og tekin eignarnámi. Ég ætlaði nú eiginlega að spyrja hæstv. iðnrh. smáspurningar, aðallega vegna þess að hann gat þess að hann hefði skipað starfshóp lærðra manna til að athuga þessi mál frá öllum hliðum. Það, sem mig langaði til að fá að vita, er hvort það væri þessi starfshópur sem hefði gert till. um 12.5 millj. kr. árlega greiðslu fyrir hráefni Deildartunguhvers, þ. e. heita vatnið í Deildartunguhver. Þessi upphæð, sem nemur vöxtum af 50 millj. kr., er á þann veg að mér finnst varla hægt að ætlast til þess, að eigendur þessa hvers séu tilbúnir til langra viðræðna við aðila sem telja þetta vera sitt lokatilboð.

Aftur á móti hefur mér alltaf fundist sú afstaða opinberra aðila áberandi, að þeir væru ekkert ginnkeyptir fyrir eignarnámi. Þess vegna gleðst ég í raun og veru yfir því, að stefnubreyting skuli hafa orðið í þeim málum og þeir nú tilbúnir til að taka eignarnámi auðæfi sem þarf að nota til almenningsheilla, og þá þannig, eins og stjórnarskráin segir, að full greiðsla komi fyrir og samninga sé leitað áður. Ég tel að samningar með þeim hugsunarhætti, sem virðist hafa legið til grundvallar þarna, sem sagt 12.5 millj. kr. greiðsla, séu óhugsandi, og því finnst mér það vera mjög sanngjarnt og eðlilegt að eignarnámsheimild fáist og að þetta mál fái greiðan gang gegnum okkar deild.

Það er margt sem stuðlar að því, að hægara er að meta slíkar eignir nú heldur en var fyrir nokkru. Ég vil í því sambandi geta þess, að þarna mun vera um svipað magn af 100°C heitu vatni að ræða og er hjá Hitaveitu Akureyrar núna af 95°C heitu vatni, þ. e. um 160–180 sekúndulítrar, og opinberum aðilum ætti því að vera í lófa lagið að fá upplýsingar um hvað heita vatnið á Akureyri kostar á staðnum, þegar það kemur upp úr borholunum. Þó er þess að gæta, að þar verður að dæla vatninu upp, en í Deildartungu kemur það sjálfrennandi.

Ég vil geta þess, að ég hefði talið eðlilegra að sveitarfélögin, þar sem hverinn er og svo þau sem ætla að nota hitaveituna, mynduðu með sér sameignarfélag og ættu þar jafna aðild að. Um þetta eru fordæmi, eins og á Suðurnesjum. Þar hafa sveitarfélögin sameinast um að kaupa slík réttindi og eiga þar jafna aðild, hvort sem þau eru stór eða smá. Þetta finnst mér sanngirni, og ég veit að sá hreppur, þar sem heita vatnið er, á eftir að njóta þess í ríkum mæli, svo framarlega sem þannig verður frá gengið að hann eigi kost á að nýta það. Síðan Arabar hækkuðu olíuna svo mjög er aðstaðan allt önnur til hagnýtingar á þeim auðæfum sem hér er um að ræða, og ég vil geta þess t. d. varðandi Hitaveitu Suðurnesja, sem nú er orðin mjög merkilegt og stórt fyrirtæki, að fyrir 10 árum var það reiknað út, að ekki borgaði sig með nokkru móti að leiða heitt vatn frá þeim stað, þar sem það er tekið, og til byggðarinnar. En sú skyndilega hækkun, sem orðið hefur á orkukostnaði, hefur gerbreytt þessum viðhorfum.