13.11.1978
Neðri deild: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

38. mál, verðlag

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég harma að það frv., sem samþ. var 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, skuli nú vera komið á frestunarstig í þessari hv. deild. Ég lagði til við samþykkt þessa frv., að það tæki gildi þegar í stað í maí 1978, þar sem ég taldi ekki nauðsynlegt að hafa þann aðdraganda að breytingunum sem til voru lagðar af embættismönnum á þeim tíma.

Ég harma líka að samkv. þeim aths., sem liggja hér frammi, hefur ekkert verið gert til þess að undirbúa gildistöku laganna og á þeim forsendum skuli þurfa að fresta gildistöku þeirra. Ástæðan er samkv. grg. óvissan sem ríkt hefur í stjórnmálum í sumar, hún eigi verulegan þátt í að framgangur þessa máls hefur tafist. Ég vissi ekki að óvissa í stjórnmálum, — þ.e.a.s. hjá fyrrv. ríkisstj. og mér skilst að ekki ríki minni óvissa í stjórnmálum síðan núv. ríkisstj. tók við, — gæti orðið þess valdandi að samþykkt lög næðu ekki gildi á tilsettum tíma og framkvæmd þeirra væri frestað.

En það, sem kemur mér til að standa upp, er eftirfarandi, sem stendur í næstsíðustu málsgr. grg. Ég ætla að lesa upp eina línu úr grg., með leyfi forseta, og hún hljóðar svo:

„Jafnframt er talið brýnt að fresta gildistöku laganna, þar sem nú stendur yfir sérstök rannsókn á innflutningsstarfseminni.“

Ég sé ekki að það sé brýnt að fresta gildistöku laganna vegna þess arna. En úr því að svo er vil ég gjarnan beina því til ríkisstj., sem ætlar að nota frestun á gildistöku laganna til þess að kanna innflutningsverslunina, að útflutningsstarfsemin verði líka rannsökuð, það verði ekki bara innflutningsstarfsemin, heldur verði útflutningsstarfsemin einnig könnuð, því að milliliðir eru miklu fleiri í útflutningi á t.d. landbúnaðarafurðum en nokkurn tíma í innflutningi. Mér er sagt að t.d. í kjötvöruframleiðslunni sé ekki eingöngu kaupfélagið sem taki við afurðunum, heldur sláturhúsin, síðan Sambandið, þá útflutningsdeildir o.s.frv. — það séu fimm eða sex milliliðir á útflutningsstarfseminni.

Þessu til viðbótar liggur hér fyrir hæstv. landbrh. fsp. frá mér um álagningu á útflutning landbúnaðarafurða. Ég álit að það séu miklu meiri samkeppnishömlur á útflutningsafurðum okkar en á innflutningi. Því legg ég ríka áherslu á það, að ef frestunartími er nú lengdur á gildistöku þessara laga, þá á að nota hann til að rannsaka innflutningsstarfsemina, en útflutningsstarfsemin verði líka rannsökuð og fyrir liggi niðurstöður af þeirri könnun þegar gildistaka þessara laga á sér endanlega stað.