22.05.1979
Efri deild: 114. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5266 í B-deild Alþingistíðinda. (4653)

311. mál, tímabundið aðlögunargjald

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um sérstakt tímabundið aðlögunargjald. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt. Minni hl. mun gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins.

Í aths. við frv. þetta er gerð grein fyrir aðdragandanum að þessu máli, hver þörfin er og hvernig að því hefur verið unnið að vinna því stuðning eða samþykki annarra landa innan EFTA. Það kom fram síðast nú í fréttum í kvöld, að það þykir hafa verið vel að þeim málum staðið af hendi Íslendinga, enda þótt sumir fulltrúar þar segi að þetta orki mjög tvímælis að þeirra mati. En þrátt fyrir það var búið að bera þetta undir fund á vegum EFTA og fá samþykki.