22.05.1979
Efri deild: 115. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5269 í B-deild Alþingistíðinda. (4668)

275. mál, skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. erum við fulltrúar Sjálfstfl. í n. á móti þessu frv. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, komu nokkrir aðilar á fund n. Ræddi n. við þá og sýndist sitt hverjum. Eins hefur nm. nú í kvöld borist ljósrit af umsögn bankastjórnar Landsbanka Íslands um þetta frv. Í því plaggi koma fram almennar hugleiðingar og má líta svo á kannske, að bankastjórnin mæli ekki beinlínis á móti þessu frv. En við nánari lestur þessa bréfs bankastjórnar Landsbanka Íslands er aðalinnihald þeirrar umsagnar að gæta hagsmuna bankans sem gjaldeyrisbanka gagnvart ákvæðum laga um ráðstöfunarfé gjaldeyrisbankanna og um heimild þeirra til þess að haga lántökum sínum erlendis og yfirleitt meðferð þess aflafjár í erlendum gjaldeyri sem bankanum kann að auðnast á hverjum tíma, þannig að á þessari umsögn bankastjórnar Landsbankans er lítið að græða, nema þá helst að maður gæti dregið af henni þá ályktun, að ekki væri ríkjandi nein sérstök frjálshyggjustefna hjá meiri hl. bankastjórnar Landsbanka Íslands um það leyti, sem þetta bréf er skrifað, hinn 12. mars 1979.

Það má í sambandi við þessi mál benda á dálítið athyglisvert, einmitt þegar við erum að ræða þessa umsögn bankastjórnar Landsbankans, og það sýnir að mörgu leyti þau vinnubrögð sem núv. stjórnvöld viðhafa. Þessi umsögn er dags. 12. mars og þá er bankastjórnin að svara bréfi sem henni hefur borist frá viðskrn. 19. febr. Hinn 19. febr. liggur þetta frv. fullsamið. En það er ekki hægt að sýna það hér í hinu háa Alþingi fyrr en 26. apríl, þannig að það er ekki hægt að gefa þinginu eðlilegan tíma til þess að athuga frv. og ræða það á breiðum grundvelli. Ef meiri tími hefði verið til stefnu til þess að ræða það mál sem þetta frv. fjallar um, þá er mér a. m. k. mjög til efs að álit meiri hl. fjh.- og viðskn. hefði verið á þann hátt sem raun hefur á orðið, því að ef maður fer að skoða þetta grannt, þá er ekkert í þessu frv. sem er bitastætt og getur orðið til þess að greiða fyrir gjaldeyrisviðskiptum hjá þjóðinni eða greiða fyrir meðferð þeirra. Það er ekkert í þessu frv. sem ekki er hægt að framkvæma á þann veg að breyta reglugerð sem gildir um þessi málefni. Sú reglugerð er frá 1960.

Það mætti segja að það væri kannske einn tilgangur sem kæmi ljóslega fram við það, að endilega þyrfti að búa til frv., og hann felst í því, eins og ég lagði áherslu á í máli mínu í sambandi við 1. umr. þessa frv., að í frv. því, sem nú gildir, stendur að innflutningur á vörum til landsins skuli vera frjáls. Þetta orð: frjáls, frelsið, hljómar svo illa í eyrum núv. ráðamanna um viðskipti og peningamál að það varð að búa til frv. sem útilokaði slíkt orð, og kannske er þetta meginforsendan fyrir því, að þetta frv. er lagt fram. Og þá segi ég bara: Ef sú tilgáta er rétt, þá spyr ég ekki að framkvæmdinni. Hún verður eins og til er stofnað.