22.05.1979
Neðri deild: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5272 í B-deild Alþingistíðinda. (4677)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í síðustu mgr. till. minnar sagði, með leyfi forseta:

„Tillögur þessar verði lagðar fyrir ríkisstj. svo tímanlega að færi gefist á að taka afstöðu til hugsanlegrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu í þessu skyni við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjáráætlunar á næsta reglulegu Alþingi.“

Þetta var fyrst samþ. af þessari hv. d. Síðan samþykkir hún viðbótarályktun við þetta, sem stangast gersamlega á við niðurlag ákvæðisins sem hún hafði áður samþykkt, sem mælir fyrir um, að þá ákvörðun sem er tekin með þessum hætti, eigi ekki að taka fyrr en á næsta þingi. Þetta er mjög óeðlileg meðferð máls. Ég mótmæli þessum aðferðum. mjög harkalega. Ég segi nei við þeirri afgreiðslu, sem hér fer fram, og við þeirri till., sem hér er samþ.; og geng úr þingsal þangað til þetta mál verður útkljáð, ef það verða þá nægilega margir eftir til þess að hægt sé að gera það.