23.05.1979
Sameinað þing: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5279 í B-deild Alþingistíðinda. (4722)

116. mál, endurskoðun meiðyrðalöggjafar

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Í ræðu, sem ég flutti í gærkvöld, gerði ég grein fyrir þeirri afstöðu minni, að fylgi mitt við þessa þáltill. byggðist á eftirfarandi:

Hinn 8. maí 1979 samþykkti hv. Alþ. till. til þál. um aðild Íslands að alþjóðasamningum um mannréttindi. 19. gr: þessa sáttmála hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Allir skulu eiga rétt á að ráða skoðunum sínum afskiptalaust.

2. Allir skulu eiga rétt til að láta í ljós skoðanir sínar; í þessum rétti felst frelsi til þess að leita, taka við og miðla alls konar vitneskju og hugmyndum án tillits til landamæra, annaðhvort munnlega, skriflega eða á prenti, í formi lista, eða eftir hverjum öðrum leiðum öðrum að þeirra vali.

3. Sérstakar skyldur og ábyrgð felast í því að nota sér réttindi þau sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar: Því má takmarka þessi réttindi að vissu marki, en þó aðeins að því marki sem mælt er í lögum og er nauðsynlegt: a) til þess að virða réttindi og mannorð annarra; b) til þess að vernda þjóðaröryggi eða allsherjarreglu eða heilbrigði almennings eða siðgæði.“

Við sjálfstæðismenn allir greiðum atkv. með þessari till. á þeirri forsendu að þessi grein í mannréttindasáttmála, sem ég hef lesið upp, verði lögð til grundvallar við þá endurskoðun sem framkvæmd verður.