14.11.1978
Sameinað þing: 19. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

54. mál, fjárlög 1979

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það hefur oft verið sagt við umr. um frv. til fjárl., að þau endurspegli stefnu viðkomandi ríkisstj. í efnahagsmálum. Satt að segja ættu allir góðviljaðir menn að biðja þess og vona að svo væri ekki að þessu sinni. Samt sem áður verður að horfast í augu við staðreyndir.

Frv. til fjárlaga fyrir árið 1979, er eindæma óskapnaður í því formi sem það er lagt fyrir Alþingi. Í frv. eru ótal fyrirvarar og lausir endar, margir liðir eru vanáætlaðir og sumir finnast ekki í frv. Allt þetta svo og málflutningur hv. stjórnarsinna nú við þessar umr. og tillöguflutningur afhjúpaður djúpstæðan ágreining milli stuðningsmanna núv. ríkisstj. um höfuðatriði efnahagsstefnunnar í þessu, landi, um höfuðatriði ríkisfjármálanna, m.a. í vaxtamálum, í skattamálum, stefnu í fjárfestingu, ríkisfjármálum og tollamálum.

Hv. 1. þm. Austurl. taldi hér upp fyrirvara í 9 liðum, sem hv. þm. Alþb. hafa við þetta frv. að athuga. Hann taldi þar upp meginatriði eins og t.d. niðurskurð framkvæmda. Hann taldi þar upp, að ekki mætti hverfa frá niðurgreiðslu þeirri sem ákveðið var að efna til í des., en gert er ráð fyrir því í frv. Hann hafði fyrirvara um tollalækkanir og fyrirvara um að það yrði að skera niður ríkisbáknið, halda sér við skyldusparnað, lækka sjúkratryggingagjaldið o.s.frv., og endaði með því að segja, að þeir hv. þm. Alþb. hefðu ýmsa aðra fyrirvara. Það er býsna teygjanlegt hugtak.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði að Alþfl. mundi ekki samþykkja suma meginliði þessa fjárlagafrv., eins og t.d. skattastefnuna í frv., og lái ég honum það satt að segja ekki eftir þær orðræður sem hann og flokksbræður hans hafa haft uppi á hv. Alþ. og annars staðar um skattamál. Ég skal koma að því seinna. Hann hafði fyrirvara um aðra veigamikla þætti frv., aðallega á sviði landbúnaðarmála, og þar gat hann þess í leiðinni, að einn liður frv. væri vanáætlaður um allt að 1 milljarð kr. En það er bara einn af fjölmörgum liðum sem eru vanáætlaðir um svipaða upphæð eða jafnvel hærri.

Það er í rauninni mjög mikið álitamál að minni hyggju, hvort það er virðingu Alþingis samboðið að ræða frv. til fjárl. miðað við þær forsendur sem hér liggja fyrir. Lúðvík Jósepsson, hv. 1. þm. Austurl., sagði í umr. um daginn, að þetta frv. væri fyrsta skyndiyfirferð ríkisstj. yfir ríkisfjármátin, og það finnst mér góð yfirskrift yfir þessu frv. Þrátt fyrir alla þessa fyrirvara viðurkenndi hv. 1. þm. Austurl., að þetta frv. væri stjórnarfrv. og að þm. stjórnarflokkanna bæru á því ábyrgð sem stjórnarfrv., og verður því að ræða stefnu þess á þeim grundvelli að stjórnarflokkarnir beri á henni fulla ábyrgð.

Það, sem vekur einna mesta athygli í þessu frv., er sú stórkostlega svikamylla sem stefnt er að í skattamálum og talnaleik með kaupgjaldsvísitöluna, Í aths. frv. segir: „Frv. felur í sér auknar tekjur ríkissjóðs í formi beinna skatta sem ekki leiða til sjálfkrafa hækkunar launa og verðlags.“ Hækkun á innheimtum tekju- og eignarsköttum, sem hér er að sjálfsögðu átt við, nemur samkv. gr. frv. um 16 milljörðum kr. Það er kaldhæðnislegt, að þeir stjórnarflokkar, sem kenna sig einkum við verkalýð og alþýðu, segja beinlínis í grg. með frv. að gripið sé til þessara skattstefnu vegna þess að launþegar fái hana ekki borna uppi í kaupbótum með hærri vísitölu. En þó er þeim mun kaldhæðnislegra, að ætlunin með þessari gífurlegu skattheimtu er að standa undir fjármögnum á niðurgreiðslum um svipaða eða sömu upphæð. Þetta er gert þannig, að felldur er niður söluskattur á matvörum, sem þýðir 5300 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð og er í rauninni niðurgreiðsla á matvörum, og með hækkun á beinum niðurgreiðslum um II milljarða. Þetta lækkar kaupgreiðsluvísitölu frá því, sem hún hefði annars orðið á næsta ári, um 9–10% af því sem marka má og fram hefur komið í þessum umr. M.ö.o.: úr vösum alls þorra launafólks eru teknir 16 milljarðar kr., eða það er áformað í þessu frv., og þetta sama fólk er látið greiða niður fyrir sér kaupið um 9–10%. Þetta kemur a.m.k. þannig út fyrir allan þorra launafólks.

Fyrrv. stjórnarandstæðingar telja þetta sjálfsagt mikla snilli og hið mesta bjargráð fyrir launþega, þótt þeir hafi nefnt það kauprán þegar Alþ. ákvað, að hluti vísitölubóta yrði ekki greiddur á laun samkv. samningi, til þess að draga úr skrúfugangi hækkana launa og verðlags, en slík verðbólguskrúfa er sem kunnugt er þyngst í skauti láglaunafólks.

Menn spyrja e.t.v. vegna þessa: Hefur þetta ekki verið gert áður? — og jafnframt, hvort þetta komi ekki launafólki og sérstaklega hinum lægst launuðu að gagni og bæti kjör þessa fólks.

Auðvitað hefur þessari aðferð verið beitt áður til áhrifa á vísitöluna, en aldrei í svipuðum mæli og nú. Auk þess hafa neysluvenjur alls almennings breyst á síðustu árum og áratugum í þessu landi, síðan vísitölugrunnurinn var reiknaður úr. Á sínum tíma var matvara, einkum landbúnaðarvörur, miklu meiri þáttur í framfærslu alþýðuheimila en nú er. Þess vegna fæst stórlega ýkt mynd af þeim kjarabótum, sem launþegar fá í raun, með niðurgreiðslum. Láglaunafólk á erfitt með að hamstra matvörur. Það varð á eftir í kapphlaupinu um kjarabótakjötið. Þegar við þetta bætist að beinar eða óbeinar niðurgreiðslur breyta mjög neysluvenjum fólks og skrumskæla verðmyndun í landinu og framleiðslu þessara vara. Ég er sammála hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um það, að einsýnt er að þessi niðurgreiðsluleið er hvorki farsæl fyrir neytendur né framleiðendur, alveg sérstaklega ef á að fara hana með jafnýktum og öfgafullum hætti og nú er stefnt að.

Ekki verður hjá því komist, að ræða nánar, áður en lengra er halið, þá skattastefnu, stórhækkun tekju- og eignarskatta, sem ætlað er að fjármagna bótalaust úr vasa almennings, þessa miklu vísitölufölsun sem ég vil kalla. Það er út af fyrir sig athyglisvert, að hluta af þessari stórhækkun tekju- og eignarskatta ætla vinir alþýðunnar, sem nú ráða ferðinni á stjórnarheimilinu, að ná með því að seilast lengra niður í tekjuþrepin og hækka skattprósentu á lægri tekjum, svo sem fram kom hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Þetta er gert með því að láta skattvísitöluna hækka einungis um 43% á sama tíma og frv. gerir ráð fyrir rúmlega 50% hækkun launatekna milli ára. Slíkri aðferð hefur að vísu verið beitt fyrr, en var þá harðlega gagnrýnd af fyrrv. stjórnarandstöðu. Með þessum sérstaka hætti er ætlunin að ná í álögur, 3700 millj. kr. aukatekjuskatt, þ.e.a.s. með nýrri skattlagningu á lægri tekjur. En það er rétt, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði, að miðað við innheimtu þessa sérstaka aukatekjuskatts á lægri tekjur verður innheimtan á árinu 1979 áætluð 2900 millj. kr.

Það hefur verið staðföst stefna okkar sjálfstæðismanna í skattamálum að draga svo mjög úr sköttum á tekjuöflun, að einungis sé um sérstakan skatt til ríkissjóðs að ræða af hátekjum, þorri launafólks verði undanþegin tekjuskatti. Aftur að móti viljum við skattleggja eyðslu að svo miklu leyti sem brýn þörf er á til sameiginlegra þarfa. Rökin fyrir þessu eru augljós. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson tíundaði sum af þessum rökum okkar sjálfstæðismanna vel í umr. um fjárlagafrv. á síðasta þingi að því er varðar tekjuskattinn. Hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Tekjuskatturinn er óréttlátur, hann mismunar fólki gróflega, býður upp á fjölmargar leiðir til löglegra undanbragða, verkar sem fjötur á vinnuvilja, enda er um að ræða hreinan launamannaskatt.“ Ég get bætt því við, að ég er honum hjartanlega sammála, að með þeirri skattstefnu, sem nú kemur fram í þessu frv., er verið að gera þennan skatt að enn meiri launaskatti og það með atfylgi Alþfl.

Þegar við sjálfstæðismenn bárum síðast ábyrgð á ríkisstj. lækkuðu beinir skattar sem hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs úr 27% í 18%, í samræmi við þá skoðun okkar í skattamálum sem ég hef hér lýst. Nú hefur Alþfl. fengið ráðherrastóla til umráða, og menn skyldu því ætla að áfram verði haldið á sömu braut, þótt sjálfstæðismanna njóti ekki lengur við, sem stefnan er svo lík sem raun ber vitni. Þessu er þó ekki aldeilis að heilsa. Við verðum að vona að þeim Alþfl.-mönnum verði eitthvað ágengt í þessu efni.

Ég vil frábiðja mér þær kveðjur sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sendi okkur sjálfstæðismönnum í skattamálum í umr. á síðasta þingi, en þá sagði hann að okkur hefði skort þrek og festu í skattamálum. Ég hygg að öllum almenningi á Íslandi sýnist enn að Alþfl. skorti þrek og stefnu í skattamálum, en vonandi rætist úr og birtir til um síðir. Eyjólfur hressist kannske fyrir jólin, og Alþfl. hrindir af sér þeirri skattastefnu sem fram kemur í þessu frv. og er eins og hv. þm. lýsti að það er verið að gera tekjuskattinn að meiri launamannaskatti en áður.

Ég vona að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, sem sagði í umr. um daginn að hann styddi ríkisstj. ekki bara til góðra verka — (Gripið fram í.) — hann sagði ekki bara til góðra verka, en bætti við til misgóðra verka, — ég vona að hann hafi ekki átt við það, að hann muni ætla að styðja ríkisstj. í þessari skattastefnu sinni.

Í framhaldi af þessari lýsingu minni á svikamyllu skattaálaga og niðurgreiðslna, sem stefnt er að með þessu frv., vil ég fara nokkrum orðum, um nokkra meginþætti frv. að öðru leyti, en geyma ýmsa smærri liði til síðari umr.

Fyrst verður fyrir niðurskurður verklegra framkvæmda. Ég get út af fyrir sig verið sammála því að skera þau niður í ríkiskerfinu þegar svo er ástatt eins og verið hefur um skeið, að glíma þurfi við 30–50% verðbólgu. Þetta varð að gera í tíð fyrrv. ríkisstj., enda fengum við ótæpilega gagnrýni frá þáv. stjórnarandstæðingum einmitt fyrir mikinn niðurskurð. Í þessu veldur þó hver á heldur, eins og oft vill verða. Niðurskurðurinn nú beinist svo til einvörðungu að framkvæmdaliðum, og eins og fram kom hjá hv. fyrrv. fjmrh., Matthíasi Á. Mathiesen, hækka rekstrarliðir þessa frv. meira en sem verðbólgu nemur. Ríkisbáknið í þessu frv. er bæði kyrrt og bólgnar út. Sparnaður í ríkisrekstri, ef frá er talin hagræðing í kennslu og vaktafyrirkomulagi o.fl., sem till. voru komnar um frá fyrrv. fjmrh., fyrirfinnst hvergi í þessu frv. og viðleitni í þá átt er engin. Það óræða orðalag í fyrirvara þeirra hv. þm. Alþb., að stefnt skuli að eins milljarðs kr. sparnaði í rekstri ríkisins, er alveg furðulegt, ekki síst vegna þess, að láta mun nærri að rekstrargjöld ríkissjóðs hækki umfram verðlagsbreytingar einmitt um þennan eina milljarð. Að því er varðar verklegar framkvæmdir, þá er magnminnkun þeirra mikil, svo sem fram kemur í frv. Samkv. gögnum, sem fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur látið mér í té, nemur niðurskurður framkvæmda sem svarar tæpum 9 milljörðum kr. á næsta ári, þ.e.a.s. frv. þyrfti að hækka um nálega 9 milljarða til þess að unnt væri að halda uppi sömu framkvæmdum fjármögnuðum í A-hluta fjárlaga og urðu á yfirstandandi ári. Niðurskurðurinn í skólum er 18.9% að framkvæmdarmagni, og er þá einungis miðað við 34% verðlagshækkun milli ára. Á sömu forsendum er magnminnkun í hafnargerð 28.6%. Hér er að mínu mati um mjög alvarlega stefnu að ræða sem ég skal víkja örlítið að síðar, og ég er að sumu leyti sammála hv. þm. Lúðvík Jósepssyni að því leyti til, að niðurskurðurinn í höfnum er sérstaklega varhugaverður. Bygging sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva er skorin niður um 19.7%, þ.e. kostuð af ríki og sveitarfélögum, en um 28.6% hjá ríkisspítölum.

Allt orkar þetta tvímælis. En eins og ég sagði áðan finnst mér erfiðast að sætta mig við ástand hafnarmála og niðurskurð þar um þriðjung. Þörfin á bættri hafnaraðstöðu í sjávarplássum hefur vaxið gífurlega undanfarin ár vegna stækkunar fiskiflotans. Hættuástand hefur sums staðar skapast. Ekki hefur verið kleift að mæta vaxandi þörf með framkvæmdum og oft komið til verulegs niðurskurðar á þessum lið á undanförnum árum. Hér hefur verið að undanförnu vegið um of í sama knérunn, og nú kastar fyrst tólfunum þegar ætlunin er að lækka framlög til þessa framkvæmdaliðar beinlínis í krónutölu frá núgildandi fjárl. og síðan koma að auki jafnmiklar verðlagshækkanir og raun ber vitni.

Þótt gert sé ráð fyrir stórhækkun markaðra tekjustofna til vegagerðar í þessu frv. og að auki hækkun skatta af umferðinni beint í ríkissjóð verður verulegur samdráttur í framkvæmdum í vegamálum, einkum í viðhaldi vega, en þar er magnminnkun fyrirsjáanleg um nálægt því 17% eftir aths. frv. að dæma. Ástæðan fyrir þessu er sú, að ríkissjóður stórminnkar framlög til vegamála samkv. frv. Þannig lagði ríkissjóður fram 3230 millj. kr. í framlög, afborganir og vexti af lánum til vegagerðar samkv. fjárl. í ár. Áð krónutölu nema þessar fjárhæðir samkv. frv. nú 2480 millj. kr., eða 750 millj. kr. lægri upphæð nú í ár heldur en var í fyrra að krónutölu og a.m.k. 1000 millj. kr. ef tillit er tekið til verðbólgu. Eins og áður segir kemur þetta skerta framlag ríkissjóðs til Vegas jóðs fyrst og fremst niður í skertu viðhaldi vega samkv. frv. frá því sem nú er, og er vonandi að það sé fleirum en mér áhyggjuefni, því satt best að segja hefur viðhald vega verið með skornasta skammti á undanförnum árum.

Þá vil ég víkja örlítið að niðurskurði á fjárframlögum til ýmissa sjóða sem fyrirhuguð eru samkv. þessu frv. Í heild nema þessar lækkanir á framlögum til sjóðanna, miðað við ákvæði laga og markaða tekjustofna, 992 millj. 220 þús. kr. Og það er athyglisvert, að á sumum sviðum er ríkissjóður að seilast þarna í markaða tekjustofna, t.d. hluta af launaskatti sem eftir sem áður er lagður á, en rennur nú beint í ríkissjóð, en ekki til þeirra verkefna sem ætlast var til. Þannig er fyrirhugað að ríkissjóður seilist í 620 millj. kr. af launaskattinum sem renna eigi til almennra þarfa ríkisins í stað þess að fara í lán til íbúðarbyggjenda, svo sem ætlast er til með gildandi löggjöf.

Eftirfarandi sjóðir koma við sögu í þessum 10% niðurskurði með lækkuð framlög miðað við núgildandi lög og markaða tekjustofna. Það eru Jarðasjóður, Landgræðslusjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Veðdeild Búnaðarbankans, Fiskveiðasjóður, Kirkjubyggingasjóður, Byggingarsjóður ríkisins, en hann er langmest skertur, um tæplega 680 millj. kr., Byggingarsjóður verkamanna er skorinn niður um 33 millj., Lánasjóður sveitarfélaga er skorinn niður, Erfðafjársjóður, Bjargráðasjóður, Ferðamálasjóður, Iðnlánasjóður, Iðnrekstrarsjóður og Gæsluvistarsjóður. Ofan í kaupið er svo með sérstökum bókhaldskúnstum stungið undir stól einum milljarði 130 millj. kr. af ráðstöfunarfé Byggðasjóðs, því að framlag til sjóðsins er bundið því, að hann greiði vexti og afborganir af byggðalínum, — láni það, er sagt, en samt sem áður þýðir þetta eins milljarðs skertar ráðstöfunartekjur þessa sjóðs til þeirra verkefna sem hann hefur áður sinnt. Framkvæmdageta sjóðanna minnkar auðvitað meira en kemur fram í þessari krónutölulækkun miðað við 34% verðbólgu, svo sem gert er ráð fyrir í tölum fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem er að sjálfsögðu mjög lág áætlun um verðhækkanir á næsta ári. Þá minnkar framkvæmdageta þessara sjóða um 29% vegna þessara skerðinga.

Ríkissjóður seilist samkv. þessu frv. í marga aðra tekjustofna sem ætlaðir voru til almennra þarfa með lögum. Samkv. lögum um jöfnunargjald er áætlað að verði lagður 1 milljarður kr. á innfluttar iðnaðarvörur til landsins, og heita má að þetta fjármagn gangi svo til allt til ríkissjóðs og standi undir því sem hann hefði eðli málsins samkv. átt að standa undir, ef frá eru skildar 76 millj. kr. til iðnþróunar. Skylt er þó að geta þess, að 500 millj. af þessu fé eiga að fara til að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt, sem ríkissjóður er áður búinn að leggja á iðnaðarvörur og ætti því að réttu að greiðast úr ríkissjóði án sérstaks gjalds til að standa undir því.

Þannig mætti lengi telja. Í þessu frv. eru margir þeir liðir sem núv. stjórnarherrar gagnrýndu okkur sem mest fyrir á árum áður, svo sem sjúkragjald, sérstakt vörugjald, sem þeir hækkuðu sérstaklega núna, en voru búnir að fara háðulegum orðum um í stjórnarandstöðu. Þeir hafa ákveðið að hækka lyf og læknisþjónustu hjá fólki, láta það greiða hærra fyrir það. Og svo mætti lengi telja.

Til marks um ólík vinnubrögð við undirbúning þessa fjárlagafrv. og t.d. fjárlagafrv. í fyrra má nefna að eftirtaldir liðir í þessu frv. eru með óbreytta eða lækkaða krónutölu frá gildandi fjárl. Það er bygging skóla fyrir þroskahefta. Íþróttasjóður er með óbreytt framlag frá því í fyrra, og hefði hæstv. ráðh. átt að beita sér fyrir að hann hækkaði, miðað við það sem hann sagði um íþróttamálin í framsöguræðu sinni. Framlög til æskulýðsmála eru með óbreytta krónutölu frá gildandi fjárl., einnig framlag til fiskileitar, markaðsöflunar og vinnslutilrauna í sjávarútvegi. Styrkur til olíuhitunar húsa er beinlínis lækkaður frá fjárlögum ársins 1978 um 176 millj. kr. Hinir liðirnir, sem ég nefndi áðan, voru við síðustu fjárlagaafgreiðslu með hækkun um 298 millj. kr. frá gildandi fjárlögum. En þetta er einungis til marks um það, hvernig staðið hefur verið á ólíkan hátt að þessu fjárlagafrv. og hvað marga liði vantar í þetta frv. miðað við það sem áður hefur tíðkast.

Ég vil fara hér nokkrum orðum um styrk til olíuhitunar húsa, en í gildandi fjárl. eru ætlaðar til þess liðar 856 millj. kr., en í frv., sem hér er til umr., einungis 680 millj. Auðvitað hafa bæst við nýir notendur á hitaveitusvæðum sem fækka þeim sem hita hús sín með olíu, en augljóst er þó að hvergi nærri er ætlað að bæta þeim, sem olíustyrki fá, verðhækkun milli ára. Þess má geta, að tekjur ríkissjóðs af 1% söluskattsstigi, sem verja á m.a. í þessum tilgangi, hækka milli áranna um 800 millj. kr. samkv. áætlun, og ef lækkun á framlagi til olíustyrksins bætist við, þá fær ríkissjóður með þessum hætti um 1000 millj. kr. meira fé til ráðstöfunar í ár en í fyrra vegna álagningar svokallaðs olíuprósents.

Það er svo kannske annað mál og ætti ekki að vera að rekja það fyrir hv. þingheimi, að núv. stjórnarherrar, Alþfl.-menn og Alþb.-menn, gagnrýndu stefnu fyrri ríkisstj. ótæpilega í þessu olíustyrksmáli og töldu að stórfé væri dregið frá þessu fólki sem það ætti fullan rétt á. En það er svo eftir öðru, sem þeir hafa hugsað sér að framkvæma, að eftir þessu fjárlagafrv. að dæma lækka þeir þennan styrk og taka ekkert tillit til verðbólgu milli ára að þessu leyti.

Ég hef komið hér inn á margvíslegan niðurskurð, og það er athyglisvert, að það skuli vera stefnuskráratriði hæstv. núv. ríkisstj., þar sem ég hygg að þeir flokkar, sem að henni standa, telji sig með meiri félagshyggjumönnum á þessu landi, að þar er gert ráð fyrir niðurskurði á liðum eins og skólabyggingu fyrir þroskahefta, Íþróttasjóði, framlögum til æskulýðsmála, Gæsluvistarsjóði, Byggingarsjóði verkamannabústaða, Byggingarsjóði ríkisins og Byggðasjóði.

Herra forseti. Það sýnir best hvers konar ógöngur stefnt er í á sviði ríkisfjármála og efnahagsmála þjóðarinnar með þessu frv., að þrátt fyrir niðurgreiðslusvikamyllu, sem kostar skattborgarana 16 000 millj. kr., og þrátt fyrir niðurskurð verklegra framkvæmda miðað við framkvæmdagildi frá núgildandi fjárl. sem nemur vægt áætlað 9.8 milljörðum kr. og að auki lækkun á framlagi til vegagerðar um 1000 millj. kr., þrátt fyrir niðurskurð á framlögum til almennra sjóða um tæplega 1000 millj. að krónutölu, þar af til Byggingarsjóðs ríkisins um 678 millj, og Byggðasjóðs að auki um 1130 millj., þrátt fyrir nærri 100% hækkun á lyfjum og sérfræðilæknishjálp sem sjúklingar eiga að borga sjálfir og léttir af ríkissjóði 980 millj., þrátt fyrir að gert er ráð fyrir óbreyttum olíustyrk í krónutölu til neytenda, þrátt fyrir að álagt gjald á innfluttar iðnaðarvörur, sem áætlað er 1000 millj., fer nær allt til að standa undir venjulegum útgjöldum ríkissjóðs, þrátt fyrir stórfellda vanáætlun ýmissa útgjaldaliða, svo sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson minnti á um útflutningsbæturnar, og þrátt fyrir óbreytta krónutölu til ýmissa félagslegra verkefna, sem hækkuð voru í frv. til fjárl. í fyrra frá gildandi fjárl., þá er greiðsluhalli á þessu frv. upp á a.m.k. 8000 millj. kr., ef rétt er reiknað og eins og hv. þm. Matthías Á Mathiesen, fyrrv. fjmrh., sýndi fram á áðan. En það sem verra er, verðbólgan æðir áfram eftir sem áður, þrátt fyrir allar þessar ráðstafanir, og megintilgangur frv., sem á að vera að stemma stigu við verðbólgu, fer út í veður og vind.

Eins og kunnugt er af fréttum á vísitala að hækka um nálægt 14% 1. des. samkv. núgildandi kjarasamningum. Það þýðir a.m.k. 50% verðbólgu á næstu ári. Þetta gerist þrátt fyrir allar þær ráðstafanir, niðurgreiðslur, vísitölufölsun og niðurskurð sem ráðgert er á fjárlagafrv. fyrir árið 1979. Niðurstaðan er því augljóslega sú, að með þeim ótrúlegu hundakúnstum, sem ætlunin er að framkvæma samkv. úrræðum þessa frv. í ríkisfjármálum og öðrum efnahagsúrræðum, sem fram koma í þessu frv., verður ekki ráðið við verðbólguna. Eftir stendur, að það var sannleikur sem fyrrv. stjórnarflokkar sögðu þjóðinni fyrir kosningar. Kjarasamningarnir í heild, sem gerðir voru 1977, þrátt fyrir að láglaunafólk fengi þar ekki ofmældan hlut frekar en fyrri daginn, — þessir kjarasamningar fóru langt fram úr getu þjóðarbúsins og atvinnuveganna. Þeir kölluðu á þvílíkan skrúfugang verðlags og launa, að fyrirsjáanlegt var að öllum var fyrir bestu að tekið yrði í taumana. Ein af mörgum ráðstöfunum sem gera varð, var að draga úr hækkun vísitölubóta, þó þannig að minnstar byrðar yrðu lagðar á lágtekjufólk. Þetta var gert með febrúarlögunum s.l. vetur. Þessa viðleitni tókst þáv. stjórnarandstæðingum að gera að nær eina kosningamálinu undir kjörorðunum: „Samningana í gildi“ og „kosningar eru kjarabarátta“. Þegar þeir tóku við stjórnartaumum í haust voru þessi fyrirheit svikin að hluta. Samningarnir voru ekki settir í gildi nema að nokkru leyti með brbl. frá í haust. Samt sem áður blasir við sú hryggilega mynd, að fjárlagafrv. allt er skrumskælt til þess að setja upp stórfellda svikamyllu í skattamálum, niðurgreiðslum og vísitölufölsun, ásamt meiri niðurskurði framkvæmda og félagslegra verkefna en sést hefur um árabil. Stefna þess leysir þó engan vanda, heldur þvert á móti mundi magna hann, ef hún yrði framkvæmd, og verðbólgan æða áfram um og yfir 50% markið á næsta ári.