23.05.1979
Neðri deild: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5286 í B-deild Alþingistíðinda. (4770)

289. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Varðandi frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands vil ég sérstaklega gera að umræðuefni 3. gr. frv., eins og hún kemur breytt frá Ed. á þskj. 883, og sérstaklega c-lið þessarar 3. gr., þar sem segir:

„Borgarsjóður Reykjavíkur, bæjarsjóður Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Seltjarnarness 25%, sem skiptist í hlutfalli við íbúatölu þeirra.“

Þetta þýðir það, að þessum bæjarfélögum er gert að greiða 25% af stofnkostnaði og rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar, og skiptist kostnaðurinn á milli þessara bæjarfélaga í hlutfalli við íbúatölu þeirra. Ég lýsi mig andvígan þessu ákvæði fyrst og fremst á þeirri forsendu, að skort hefur á samráð við þessi bæjarfélög um þetta ákvæði. T. d. má geta þess, að beiðni þessa efnis var send bæjarstjórn Hafnarfjarðar á sínum tíma. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar, eða réttara sagt bæjarráð Hafnarfjarðar, synjaði að taka þátt í þessum kostnaði. Mér er ekki kunnugt um afgreiðslu málsins, ef um afgreiðslu hefur verið að ræða, hjá bæjarsjóði Kópavogs, Garðabæjar og Seltjarnarness. En með það í huga, að viðræður um þetta atriði eru skammt á veg komnar og nánast mundi bæjarfulltrúum í þessum byggðarlögum koma mjög á óvart ef Alþingi ætlar að lögskipa bæjarsjóðum þessara bæjarfélaga að greiða einhverjar fúlgur til Sinfóníuhljómsveitar, þykir mér ekki vel að verki staðið.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að það eru engin sérstök rök fyrir því, að þessi bæjarfélög eigi að greiða þennan kostnað umfram öll önnur bæjarfélög í landinu. Mér finnst engin rök mæla með því, að Ísafjörður, Egilsstaðir eða aðrir staðir úti um land taki ekki jafnan þátt í því að halda sinfóníuhljómsveit uppi, og ekkert mæla með því sérstaklega, að þeir bæjarsjóðir, sem í grennd við Reykjavík eru, og borgarsjóður Reykjavíkur eigi eitthvað fremur að leggja þar af mörkum en önnur bæjarfélög í landinu. Því mótmæli ég c-lið þessarar greinar harðlega og greiði atkv. gegn svona lögskipan.