23.05.1979
Neðri deild: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5287 í B-deild Alþingistíðinda. (4773)

289. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Eins og allur þingheimur veit, hefur Reykjavíkurborg nú um langt skeið tekið þátt í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og mér sýnist á því frv., sem hér er lagt fram, að hlutur Reykjavíkurborgar verði ekki gerður lakari með því, heldur e. t. v. þvert á móti. Mér virðist að það sé stefnan í þessu frv., að þeir kaupstaðir, sem hér eru næstir, þaðan sem auðveldast er að sækja hljómleika Sinfóníuhljómsveitarinnar, taki nokkurn þátt í þeim kostnaði sem Reykjavíkurborg hefur ein staðið undir hingað til. Það tel ég ekki óeðlilegt.

Mér er alveg ókunnugt um undirbúning þessa máls, og ég get tekið undir það út af fyrir sig, að ef ekki hefur verið haft samband og samráð við sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga, sem hér er verið að bæta við, þá er auðvitað heldur lakara að þurfa að setja það á með lögum, e. t. v. gegn vilja íbúa þessara sveitarfélaga sem hafa e. t. v. ekki áhuga á að sækja slíka hljómleika. En ég legg áherslu á það, að með einhverju móti verður að halda uppi þessari menningarstarfsemi, og ég undirstrika það einnig, að röksemdafærslan fyrir því, að Reykjavíkurborg hefur undirgengist þessa kvöð, er sú, að reykvísk yfirvöld hafa viljað stuðla að því, að slík starfsemi gæti þróast og verið haldið uppi, og þess vegna tekið á sig þessar byrðar. Ég geri ráð fyrir að það sé vegna þess að meginhluti þeirra hljómleika, sem Sinfóníuhljómsveitin heldur, eru haldnir hér í Reykjavík. Hins vegar kemur að mínu mati til álita að þegar farnar eru hljómleikaferðir til annarra landssvæða, þá verði gerðar ráðstafanir til að fjármagna slíkar ferðir með nokkuð öðrum hætti.

Þetta er mitt sjónarmið í þessu máli, að ég sem sagt tel að Reykjavíkurborg eigi að halda áfram að styrkja þessa hljómsveit, að hlutur Reykjavíkur sé ekki gerður lakari en hann er nú, og ég tel ekki óeðlilegt að önnur nálæg sveitarfélög, sem jafnhægt eiga með að sækja þessa hljómleika, taki nokkurn þátt í greiðslu kostnaðar við þá, en hefði kosið að haft hefði verið samráð við þær bæjar- og sveitarstjórnir sem hér um teflir áður en til lagasetningar þarf að koma.