23.05.1979
Neðri deild: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5288 í B-deild Alþingistíðinda. (4774)

289. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það eru aðeins fáar mínútur til stefnu og ljóst, að ef miklar umr. verða um þetta mál, þá nær það ekki fram að ganga á þessu þingi. Ég hafði gert mér vonir um að samkomulag og víðtæk samstaða gæti tekist um að þessi umr. færi fram á þeim örskamma tíma sem við höfum til að ræða málið, en kannske þurfa menn að segja svo margt um þetta og eru svo ákveðnir í því að afgreiða málið ekki í dag að það reynist vonlaust. Ég vil þó eindregið biðja menn að hugleiða hvort ekki gæti tekist samkomulag um að hafa þessa umr. svo stutta sem tími okkar skammtar okkur, vegna þess að það er brýn nauðsyn að koma þessu máli fram og fá stöðu Sinfóníuhljómsveitarinnar á hreint.

Hér var spurt að því, hvort haft hefði verið samráð við nálæg sveitarfélög um efni málsins. Ég vil upplýsa það, að þetta mál var upphaflega undirbúið í tíð fyrirrennara míns, hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar. Á þeim tíma var ráðgast við nálæg sveitarfélög, og ég veit ekki betur en mikill meiri hluti þeirra sveitarfélaga, sem hlut áttu að máli, hafi verið á því að gangast undir þessa kvöð. Þó mun eitt af þeim sveitarfélögum sem hér um ræðir, hafa verið andvígt því. Mér er sagt hins vegar að hin hafi fallist á að undirgangast þessa kvöð. Hins ber að gæta, að sveitarfélögin töldu sig almennt verða að gera ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlunum sínum, og hefur því t. d. alls ekki komið til greina að þau tækju á sig þessa kvöð á þessu ári. Við fórum hins vegar fram á það í menntmrn. nú fyrir nokkrum mánuðum, að þau tækju á sig þessa kvöð á þessu ári, og höfum fengið neikvætt svar við þeirri bón nú nýverið frá nokkrum þeirra. Það er hins vegar sérstakt mál. En ég veit sem sagt ekki betur en öll sveitarfélögin, að undanskildu einu, sem samráð var haft við á sínum tíma um þetta mál, hafi verið á því að undirgangast þessa kvöð, og í trausti þess, að menn teldu að það væri sanngjarnt að þau stæðu að þessu öll, var frv. útbúið með þessum hætti á sínum tíma.

En sem sagt, ég vil mjög eindregið mælast til þess, að þessi umr. geti orðið sem allra styst, því að það er eina vonin til þess að málið nái fram að ganga.