23.05.1979
Neðri deild: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5289 í B-deild Alþingistíðinda. (4775)

289. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég undrast það satt að segja að hæstv. menntmrh. skuli koma hér upp í ræðustól og segja hv. þd., að vísu á þokkalega kurteisan hátt, að halda sér samati. Ég hélt að það væri ekki góður háttur eða góð vinnubrögð að ætlast til þess; að á nokkurra mínútna fundi sé afgreitt mál þar sem um allmikla fjármuni er að tefla, á fáum mínútum, og það sé litið á það eins og menn séu að tefja málið og koma í veg fyrir að það nái fram að ganga, þó að hv. dm. vilji lýsa skoðunum sínum á því, þ. e. að þeir gegni þeirri skyldu sinni að kanna þetta mál og ræða það ítarlega og gera grein fyrir skoðunum sínum eins og þm. eiga að gera. Þeir eiga að vanda sín vinnubrögð. Dæmi um óvönduð vinnubrögð eru því miður allt of mörg nú þegar á þessu þingi, eins og kom í ljós á síðasta fundi í Sþ. m. a., þar sem það virðist vera þannig að menn geti ekki skilað af sér nokkru verki öðruvísi en það sé meira eða minna gallað, jafnvel þótt í smáu sé.

En þess vegna kveð ég mér nú hljóðs, að þessi sinfóníuhljómsveit heitir Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hún er það ekki. Hún spilar hér í Reykjavík næstum eingöngu, fyrir íbúa þessa svæðis, Reykvíkinga og aðra sem næst henni standa. Þess vegna undrast ég það, þegar menn leyfa sér það úr þessum ræðustól, — að vísu var ákaflega óreyndur maður sem það gerði, — hvers vegna Hafnfirðingar eigi að borga, en ekki Ísfirðingar eða t. d. Vopnfirðingar. Hvenær spilar þessi hljómsveit þar? Hvenær kemur hún út á land og leyfir fólki að heyra þá tónlist sem hún framleiðir, að vísu með tilstyrk og aðstoð mjög margra útlendinga, því að ekki virðist enn hafa fundist Íslendingur sem getur stjórnað þessari hljómsveit? Það þarf alltaf að sækja þá ýmist til Póllands eða Ameríku. Hver á að borga fyrir hlutina? Það eru auðvitað fyrst og fremst þeir sem njóta þeirra.

Nú er það þannig, að það þarf auðvitað að styðja við bakið á ýmissi menningarstarfsemi, og það er auðvitað rétt að ríkið geri það líka í þessu tilfelli. Og það eina, sem mér finnst sanngjarnt í þessu frv., er að þessi stóru sveitarfélög hér, sem eiga besta möguleika á því að njóta verka hljómsveitarinnar, borgi þó heldur meira en aðrir. Hins vegar finnst mér fáránlegt að Ríkisútvarpið fjármagni hljómsveitina. Mér hefur alltaf fundist það mjög vitlaust og ekki síst núna, þegar talað er um að Ríkisútvarpið sé á hausnum og það þurfi peninga, og þessa peninga þurfi kannske að útvega með næsta sérstæðum hætti, eins og gert var hér fyrir skömmu. Mér finnst það afar óeðlilegt, að Ríkisútvarpið, sem er svo illa statt, sé að standa undir rekstri á þessari hljómsveit, því að útvarpið fær auðvitað ekkert annað í staðinn en að hljómsveitin spilar í gegnum „apparötin“ og útvarpið sendir þetta í gegnum mjög léleg tæki, þannig að menn kjósa heldur að hlusta á sínar plötur, sem eru í „stereo“, en að hlusta á Sinfóníuhljómsveitina í útvarpinu úr þeim tækjum sem hún sendir út með, sem er ekki hægt að hlusta á.

Enda hefur það komið í ljós við könnun, að sárafáir hlusta á þessa músík í útvarpinu. En hvað skyldu það vera margir sem hlusta á þessa hljómsveit? Það er vitað mál, að það er einn húsfyllir í Háskólabíó 10–20 sinnum á ári — eða hvað oft sem hún spilar, ég veit það ekki, og það er alltaf sama fólkið, eitthvað um 900 manns, sem hlustar á þetta.

Herra forseti. Ég skal nú stytta mál mitt, þarf ekki að hafa um þetta miklu fleiri orð. En það sem mér finnst sanngjarnt í þessu er að þeir borgi meira en aðrir landsmenn sem geta notið beint að fara á þessa tónleika. En mér finnst á sama hátt rangt að útvarpið leggi peninga til þessarar hljómsveitar.