14.11.1978
Sameinað þing: 19. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

54. mál, fjárlög 1979

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði hér í dag lýsti hann stefnu þingflokks Alþfl. varðandi frv. það til fjárl. sem hér er til umr., og um það hefur ekki verið hinn minnsti ágreiningur í okkar hópi. Það hefur verið vitað, og hæstv. fjmrh. hefur vitað það frá því að hafist var handa um að semja þessa bók, að Alþfl. er andvígur þeirri gríðarlegu hækkun, sem fram kemur til landbúnaðarmála og nemur alls um 26 milljörðum kr., það vill hann lækka. Það hefur líka verið vitað frá upphafi, og hæstv. fjmrh. hefur einnig vitað það frá því að hafist var handa um að semja það sem í þessari bók stendur, að sú hækkun tekjuskatts, sem fram kemur þar, er í andstöðu við stefnu Alþfl. Ég endurtek það enn, að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lýsti stefnu og álit á efni þessarar bókar, sem við stöndum öll að, og þetta hefur verið vitað frá upphafi.

Það er svo annað mál, að það kann að koma stjórnarandstæðingum í Sjálfstfl., t.a.m. síðasta ræðumanni, á óvart að það skuli vera stjórnmálaflokkur hér í þessu húsi sem leyfir sér að vera sömu skoðunar eftir kosningar og hann var fyrir kosningar. Það virðist svo vera, að þetta sé nýjung sem hv. þm. hafi ekki þekkt til áður.

Það, sem við erum að gera, er þetta og þetta eitt: Við höfðum á stefnuskrá okkar í vor ákveðna stefnu í landbúnaðarmálum. Sú stefna er svo þekkt, að henni þarf ekki að lýsa. Við höfum einnig haft stefnu í skattamálum. Þessir tveir liðir hafa forgang. Það hefur verið vitað frá því að hafist var handa — til að segja það enn — um samningu þessarar bókar, að við lítum á þetta sem aðalatriði í afstöðu til þessa frv.

Ég verð þó að segja, t.a.m. eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar hér í dag, að mér sýndist hann einkum vera á móti þrennu að því er varðar þetta fjárlagafrv. Hann er á móti þenslu, hann er á móti verðbólgu og hann er á móti niðurskurði! Ég hygg að að öllu samanlögðu sé ljóst að þessi þrenning gengur engan veginn upp.

Hæstv. fjmrh. veit mætavel, að hann hefur fullan stuðning okkar í Alþfl. í þeirri niðurskurðarviðleitni, sem fram kemur þrátt fyrir allt í þessu frv., og hann hefur fullan stuðning okkar einnig við þau almennu markmið, sem hann lýsti í inngangi ræðu sinnar í dag. Hitt er svo annað mál og það er alveg rétt, að stjórnarflokkarnir eru ekki sammála um mörg meginatriði í þessari bók. Það kann að vera nýjung í stjórnmálum í þessu landi, að menn kasti ekki þegar fyrir róða eftir kosningar því sem þeir sögðu fyrir kosningar. Okkar nýja siðferði, sem var gert að umræðuefni í síðustu ræðu, felst m.a. í því, að við köstum ekki fyrir róða strax eftir kosningar því sem við sögðum fyrir kosningar. Mér kemur svo sem ekki á óvart að sjálfstæðismönnum þyki þetta kúnstugt og komi þetta spánskt fyrir sjónir, en engu að síður er þetta kjarni málsins og við ætlum að standa á m.a. þessum tveimur meginþáttum þessa frv., sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lýsti í dag og ég endurtek enn.

Í þessu landi búum við við samsteypustjórnir. Því fylgja sennilega margir kostir, en því fylgja einnig verulegir gallar, m.a. myndast ekki hreinar flokksstjórnir að kosningum loknum og flokkar verða að slá af. Þeir verða að meta það hverju sinni, hvort þeir fái svo mikið af sínum málum í gegn að það réttlæti stjórnarþátttöku. Það er það sem við erum að gera, og það sem meira er, við erum ekki að gera það á bak við luktar dyr nefndar, við erum að gera það fyrir opnum tjöldum hér í þingsölum, og það verður m.a. viðfangsefni næstu vikna. En það er engu að síður eðli samsteypustjórna eins og þessarar, að þær eru myndaðar af ólíkum flokkum. Alþfl. er ekki Framsfl. — guði sé lof — og þegar þrír flokkar vinna saman þá gerist það með þessum hætti. Þetta mat verðum við að leggja á hinar pólitísku hliðar hverju sinni. Við erum aðilar að þessari ríkisstj. Við viljum styðja fjmrh., ekki síst þau almennu markmið sem hann lýsti hér í dag, og verði efndirnar skyldar þeim almennu markmiðum sem hann lýsti hér í dag, þá gengur þetta, ef ekki, þá er voðinn vís, og er auðvitað öllum um það kunnugt.

Ég sagði, að við í Alþfl. styðjum fjmrh. í þeirri niðurskurðarviðleitni sem þrátt fyrir allt kemur fram í þessu plaggi. Mig langar til að reifa hér hugmyndir — lauslega þó — um enn frekari niðurskurð, sem ég hygg að að skaðlausu megi gera. Ég tek það fram, að á þessu stigi er einungis um lauslega reifun að ræða.

Ég er sammála því sem fram kom hjá hv. þm. Pálma Jónssyni, að ríkisbáknið er bæði orðið allt of stórt og allt of dýrt. Nú síðast var verið að leggja til, fram hjá fjárveitingavaldinu þó, að bæta við blaðafulltrúa ríkisins. Það á að kosta 11.8 millj. kr. Ég tel sjálfsagt að skera þennan lið niður og hygg raunar að það verði gert. Ég er einnig sammála hv. þm. Pálma Jónssyni um að aðalskrifstofur rn. eru orðnar allt of dýrar. Hækkun þar á milli ára er allt of mikil og þar má að skaðlausu skera niður. Sömuleiðis virðist af þessari bók, að kostnaður við sendiráð erlendis sé orðinn of mikill. Þar má skera.

Rannsóknaráð ríkisins kostar 63 millj. Gagnsemi stofnunarinnar er raunar mjög dregin í efa. Mörg af verkefnum hennar má fela öðrum, menntmrn. eða rannsóknastofnunum atvinnuveganna. Þar sýnist mér að megi spara verulega.

Stjórnskipaðir prófdómarar eru með 40 millj. kr. í þessari bók. Ég hygg að það væri skaðlaust og án mikilla fórna fyrir þjóðina, þó að þessi liður væri alfarið skorinn niður.

Að því er tekur til landbúnaðarmála: Gert ráð fyrir 310 millj. kr. til Búnaðarfélags Íslands, yfirstjórnin ein kostar 93 millj. Þetta framlag mætti lækka a.m.k. um 100 millj. án þess að það sæi, að ég hygg, högg á vatni. Rannsóknastofnun landbúnaðarins er gert ráð fyrir að fái 1/2 milljarð kr. Það framlag mætti einnig lækka mjög verulega án þess að miklum skaða ylli, að ég hygg. Landnám ríkisins er með 61 millj. Landnámi lauk hér fyrir u.þ.b. 1000 árum. Ég er ekki viss um að þessi liður sé ýkjagagnlegur! Stofnlánadeild landbúnaðarins fær 643.5 millj. kr. Öllum er kunnugt um að það er offjárfesting í landbúnaði. Vandinn í landbúnaðinum er allur annar en virðist koma fram í þessum lið. Þessi framlög mætti auðvitað skera mjög verulega niður og jafnvel alveg. Jarðræktarframlög í landi, sem offramleiðir landbúnaðarvörur, eru 1.1 milljarður. Hér mætti höggva mjög verulega af. Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir nema 5.35 milljörðum kr. Ekki veit ég hversu langt væri hægt að ganga á þessu stigi, en áreiðanlegt er að mjög verulega mætti skera þær niður. Styrkir til búfjárræktar nema 188 millj. kr. Þar má skera að skaðlausu.

Yfir höfuð talað eru ýmsir liðir, sem lúta að landbúnaðarmálum í þessari bók, sem mega missa sín. Sumir mega jafnvel falla alveg niður. Allt væri það í þá viðnámsátt, sem fjmrh. hefur boðað almennum orðum. Ég vænti þess, að mikið af þessu a.m.k. taki hann til gaumgæfilegrar athugunar.

Gert er ráð fyrir bændaskóla í Odda, 5 millj. kr. Ég sé ekki að það vanti nokkurn bændaskóla í Odda, það vanti kannske eitthvað annars staðar frekar.

Svona má halda áfram. Framleiðslueftirlit sjávarafurða, þar er gert ráð fyrir 430 millj. kr. rúmum. Það er áreiðanlegt, að hér má skera niður mjög verulega. Fiskveiðasjóður, þar er gert ráð fyrir 1.2 milljörðum kr. Það er þegar offjárfesting í sjávarútvegi og hún mikil. Að skaðlausu mætti lækka mjög verulega framlög til þessa sjóðs. Önnur atriði eru smærri.

Hér hafa verið taldir upp nokkrir liðir, sem samanlagt mynda háa tölu. Allt eru þetta liðir sem verulega má höggva á, sem gengi verulega í þá viðnámsátt sem hæstv. fjmrh. lýsti í dag. Ég hygg að sé hann trúr sínum almennu markmiðum, sem ég veit að hann er, þá sé hann mér sammála um að allt séu þetta liðir sem meira og minna mætti taka til athugunar í niðurskurðarskyni.

Þetta eru raunar almennar ábendingar. Eitthvað af þessu verður flutt í tillöguformi taki fjvn. ekki þessar aths. til greina, sem auðvitað kemur til með að reyna á. Þetta er þó tilraun til þess að leggja inn í þessar umr. hugmyndir um enn frekari niðurskurð. Það er vissulega það sem við erum að reyna að stefna að. Fjárlagafrv. er of bólgið — allt of bólgið. Bólgið fjárlagafrv. veldur verðbólgu, um það erum við öll sammála.

Ég tek heils hugar undir niðurlagsorð hv. þm. Ellerts B. Schram, sem hann viðhafði hér áðan, að skaðinn, sem er að gerast hægt og hægt í okkar samfélagi, er voðalegur.

Þessi verðbólga er smátt og smátt að grafa undan bæði stjórnarstofnunum og almennu fjármálasiðferði í landinu. Brask og spilling hvers konar blómgast. Það er rétt hjá honum. Ég veit þess vegna að þrátt fyrir öll almennu orðin, sem hann notaði hér áðan, getur hann, og væntanlega fleiri í þessum sal, verið mér sammála um flesta liði og við getum almennt tekið höndum saman um að skera niður og spara. Það er það sem þarf að gera við þessa bók, miklu frekar en hún á þessu stigi málsins gerir ráð fyrir.