14.11.1978
Sameinað þing: 19. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

54. mál, fjárlög 1979

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. kynnti fyrirætlanir ríkisstj. í efnahagsmálum í stefnuræðu, svo sem venja er til. Í stefnuræðu sinni komst hann svo að orði á einum stað:

Ríkisstj. mun leggja áherslu á að draga markvisst úr verðbólgunni með því að lækka verðlag og tilkostnað, draga úr víxlhækkunum verðlags og launa og halda heildarumsvifum í þjóðarbúskapnum innan hæfilegra marka.“

Eins og að líkum lætur ætti fjárlagafrv. að vera nánari útfærsla á þessari stefnumörkun í efnahagsmálum. Fjárlagafrv. eru það yfirleitt, og þess ber að geta, að þau eru það tæki, sem ríkisstj. hefur í baráttunni við verðbólguna, sem eitt getur skilað árangri. Á hinn bóginn eru fjárlög eins og þau, sem hér eru til umr., sem sett eru saman flausturslega og af sundurleitum kröftum, hættulega eldfim á verðbólgubálinu þegar farið er með ríkisfjármálin af því kæruleysi sem hér er gert.

Ég verð að segja það, að vegna þeirra kynna, sem ég hef haft af fjárlagagerð nú í nokkur ár, hef ég fylgst af athygli með þeim ræðum, sem hæstv. fjmrh. og þeir, sem ég hef haldið vera stuðningsmenn ríkisstj., hafa flutt hér um þetta mál. Og ég verð að segja það, að ég hef fyllst nokkrum kvíða um að það, sem hér er að gerast í efnahagsmálum, komi alls ekki heim og saman við þá stefnumörkun og þær frómu fyrirætlanir, sem hæstv. forsrh. gaf yfirlýsingu um í stefnuræðu sinni.

Það er fleira en þær ræður, sem hér hafa verið fluttar, sem veldur mér nokkrum áhyggjum. Ég verð að segja það, að á þeim stutta tíma, sem ég hef haft aðstöðu til að fylgjast með störfum þessa þings, hafa þau verið að minni hyggju afar einkennileg.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hélt hér langa tölu í dag. Það var eitt af stóru stefnumálunum í ræðu hans, að Alþfl. væri á móti miklum opinberum framkvæmdum, það ætti að draga úr þeim skilyrðislaust. Mér er því nokkur spurn og það hefur valdið mér heilabrotum, af hvaða tilefni hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flytur Frv. í þinginu um Framkvæmdasjóð öryrkja. Er það til þess að storka fjmrh., er það til þess að útfæra nánar stefnu þingflokks Alþfl. að hún gerir till, um að hafa tiltækar 1000 millj. kr. á ári til þess að byggja upp stofnanir fyrir þroskahömluð börn? Ég er ekki að segja að það sé ónauðsynlegt verkefni sem hér er rætt um, en þetta skýtur áreiðanlega skökku við þær hugmyndir, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur í þessu efni. Skólar fyrir þroskahömluð börn fengu í fjárl. 1977 15.9 millj. kr. Fjárveitingin var að vísu hærri, en af ýmsum erfiðleikaástæðum í menntmrn. og hjá þeim, sem þessum málum áttu að stjórna, var ekki hægt að eyða öllu því, sem var veitt til þessara mála. Til framkvæmda í þessum efnum eru á árinu 1978 60 millj. kr. og í fjárlagafrv., sem hér er til umr., er sú tala tekin upp óbreytt, 60 millj. kr., en til þess að fullnægja öllu réttlæti og styðja sem best að skoðunum formanns þingflokks Alþfl. er hér flutt frv. um að verja til þessara hluta 1000 millj. kr. á ári.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson flutti líka stefnumarkandi ræðu fyrir sinn flokk, ekki til þess að styðja einstaka þætti fjárlagafrv., heldur til þess að gera aths. við ýmsa þætti þess. Hann var alls ekki á sama máli og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson um það, hvernig ætti að fara með framlög til verklegra framkvæmda. Hann vildi hafa þær sem mestar. Hitt var annað mál, að hann vildi láta draga úr rekstrarkostnaði ríkisins eins og tök væru á og vildi helst láta nefna í því ákveðnar tölur. En mér er einnig spurn: Er það til þess að undirstrika þetta sem þm. Alþb. flytja frv. á þingi til breytinga á lögum um byggingu og rekstur dagvistarheimila, þar sem þeir gera ráð fyrir að ríkið reki dagheimilin að nokkru leyti? Er það til þess að styðja stefnu Alþb., að þetta frv. er flutt, eða er það flutt bara út í bláinn? Ég verð að segja það, að ég finn til nokkurs uggs og kvíða í sambandi við fjárlagagerð sem stendur á ekki traustari fótum en þessi dæmi, sem ég hef hér nefnt, eru vitni nm.

Ég ætla ekki, herra forseti, að lengja þessar umr. frekar En ég vildi aðeins, áður en ég fer úr þessum ræðustól, koma lítils háttar að Lánasjóði ísl. námsmanna. Ég minnist þess, að meðan ég var í meirihlutaaðstöðu í fjvn., var það á hverju ári alvarlegt ádeiluefni frá stjórnarandstöðunni, hversu illa væri búið að Lánasjóði ísl. námsmanna, þar sem ekki væri ákveðið að mæta 100% umframfjárþörf íslenskra námsmanna. Nú er annar meiri hl. sem stendur að gerð fjárl., og hvernig er útkoman þá? Tölurnar sjáum við: 1977 voru ætlaðar til þessa 1069 millj., á árinu 1978 1408 millj. og með sama hætti eru nú áætlaðar 2234 millj. að lántökuheimild meðtalinni, en þessi upphæð er byggð á því, að mætt sé 85% umframfjárþörf námsmanna, en ekki 100%. Það er sama verkefni sem hér er stefnt að því að leysa og stefnt var að áður. Mér finnst að ég geti ekki — fyrst ég er kominn hér upp í ræðustólinn — annað en bent á hvernig staðið er að því máli sem virtist vera eitt af heilögum málum þeirrar stjórnarandstöðu, sem var hér í Alþ. þegar ég var í meirihlutaaðstöðu í fjvn.

Þá er líka rétt að benda á, þó að það hafi komið fram áður í máli manna, að að Byggðasjóði er nú staðið á allt annan hátt en var gert t.d. við síðustu gerð fjárlaga. Ég minnist þess, að þegar verið var að leggja síðustu hönd á fjárlagafrv. fyrir árið 1978 kom að máli við mig annar framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunarinnar, núv. hæstv. fjmrh., og bar nokkurn ugg í brjósti um að málefni Byggðasjóðs hefðu verið borin fyrir borð, að ofmetinn mundi hafa verið sá hluti af ráðstöfunarfé sjóðsins, sem kom af eigin starfsemi hans. Þar kom okkar tali samt, áður en till. voru lagðar fyrir Alþ., að við vorum ásáttir um að hér mundi vera farið rétt að. En hvað gerist nú þegar hæstv. fjmrh., sem kunnugur var í Byggðasjóði áður, á að stjórna þessu verki? Ég sé ekki betur en það sé verið að skjóta sér undan því að láta ganga til Byggðasjóðs lögákveðnar upphæðir svo að munar rúmum milljarði kr. Ég get ekki annað en bent á þetta áður en ég fer úr ræðustólnum.

Að síðustu langar mig að koma lítillega að þeirri ræðu, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason flutti hér áðan. Hún var að ég ætla að mörgu leyti óvenjuleg. Ég vil ekki kalla hana lærdómsríka að öðru leyti en því, að ég átti von á að þm., sem tæki að sér að skýra vissa hluti í fjárlagafrv., hefði betri þekkingu á því, sem hann var að tala um, en mér virtist þarna koma fram. Hann hafði orð á því, að það væru ýmis framlög til landbúnaðarins, sem honum þættu ekki vera í samræmi við stefnu Alþfl. um landbúnaðarmál. Ég skal ekki segja um það, hvernig hann túlkaði stefnu Alþfl. fyrir kjósendum sínum hér í Reykjavík. En það plagg, sem ég hef fengið frá Alþfl. og hef í höndunum og var e.t.v. túlkað á einhvern sérstakan hátt austur í Suðurlandskjördæmi í vor, það hef ég og það stefnir alls ekki í sömu átt og það sem hv. þm. Vilmundur Gylfason var að ræða um. Þar segir m.a. um landbúnað:

„Alþfl, vill efla landbúnað á Íslandi og nýta þannig þá auðlind, sem gróður landsins er. Landbúnaðinn og markaðskerfi hans ber að endurskipuleggja þannig, að framtak bænda og hagsýni nýtist þjóðarbúinu. Með skipulagðri nýtingu og markvissri uppgræðslu ber að auka að nýju gróðurlendi Íslands“ — og enn fremur: „Landbúnaður er grundvöllur byggðar í mörgum héruðum og verður því að skipuleggja hann í samræmi við byggðastefnu. Þörf er á sérstökum stuðningi við bændur í rýrari sveitum, sem þarf að halda í byggð vegna byggðasjónarmiða.“

Ég verð nú að segja það, að ég varð dálítið hissa á þessari lýsingu á stefnu Alþfl. í landbúnaðarmálum, þegar ég las þetta og heyrði þetta túlkað austur í Suðurlandskjördæmi vegna þess að mér hafa fundist ræður Alþfl.-manna hníga frekar í sömu átt og málflutningur sá, sem Vilmundur Gylfason hafði hér í frammi.

Við þetta, sem ég las upp, er ekkert að athuga og ég er sammála flestu af því, sem ég las upp. En ég er andvígur því, að það sé vegið að einni stétt í landinu frekar en annarri. Ég vil að þar sé um jafnrétti að ræða og jafnræði. Og mér flaug nokkuð í hug, þegar hv. þm. hafði orð á því, að það væri sóað fjármunum í ýmislegt varðandi landbúnaðinn, og benti m.a. á að þar væri t.d. um verulegar fjárhæðir að ræða til búfjárræktar. Rétt er að allmikið fé er til þess ætlað. Sumt af því er laun til manna, sem starfa við þessa atvinnugrein. En mér flaug í hug í þessu sambandi, að e.t.v. væri nauðsynlegt að taka upp nýjan fjárlagalið, sérstaka fjárveitingu. Ég skal ekki segja undir hvaða rn. hana ætti helst að færa, en hún mætti heita: Til mannræktar.