18.10.1978
Neðri deild: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

4. mál, stjórnarskipunarlög

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta það koma hér fram, að nú um alllangt bil, nokkur ár, hefur verið starfandi n. sem hefur fjallað um það verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Á því tímabili hafa flokkar þingsins notað þá aðferð til þess að vekja athygli á stefnumálum sínum í sambandi við slíka endurskoðun að flytja hér á hinu háa Alþ. bæði þáltill. og lagafrv. um þau efni stjórnarskrárinnar sem þeir leggja áherslu á að fá endurskoðuð. Alþfl. hefur sérstaklega lagt sig fram um að gera þetta, og enginn þingflokkanna hefur á þessum tíma flutt jafnmörg mál og Alþfl. hefur gert um endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins og endurskoðun á lögum því tengdum, eins og lögum um kosningar til Alþingis, lögum um kosningar til sveitarstjórna og lögum um þingsköp Alþingis. Er því ósköp eðlilegt, að þegar yfir stendur endurskoðun á stjórnarskrá noti flokkarnir tækifærið til þess að koma fram með það hér á hinu háa Alþ. í hvaða átt þeir leggi áherslu á að sú endurskoðun skuli gerð.

Það má vel vera að það þjóni ekki miklum tilgangi að flytja frv. sem menn hafa ekki fullvissu um fyrir fram að fá samþykkt. Öll lagafrv. og allar þáltill., sem fluttar eru, eru að sjálfsögðu flutt í þeirri von, að unnt verði að fá þau samþykkt. Þannig höfum við Alþfl.-menn flutt þing eftir þing frv. um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands um 18 ára kosningaaldur í von um að fá það samþykkt. Hins vegar flytja þm. að sjálfsögðu ekki frv. aðeins ef þeir eru vissir um að fá þau samþykkt, enda væri þá lítið af málum flutt hér á hinu háa Alþingi ef menn ættu að einskorða sig við vissuna.

Það má berjast fyrir framgangi máls á margan hátt, t.d. með því að hreyfa málum á Alþ. í frv.- eða þáltill.formi og vekja þannig athygli á þeim og fá umr. um þau. Ég vil aðeins í þessu sambandi vekja athygli manna á því, að árið 1965, þegar þm. Alþfl. fluttu í fyrsta skipti frv. á Alþ. um 18 ára kosningarrétt, þá var það frv. m.a., þegar það var til meðferðar í n., sent til umsagnar allra pólitískra samtaka ungs fólks í landinu. Ég átti þá sæti í stjórn Sambands ungra jafnaðarmanna og man mjög vel eftir því, hvaða afgreiðslu þetta mál fékk hjá umsagnaraðilum. Ég held að ég muni það rétt, að Samband ungra jafnaðarmanna hafi verið eina sambandið sem mælti með samþykkt málsins. Samband ungra sjálfstæðismanna og Samband ungra framsóknarmanna mæltu bæði gegn því. Og það var haldinn þá mjög fjörugur fundur í Menntaskólanum í Reykjavík sem var sóttur af málsvörum þessara þriggja ungpólitísku samtaka, þar sem Alþfl.-mennirnir einir voru í forsvari fyrir þessari breytingu, en bæði ungir sjálfstæðismenn og ungir framsóknarmenn mæltu gegn.

Hvað hefur gerst síðan árið 1965? Jú, Alþfl. hefur haldið áfram að flytja þetta mál hér á hinu háa Alþingi. Með hvaða árangri? T.d. þeim, að á síðasta þingi Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem mun hafa verið einkum og sér í lagi haldið til þess að fjalla um kosningar og kosningamál bæði innan og utan flokks, var mörkuð sú stefna af ungum sjálfstæðismönnum, að þeir væru alfarið samþykkir þessari breytingu. Þessi stefna hefur líka verið mörkuð af ungum framsóknarmönnum, og okkur Alþfl.-mönnum til mikillar ánægju hefur Alþb., sem ég efast ekki um að hafi frá upphafi verið þessarar skoðunar, farið að feta í fótspor okkar með tillöguflutningi um málið hér á hinu háa Alþingi, þannig að ég vænti þess, að sú barátta, sem þm. Alþfl. stóðu einir um að heyja á Alþ. með málatilbúnaði þar frá árinu 1965 og til ársins 1977, þegar ágætur þm. Alþb. bættist í hópinn, að þessi barátta hafi skilað nokkrum árangri.