15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

26. mál, stjórnarskipunarlög

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla að taka það fram strax í upphafi, að ég er í grundvallaratriðum samþykkur þessu frv. og tel að þarna sé tekið á mjög þörfu máli. Það er mjög sérkennilegt um atvinnu alþm., að ég hygg að þeir muni vera þeir einu í öllu þjóðfélaginu sem geta haldið fulllaunaðri vinnu hér á þingi, en unnið síðan kannske megnið af sínum vinnudegi einhvers staðar úti í bæ og fengið önnur laun þar. Þeir geta verið á tvöföldum launum. Ég er ekki viss um að til séu dæmi um þetta annars staðar í þjóðfélaginu, og það verð ég að segja, að ef ég væri atvinnurekandi dytti mér aldrei í hug að ráða mér starfsmann sem ætlaði sér einungis að vinna að nafninu til hjá mér og þiggja einungis hjá mér laun, en vinna síðan í raun einhvers staðar annars staðar og taka þar laun líka.

Mér er alveg ljóst að fyrir þessu eru sögulegar ástæður. Það var áður fyrr skiljanlegt, þegar störf Alþingis voru öll mun einfaldari og fábrotnari en þau eru nú, þá var ekki þörf á því að þm. sinntu þingmennsku sem fullu starfi. Verkefnin kröfðust þess ekki. Nú eru tímar gerbreyttir. Störfin eru orðin mjög flókin, viðamikil, og það sem meira er, þau krefjast mikillar þekkingaröflunar og yfirlegu, þannig að ég er sannfærður um að enginn alþm., sem ætlar sér að taka þessi störf alvarlega og sinna þeim vel, getur komist hjá því að vinna þau sem fullt starf.

Það, sem um er að tefja hér, er einfaldlega það, hvort Alþ. vilji tryggja sér vinnuafköst þm., hvort það eigi að tryggja að þm. vinni hér í raun. Það er aðalatriði þessa máls. Þar kemur annað til líka. Við þekkjum það sjálfsagt öll, að erlendis eru ýmis dæmi þekkt um það, að einstaklingar og stórfyrirtæki greiða þm. á þjóðþingum þóknun, laun, stundum fyrir engin störf, stundum fyrir störf. Þetta er auðvitað gert í þeim tilgangi að tryggja sér stuðningsmenn á þingi til þess að reyna að hafa áhrif á gerðir þjóðkjörinna fulltrúa á þjóðþingum. Ég skal ekkert fullyrða um það, hvort þetta eigi við hjá okkur hér heima. En það er alveg augljóst mál, að sá alþm., sem þiggur laun einhvers staðar annars staðar en á Alþ., er háður atvinnuveitanda sínum. Það er ekki nokkur vafi á því. Hann er háður því að fá hjá honum launin, vill fá hjá honum launin og er þar af leiðandi að einhverju leyti undir hans áhrifum og hans áhrifavaldi. Og jafnvel þótt við getum kannske ekki nefnt beinlínis dæmi um þetta nú, enda er það óþarfi, þá sjá allir menn að hér er mikil hætta á ferðum. Það er hætta á því, að sá þm., sem þiggur laun einhvers staðar úti í bæ, verði undir óeðlilegum áhrifum frá atvinnuveitanda sínum, — áhrifum sem geta gersamlega breytt afstöðu hans á þinginu. Þessi rök liggja að baki þessu sérstaka ákvæði um forseta Ístands, sem hv. flm. gerði grein fyrir áðan, og mér finnst þessi rök vera nákvæmlega jafnsterk um þm., þannig að í þessum grundvallaratriðum er ég algerlega sammála þessu frv.

Hitt er allt annað mál, að það getur vel hugsast að rétt sé að taka upp eitthvert annað fyrirkomulag á þessu eða hægt sé að ímynda sér aðra tilhögun sem e.t.v. nær markinu eins, og ég vildi þá gjarnan heyra álit hv. þm. á því. Í þessu frv. er sú leið farin að banna þm. algerlega að taka laun annars staðar. Það er raunar líka hugsanleg sú leið að leyfa þm., sem vilja ekki starfa á þinginu að öllu leyti eða kæra sig ekki um það, vilja vinna annars staðar, — leyfa þeim það, en láta það þá koma niður á þingfararkaupi þeirra, draga þá í staðinn af þingfararkaupinu. Mér finnst það stríða á móti öllu réttlæti og allri skynsemi að þm. haldi fullu þingfararkaupi og hafi að auki störf og kaup annars staðar. Ég sé ekki nokkra skynsemi í því. Ef það eru margir þm. sem hafa áhuga á því að vinna annars staðar og eru kannske hér bara af gömlum vana, þá er e.t.v. allt í lagi að leyfa þeim það, en þeir eiga ekki að fá fullt þingfararkaup. Mér finnst það alveg fráleitt.

Hv. þm. Ellert B. Schram sagði áðan að þetta væri vitlaust frv. Ég beið síðan spenntur að heyra hver vitleysan væri. Mér skildist að vitleysan væri þá helst fólgin í því, að með þessu ætti að hefta þm. frá því að taka þátt í atvinnulífinu. Þetta er hreinn misskilningur. Það er enginn þm. heftur frá því að taka þátt í atvinnulífinu. Hann getur einfaldlega hætt störfum sínum hér, ef hann hefur áhuga á einhverju öðru, og farið þá í atvinnulífið. Það, sem verið er að gera hér, er einfaldlega að tryggja að menn sinni sínu starfi. Ef einhver alþm. hefur meiri áhuga á atvinnulífinu, eins og hv. þm. Ellert B. Schram nefndi, þá á hann að fara í atvinnulífið, þá á hann þar heima, þannig að vitleysan, sem hv. þm. Ellert B. Schram nefndi, var ósköp lítil.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Ellert B. Schram nefndi áðan, að hér urðu mjög fróðlegar umr. fyrir nokkrum árum milli merkra þingskörunga um atriði skyld þessu. Menn hafa gjarnan talað um að það sé mikil nauðsyn á að þm. hafi þekkingu á atvinnulífinu. Þetta er auðvitað alveg hárrétt. Þm. verða að hafa mikla þekkingu á atvinnulífi í landinu, og þeir verða raunar að hafa þekkingu á öllum málum sem varða íslensku þjóðina einhverju. En hvernig afla menn sér þekkingar á atvinnulífi? Hvernig afla menn sér t.d. þekkingar á sjávarútvegi? Er það nauðsynlegt til að fá yfirgripsmikla og grundvallaða þekkingu á sjávarútvegi að vera t.d. háseti á togara? Lærir maður í því starfi allt það sem máli skiptir í sjávarútvegi? Nei, augljóslega ekki. Menn læra auðvitað þar hagnýta hluti, en menn læra ekki allt. Það er ákaflega sérhæfð þekking og þröng sem menn fá með því að bara að vinna eitthvert tiltekið starf. Sá, sem ætlar að spjara sig hér á þinginu, verður helst að þekkja þetta allt, ekki bara einn atvinnuveg. Hann verður að þekkja iðnað, landbúnað og þetta allt saman. Þessi gamla — ég vil segja: lumma um það, að þekkingarþörf á atvinnulífinu eigi að ráða því, að menn geti unnið utan þings, á ekki við rök að styðjast.

Hv. þm. Ellert B. Schram sagði að þingfararkaup ætti að vera gott, og ég er alveg sammála því. Ég held að það sé alveg sjálfsagt að greiða þm. svona sómasamleg laun. Þeir eiga auðvitað ekki að vera neinir hátekjumenn, þeir eiga að hafa sómasamleg laun, þannig að þeir geti verið sæmilega öruggir með afkomu sína. Um þetta er ekki ágreiningur okkar í milli, hv. þm. Ellerts B. Schram. Hitt stendur ágreiningurinn greinilega um, hvort þm. eigi að vinna fyrir kaupinu sínu. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að borga þeim þm. gott þingfararkaup sem vilja ekki vinna fyrir því, það sé fráleitt.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta neitt frekar. Ég ítreka það grundvallarsjónarmið, að ég styð þetta frv. Það getur vel verið að hægt sé að finna því heppilegra form. Ég útiloka það ekki, eins og ég var að nefna áðan. Það getur vel verið að ekki sé rétt að hafa algert bann, fara kannske þá leið, að ef einhver kýs að vinna annars staðar, þá missi hann alltént að hluta eða jafnvel allt sitt þingfararkaup.