15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

26. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja verulega umr. um þetta mál. Það hefur verið ítarlega rætt hér, eins og komið hefur fram í ræðum, og sýnist auðvitað sitt hverjum. Mín skoðun er sú, að þetta frv. sé í fyrsta lagi flutt á röngum tíma og það mundi vera vinnusparnaður hjá hv. þm. ef þeir slægju saman breytingum þeim á stjórnarskránni sem þeir hafa flutt í fernu lagi. Það mundi auka skilvirkni þá á Alþingi sem hv. flm. gerði að umræðuefni. Það mundi líka auka skilvirkni Alþingis ef menn styttu mál sitt og héldu ekki uppi hrókaræðum í öllum málum og þá ekki síst þeim sem allir vita að ekki verða afgreidd fyrr en stjórnarskrárendurskoðun er lokið.

Ég held að það sé ekki rétt, að þm. megi ekki vinna neitt annað en að sitja hér á þingi, og ég dreg í efa að það fengjust hæfir menn til starfa á Alþ. ef sú regla yrði alfarið upp tekin. Menn verða að gá að því, að í þingmennsku eiga menn framtíð sína óvissa og þeir, sem gefa sig að þingstörfum og sleppa öllu því sem þeir hafa haft, eru kannske áður en við er lítið orðnir atvinnulausir menn og búnir að farga þeim möguleikum sem þeir höfðu — og hefðu ef þeir hefðu ekki sinnt þingmennsku. Menn þurfa ekki að halda að allir, sem hér eiga sæti, séu hér vegna þess að þeim þyki sérstaklega fínt eða varið í það að vera þm. Menn hafa sumir hverjir a.m.k. orðið þm. fyrir áskoranir og tilmæli fólksins í landinu og kosnir af því. Ég vil þess vegna, án þess að ég fari að gera þetta að umtalsefni í löngu máli, lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel að þetta frv. þurfi miklu betri skoðunar við en ég er tilbúinn að segjast hafa framkvæmt á því að svo stöddu.

Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson talaði um það, að skilvirkni Alþingis hefði farið minnkandi. Þessu vil ég alfarið neita. Ég er að vísu ekki búinn að vera hér neinn mannsaldur, en þó nægilega lengi til þess, að ég get fullyrt að þm. vinna ekkert lakar nú en áður var gert, nema síður sé. Ég veit ekki dæmi þess, — það má vera að flm. og þeir sem tala fyrir þessu frv. þekki það, — en ég þekki þau dæmi ekki, að þm. vanræki störf sín vegna annarra starfa. Ég þekki ekki þá menn þau ár sem ég hef verið hér. En það má vera að þeir séu nú til, þó þeir hafi ekki verið það.

Hitt er auðvitað annað mál, að þingstörf hafa aukist. Það er rétt. Með vaxandi þjóðfélagi, með aukinni kröfugerð, með meiri afskiptum löggjafarvalds afþjóðlífinu en áður var hafa þingstörf aukist og eru meiri, og ég hygg að þróunin sé líka sú, að miklu færri menn en áður stundi önnur störf en þingmennsku sem heitið geti. En að menn megi ekki undir neinum kringumstæðum taka laun fyrir vinnu sem þeir vinna utan þingtíma, á þá skoðun get ég ekki fallist. Hvar á þá að draga mörkin? Það hefur verið minnst á það hér og ég skal ekki fara langt út í það, en samkv. þessu frv. virðist vera alfarið bannað þm. að taka nokkur laun fyrir nokkuð annað en þingmennsku sína, og ég tel að það sé ekki rétt ráðið.

Sú röksemdafærsla, sem hér var uppi höfð áðan, að ef þm. vildu vera eitthvað annað en þm., þá gætu þeir það, er auðvitað þvílík fjarstæða að hún er ekki svaraverð. Ef þm. fer í annað starf, þá er hann ekki lengur þm., þannig að um það er ekkert að deila. Annaðhvort eru menn sem sagt þm. eða þeir eru það ekki.

Ég lýsi því sem minni skoðun, að ég er mótfallinn þessu frv. eins og það er í núverandi mynd. Það má vel vera að flm. vilji auka laun þm. þannig að þau séu svo há að útilokað sé að greiða hærri laun. Ég tel að því stigi hafi ekki verið náð að svo stöddu a.m.k. Ég tel ekki, að þingfararkaup sé svo hátt að það sé ósambærilegt eða of hátt miðað við önnur störf í þjóðfélaginu. Hér eru þýðingarmikil störf unnin, og þá á að launa þau vel. En að menn megi ekki hafa afskipti af neinu öðru en þingmennsku, það tel ég fjarstæðu.