15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

26. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ellert B. Schram hóf mál sitt á því, að hér væri um vitlaust og fráleitt mál að ræða. Það getur e.t.v. verið skoðun hans. Síðan ræddi hann þetta mál í nokkurn tíma, og þá kemur í ljós að 80% af því, sem hann segir, fellur heim og saman við það sem frv. mælir um. Hann fór mörgum orðum um það, að slæmt sé að þm. þurfi að vera háðir greiðslum úr hinni og þessari áttinni í atvinnulífinu og vissulega sé æskilegt að þm. gætu stundað störf sín og helst ekki önnur störf. Síðan spurði hann að því, hvernig koma mætti í veg fyrir að þm. þiggi launagreiðslur úr einkaatvinnurekstri ef þessi lög yrðu að raunveruleika.

Ég hef talið að þeim, sem kjörnir væru til Alþingis, mætti treysta til þess að fara eftir lögum og þeim reglugerðum sem settar eru hverju sinni, það þurfi ekki alltaf að gera ráð fyrir því, að verið sé að plata og pretta og þar eigi þm. e.t.v. hlut að máli eins og aðrir í samfélaginu. Það verður að gera þær lágmarkskröfur til manna sem takast þingmennsku á hendur og eru kjörnir til slíkra trúnaðarstarfa, að þeir fari að sjálfsögðu eftir þeim lögum og reglugerðum sem settar eru hverju sinni. Til þess tel ég raunverulega ekkert eftirlit þurfa, vegna þess að það á að vera sjálfsögð skylda manna að fara eftir slíkum lágmarksatriðum.

Einnig varð hv. þm. Ellert B. Schram ásamt hv. þm. Einari Ágústssyni tíðrætt um að þm. mættu ekki þiggja greiðslur fyrir önnur störf en þingstörf. En þeim hefur báðum láðst að átta sig á hvað frv. innihéldi, og þá kannske vegna þess að þeir eru uppteknir við önnur störf — ég veit ekki um það — þannig að þeir hafi ekki gefið sér tíma til að kynna sér efni frv. nógu vel. En það er tekið fram í frvgr., að þetta eigi eingöngu við þann tíma sem Alþ. stendur yfir. Þessum hv. þm. hlýtur að vera kunnugt um það, að þing er sett að hausti og því er slitið að vori og síðan er tími, um það bil 5–6 mánuðir, sem þing kemur ekki saman. Þá gefst mjög gott tækifæri fyrir þm. til þess að fara út í atvinnulífið og efla á þann hátt tengsl sín ekki aðeins við atvinnureksturinn í landinu, heldur fólkið sem stundar störf úti í atvinnulífinu. Ég tel ekki síður nauðsyn á því að yfir sumarmánuðina leggi þm. sig fram um að kynnast þessu fólki, sjónarmiðum þess, lífi þess og starfi, og það gerist best með því að vinna við hlið þess.

Um það, sem hv. þm. Einar Ágústsson sagði, að frv. væri komið fram á röngum tíma, þá tók ég fram í framsögu, að það hefði tíðkast að síðustu vikurnar á síðasta þingi fyrir kosningar flykktust hv. þm. hér fram með ýmiss konar kraftaverkalausnir á stjórnarskránni, til þess að ekki verði um þá sagt að þeir hafi ekki reynt að leggja eitt eða annað af mörkum til að fá þar ýmsu breytt áður en til kosninga yrði gengið. Niðurstaðan hefur eigi að síður alltaf orðið sú, að þá hefur gjarnan verið um miklar annir að ræða í þinginu þannig að ekki hefur tekist að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni á svo stuttum tíma. Þess vegna lagði ég áherslu á að þetta mál væri flutt í upphafi þings, gagnstætt því sem venja hefur verið, til þess að það gæfist góður tími á kjörtímabilinu til að ræða stjórnarskrármál og gera þær breytingar sem gera þarf á þessu kjörtímabili, þrátt fyrir það að stjórnarskrárnefnd taki til starfa og undirbúi þau mál einnig.

E.t.v. er það rétt, að það þurfi að efla virkni þingsins. Ég lagði áherslu á það í ræðu minni áðan. Ég talaði aftur á móti ekki um að virkni þingsins hefði minnkað. Hún hefur ekki staðist kröfur tímans af því að stjórnkerfið er orðið flóknara en það var áður, og þess vegna tel ég að virkni þingsins þyrfti og yrði að vera meiri til þess að koma til móts við það sjónarmið.

Síðast en ekki síst vil ég benda á þá staðreynd, að stór hluti af valdi Alþingis virðist vera að færast yfir í hendur embættismanna. Gildi reglugerða við lög af ýmsu tagi er að aukast, og virðist sem þróunin stefni í þá átt, að hér séu fyrst og fremst afgreidd nokkurs konar rammalög, en síðan eru það reglugerðirnar raunverulega sem segja til um hvernig lögunum skal beita í nákvæmnisatriðum. Þar með er verið að færa í meiri mæli en ég tel ástæðu til vald úr hendi þingsins yfir til embættismannanna. Eina ástæðuna til þess tel ég vera, að þm. eru gjarnan uppteknir af öðrum störfum, nefndarstörfum víða úti í bæ, sækjast eftir störfum í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera, sækjast eftir nýju valdi í úthlutunarsjóðum ýmiss konar, í staðinn fyrir að standa undir því valdi, sem Alþ. veitir þeim sem hv. alþm., beita því á réttan hátt og efla það eftir þeim mætti sem hægt er þannig að lýðræðinu verði best borgið í okkar samfélagi.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég vona að ég geti nýtt tíma minn til þess að halda áfram að vinna að þessu máli hér innan þingsins, þannig að nýr tími og ný þróun, nýjar siðferðilegar kröfur, sem fólk gerir til Alþ. og til þess lýðræðis, sem hér á að vera, megi sín einhvers hér á hinu háa Alþingi.