15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

26. mál, stjórnarskipunarlög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég held að það sé misráðið hjá hv. flm. að jafna embætti sínu við embætti forsetans, eins og hann gerði í framsöguræðu sinni. Það er mesti misskilningur. Við eigum náttúrlega að vera vandir að virðingu okkar, alþm., en við eigum að kunna okkur hóf í þessu efni, og í mínum huga a.m.k. finnst mér ég ekki vera forseti landsins og eigi ekki jafnframt að taka á mig þær kvaðir sem forsetinn hefur enda ekki launaður eins og hann.

Hins vegar vil ég taka undir meininguna í þessu frv., því að hún er rétt og góð eins og von var á hjá hv. þm. Það er alls ekki rétt hjá hv. þm. Ellert B. Schram, að þetta sé vitlausasta mál sem sést hafi hér á þinginu. Við erum nefnilega ýmsu vanir. Meira að segja hef ég séð hér mál frá hv. þm. Ellert B. Schram sem ég hef hálfhrokkið við að sjá, en mörg hafa verið stórgóð af málum þeim sem hann hefur lagt fram, eins og menn vita. En það er bara misjafn sauður í mörgu fé, og eins er sjálfsagt í möppu hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar sem hann tætir upp úr hvert málið eftir annað, en sum ekki mjög rækilega undirbúin.

Rótin að þessu frv. er sjálfsagt sú að sumir þm. hafa verið um of öðrum störfum hlaðnir, og það eru einkum þeir menn sem hafa störf með höndum hér í bænum og sinna þeim hálfa og heila dagana. Sumir geta gert þetta um helgar og farið vel á því. Ég veit meira að segja um einn þm. sem var forfallakennari í fyrravetur og gat iðulega ekki mætt á nefndarfundum fyrir bragðið. Það er náttúrlega ekki gott ef menn eru ekki tiltækir að gegna sínum þingskyldum þegar skyldan á annað borð kallar. En það er mikil nauðsyn að slitna ekki úr tengslum við það líf sem lifað er í landinu, eins og þeir hv. bræður báðir eru búnir að taka fram og raunar a.m.k. annar þeirra, hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson, er búinn að undirstrika rækilega í ræðu sinni. Ég hygg að hann hefði ekki nema gott af því, jafnvel ekki einasta í sumarfríum, heldur jafnvel um helgar, að kynna sér mannlíf og atvinnulíf í Norðurlandskjördæmi vestra svo að hann verði góður þm., eins og við viljum allir reyna að vera.

Svo er líka hitt, að sumir hafa meiri starfsorku en aðrir, og ef mönnum væri bannað að vinna annað en þeir gætu gert hér í þingsölum, þá gæti svo farið að tómstundirnar yrðu þeim óbærilegar og þeir legðust t.d. í kvennafar, íþróttir eða einhverja vitleysu.

Þá er líka það, að sumir hv. þm. hafa meiri störf með höndum en aðrir, og það er alveg nauðsynlegt að sumir hv. alþm. séu gersamlega atvinnumenn í pólitík, vegna þess að ekki einasta í þingleyfum og þinghléum, heldur einnig um helgar og hverja lausa stund þurfa a.m.k. í þeim flokkum, sem eru í stjórnaraðstöðu, einhverjir að vera tiltækir til þess að undirbúa mál og taka að sér störf sem til falla. Sumir reyna líka að tempra við sig aukastörf til þess að geta haldið í atvinnurekstur sinn eða sín fyrri störf.

Það er ákaflega mikil nauðsyn að mínum dómi að þm. séu efnalega sjálfstæðir, ekki kannske að þeir séu stórríkir, heldur að þeim finnist þeir vera efnalega sjálfstæðir. Svo framarlega sem þm. er efnalega sjálfstæður er hann frjáls. Annars er hann ekki frjáls. Þm. hefur, eins og dæmin sanna, orðið höfuðgjarnt. Sumir verða þm., eins og hv. þm. Einar Ágústsson tók skýrlega fram, vegna áhuga síns eða kjósenda eða mannkosta sinna. Sumir verða þm. fyrir tilviljun, það þýðir ekkert að neita því, og jafnvel fyrir röð af tilviljunum, og ég er sjálfsagt í þeirra hópi, og þeim á að sjálfsögðu að vera höfuðgjarnt. Við erum ekki tryggir til æviloka, ekki einu sinni 12 ár samfleytt, hv. þm. Þá er betra að hafa að einhverjum störfum að hverfa, og ég segi fyrir mig, að ég vildi alls ekki eiga efnahagslega framtíð mína, efnahagslega afkomu fjölskyldu minnar alfarið undir kjósendum, félögum mínum ágætum í Framsfl. eða einum eða neinum. Ég er ekkert ósáttur við það að eiga nokkurn bakhjarl í fáeinum kindum fyrir norðan, ef svo vildi verkast, að ég ylti héðan út eða hætti að nenna að standa í þessu.

Ég held að meiningin í þessu frv. sé býsna góð. Formið er bara ekki það heppilegasta. Það á skilyrðislaust að krefja þm. um það, að þeir reyni að vinna fyrir kaupinu sínu og gegni þingstörfum. Hins vegar sé ég ekkert athugavert við það og jafnvel mikinn kost ef þeir geta komist yfir meira, þá þeir um það. En ef þeir gegna ekki starfi sínu með sómasamlegum hætti, þá eiga kjósendur að sjá um að losa þá við það.