15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

67. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka flm. fram komið frv. um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn. Ljóst er að þessum þýðingarmikla þætti í þjóðfélaginu sem bygging dagvistarheimila er hefur allt of lítið verið sinnt. Þjóðfélagsþróunin hefur orðið sú, að konur hafa þurft að leggja fram í vaxandi mæli vinnu utan heimilisins, þar sem verðbólga og þröngur fjárhagur heimilanna hefur ýtt þeim meir og meir út á vinnumarkaðinn. En þjóðfélagið hefur ekki að sama skapi skapað þeim aðstöðu til þess að koma börnum sínum fyrir á dagvistarheimilum.

1. flm. frv. benti á að þegar ríkið hætti að taka þátt í rekstrarkostnaði dagvistarheimila með lögum frá 1976 hafi sveitarfélög fengið aukna hlutdeild í söluskattstekjum sem standa átti m.a. undir þessari auknu kostnaðarbyrði sveitarfélaganna við rekstur dagvistarheimila. Frsm. benti einnig á að þrátt fyrir þessar auknu tekjur sveitarfélaga hafi þessi breytta greiðslutilhögun samt dregið úr framkvæmdum í dagvistarmálum víða um land og að sveitarfélög hafi hikað við að hefja starfrækslu dagvistarheimila einmitt vegna rekstrarkostnaðarins. Fróðlegt væri því að fá upplýst hve miklar tekjur þessar auknu söluskattstekjur hafa gefið sveitarfélögunum, hve stór hluti þeirra hafi verið ætlaður til rekstrar dagvistarheimila og að hve miklu marki þær hafi staðið undir rekstri þeirra hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Að öllu athuguðu verður að telja eðlilegt og réttmætt, að ríkið taki þátt í rekstri dagvistarheimila eins og t.d. rekstrarkostnaði við grunnskóla. Því fagna ég fram komnu frv. og lýsi stuðningi mínum við það.