18.10.1978
Neðri deild: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

4. mál, stjórnarskipunarlög

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð varðandi þetta frv.

Það er búið að tala um endurskoðun stjórnarskrárinnar eiginlega frá því að lýðveldið var stofnað 17. júní 1944 og nefndir hafa unnið að tillögum um breytingu á stjórnarskránni og gefist upp eftir mikla vinnu og mikil heilabrot. Svo gerðist það á síðasta þingi, að rætt var um að skipa enn eina nefnd til að taka upp þráðinn að nýju. Í stað þess að þingflokkarnir eða stjórnmálaflokkarnir manni sig nú upp í það að skipa þessa nýju n. og þá eitthvað hraustari menn en áður hafa verið, til þess að láta þá eitthvað eftir sig liggja, þá er hlaupið hér af stað með frv. hvert af öðru í þessum efnum, eins og allir séu að missa af glæpnum, og flytja auðvitað einhverja lofgerðarrollu um það, hvað ákveðnir flokkar og ákveðnir menn hafi lagt sig alla fram á undanförnum árum.

Ég held að í sannleika sagt sé ekki neinn stór ágreiningur um það, að Alþ. verði að einni málstofu. Ég fyrir mitt leyti get vel fallist á það og stutt það og þótt fyrr hefði komið fram Ég sé heldur ekkert á móti því að færa kosningaaldurinn niður í 18 ár. Það er auðvitað til óskaplegrar skammar fyrir þingræðisland og lýðræðisland eins og Ísland að vera eftirbátur fjölmargra annarra landa í þessum efnum, að minni lýðréttindi skuli vera á Íslandi en í Austur-Þýskalandi, Júgóslavíu, Albaníu, Búlgaríu, Rúmeníu, Ungverjalandi, Tékkóslóvakíu, Póllandi og Sovétríkjunum, eins og vitnað er í í grg. með þessu frv. Ég vil, því með þessum orðum aðeins hvetja höfuðleiðtoga allra þingflokka til að manna sig nú upp í það að skipa þessa stjórnarskrárnefnd, í trausti þess, að í hana veljist menn sem flýti tillögugerð og leggi frv. fyrir þetta þing, þannig að við Íslendingar verðum ekki eftirbátar þessara þjóða, sem ég taldi upp, hvað almenn lýðræðisréttindi snertir.