15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

86. mál, útvarpslög

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Áthyglisverð þróun hefur átt sér stað varðandi fjölmiðlun hér á landi á undanförnum árum. Það er ekki langt síðan það ástand ríkti hér, að dagblöð voru nánast öll gefin út af stjórnmálaflokkum eða aðilum í mjög nánum tengslum við þá og fóru skrif í þessi blöð eftir því. Enn fremur var Ríkisútvarpið — hljóðvarpið — tiltölulega lokaður fjölmiðill sem gætti strangra hlutleysisreglna sem voru túlkaðar á þann hátt, að það mátti helst ekki heyrast nein skoðun, og mikil viðkvæmni var gagnvart því, að þar væru sett fram sjónarmið sem orkuðu tvímælis, einkum og sér í lagi á hinum pólitíska vettvangi. Með tilkomu sjónvarps fyrir rúmum tíu árum átti sér stað veruleg breyting. Þar kynntust Íslendingar nýjum áhrifamiklum fjölmiðli, sem opnaði nýjan heim fyrir þá sem þessa fjölmiðils nutu, og fór svo hér á landi sem annars staðar, að sjónvarpið tók forustu í fréttaflutningi og fjölmiðlun. Tilkoma sjónvarpsins gerði það líka að verkum, að hljóðvarpið tók kipp til hins betra. Það varð um að ræða samkeppni á milli þessara tveggja systurstofnana, og það er almannarómur, að í kjölfar sjónvarpsins hafi dagskrá hljóðvarpsins breyst til mikils batnaðar.

Nú á allra síðustu árum hafa dagblöðin tekið miklum stakkaskiptum. Þar hefur nánast verið um byltingu að ræða. Þau eru orðin miklu óháðari stjórnmálaflokkum. Þau blöð, sem eru enn þá gefin út, af flokkunum, hafa farið halloka í samkeppninni og eru núna augljóslega að gera tilraun til þess að breyta út frá hefðbundinni ritstjórn og fréttaflutningi einmitt til þess að nálgast þá stefnu sem rekin er hjá hinum óháðari blöðum. Þessi þróun hefur gert það að verkum, að umr. allar eru miklu opnari og frjálsari en áður og fleiri einstaklingar í þjóðfélaginu kveðja sér hljóðs í blöðum og í Ríkisútvarpi. Fólk hefur fundið til máttar síns og gert sér ljóst, að það getur haft áhrif með því að tjá sig á þessum vettvangi, og afleiðingin hefur orðið sú, að dreifing valds, ábyrgðar og áhrifa hefur aukist að miklum mun. Þessa þróun tel ég mjög jákvæða, og ég held að það sé langt frá því að hún sé komin á leiðarenda. Við erum aðeins á miðri leið í átt til aukins frjálsræðis á þessum vettvangi.

Árið 1973 leyfði ég mér að flytja frv. til l. um breytingu á útvarpslögunum, sem er samljóða því frv. sem nú er flutt. Það frv. felur í sér, að bætt sé nýrri mgr. í lög um Ríkisútvarpið sem geri ráð fyrir að þessari stofnun sé veitt heimild til að settar verði upp sjálfstæðar og staðbundnar útvarpsstöðvar. Gert er ráð fyrir að þessar stöðvar séu reknar af landshlutasamtökum eða viðkomandi sveitarfélögum eftir atvikum og séu undir yfirstjórn Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóra og útvarpsráðs, en hafi þó í reynd í daglegum rekstri og við dagskrárgerð mjög frjálsa og sjálfstæða stöðu.

Þetta frv. fékk misjafnar undirtektir á árinu 1973, ýmsar aths. voru gerðar við það. Menn voru tregir til að stiga þetta skref, töldu að það væri óvarlegt að svipta burt þeirri einokun sem Ríkisútvarpið hefur og voru í vafa um hvaða áhrif þetta hefði. Síðan hefur sú þróun, sem ég var að tala um áðan, eflst og ég hef orðið var við það í umr. um fjölmiðla og útvarpsrekstur sérstaklega, að slík till. mundi eiga meira fylgi að fagna nú en áður. Því er þetta frv. nú endurflutt.

Á síðasta þingi flutti þáv. þm. Guðmundur H. Garðarsson frv. til l. um að afnema algerlega einokun Ríkisútvarpsins og leyfa hér frjálsan útvarpsrekstur, leyfa einstaklingum eða félagasamtökum að setja á stofn útvarpsstöðvar. Ég er fylgjandi þeirri stefnu, sem fram kom í þessu frv., og ég held að það muni ekki líða langur tími þangað til þetta verði staðreynd, enda erfitt að standa gegn því með hliðsjón af þeirri tækniþróun, sem á sér stað á þessum vettvangi, svo og vegna breyttra viðhorfa. En frv. Guðmundar H. Garðarssonar náði ekki fram að ganga hér á þingi, og ég vil leyfa mér að halda því fram, að þar hafi ráðið miklu pólitískir fordómar og þröngsýni, sem m.a. kom fram í umr. um þetta frv. Ég hef ekki endurflutt það frv., sem Guðmundur H. Garðarsson flutti hér á síðasta þingi, og geri mér grein fyrir því, að fyrir því er ekki stuðningur og það þarf að eiga sér meiri aðdraganda áður en til þess kemur að slík lög verði samþykkt. En ég held að með hliðsjón af þeirri þróun, sem ég hef verið að rekja hér, sé nú orðið tímabært að fikra sig áfram með sjálfstæðum útvarpsstöðvum sem eru undir stjórn ábyrgra aðila, svo sem sveitarfélaga, og yfirstjórn Ríkisútvarpsins sjálfs. Þannig hefur Ríkisútvarpið áfram einkarétt á útvarpsrekstri og útvarpssendingum, en nokkurt svigrúm gefið til einstakra byggðarlaga og landshluta að annast dagskrárgerð og stjórn slíkra stöðva. Ég trúi því, að slíkt fyrirkomulag mundi tvímælalaust stuðla að aukinni valddreifingu í þjóðfélaginu. Það mundi færa fólkinu í landinu aukna ábyrgð og aukin áhrif, það mundi vera hvati að ákveðnu frumkvæði frá þessu fólki til að setja saman menningarlegar og listrænar dagskrár. Í slíkum stöðvum væri hægt að flytja fréttir úr heimabyggð sem ættu erindi til heimamanna sjálfra, en ekki endilega í öllum tilvikum til allra landsmanna. Þarna væri jafnframt hægt að auglýsa ýmiss konar þjónustu sem væri bundin víð viðkomandi hérað.

Sumir hafa hreyft þeim mótbárum, að þetta mundi draga nokkuð úr tekjum Ríkisútvarpsins, þar sem auglýsingar mundu beinast inn á þessar stöðvar. Ég held þó að það yrði sáralitið tekjutap fyrir Ríkisútvarpið, vegna þess að ég álit að þarna mundi fyrst og fremst vera. um viðbótarauglýsingar að ræða, sem ættu fyrst og fremst erindi til þröngs hóps og eru þá ekki allajafna í auglýsingatíma útvarpsins. Ég geri ráð fyrir að Ríkisútvarpið og ríkið mundu að einhverju leyti taka þátt í stofnkostnaði við að setja upp stúdíó, en ég bendi þó á, að stofnkostnaður þyrfti ekki að vera mjög verulegur og mannahald þyrfti ekki að vera mikið. Gert er ráð fyrir að útvarpsstöðvar af þessu tagi útvörpuðu til að byrja með 2–4 tíma dag hvern og lengur eftir atvikum. Ef efni berst frá þessum stöðvum sem telst fróðlegt eða skemmtilegt, væri hægt að endurflytja slíkar dagskrár í Ríkisútvarpinu sjálfu, og auðvitað gæti Ríkisútvarpið um leið miðlað þessum stöðvum ýmsu efni frá sér svo og veitt ýmsa fyrirgreiðslu og þjónustu til þessara stöðva.

Það skiptir þó ekki minnstu máli, að þarna er tvímælalaust á ferðinni ákveðin samkeppni, ákveðið aðhald og yrði hvetjandi bæði fyrir Ríkisútvarpið sjálft og þessar stöðvar að senda út frá sér slíkt efni og setja saman slíkar dagskrár að þær væru eftirsóttar til að hlusta á, og það mundi hafa góð áhrif á alla dagskrárgerð.

Ég vænti þess, að þetta frv. fái góðar móttöku hér á þingi. Ég hef orðið var við það, að ýmsir aðilar utan þings hafa áhuga á þessu máli. M.a. hefur Fjórðungsþing Norðurlands ályktað á þann veg, að sett yrði upp slík stöð fyrir norðan, og ég geri ráð fyrir því, að fljótlega væri hægt að setja stöðvar upp víðar, bæði fyrir vestan og austan. Jafnframt yrði auðvitað gert ráð fyrir því að setja upp sérstaka stöð fyrir Reykjavík og nágrenni.

Eins og fyrr segir er hér um að ræða fyrst og fremst heimild. Fram að þessu hefur verið um nokkurn áhuga að ræða í Ríkisútvarpinu að fikra sig áfram á þessari braut, en skort hefur lagaákvæði. Með samþykkt þessa frv. væri þeirri hindrun a.m.k. rutt úr vegi og menn gætu í alvöru farið að setja það niður fyrir sér, hvernig væri hægt að fjármagna og reka stöðvar af þessu tagi í góðu samkomulagi við viðkomandi sveitarfélag og heimamenn.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til menntmn.