15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

86. mál, útvarpslög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er vissulega rétt, sem flm. þess frv. sem hér er til umr., hv. 8, þm. Reykv., sagði áðan, að það hefur orðið mikil breyting á íslenskri fjölmiðlun á allmörgum undanförnum árum. En ég hygg að það sé fyrst nú síðustu 1–2 árin sem menn raunverulega gera sér grein fyrir þeirri breytingu og hvað hún hefur haft í för með sér. Það er ekki séð fyrir endann á þessu, og raunar er þetta samfelld þróun á betri veg, að við skulum vona.

Ég held að með þessu frv. til l. um breytingu á útvarpslögunum sé vissulega hreyft ágætu og þörfu máli og ætti raunar fyrir löngu að vera búið að gera áætlun um uppbyggingu slíks landshlutaútvarps, sem svo mætti e.t.v. nefna. Ég hygg þó að athuga beri ýmsar aðrar leiðir í þessu sambandi, ekki sé endilega rétt að sú leið, sem gert er ráð fyrir í þeirri frvgr. sem hér er til umr., sé hin besta, þ.e.a.s. að landshlutasamtök og/eða einstök sveitarfélög fái þessa heimild. Ég hygg að skynsamlegra væri í fyrstu að þetta gerðist í samvinnu t.d. þessara aðila og Ríkisútvarpsins. Það hygg ég að mundi vera skynsamlegra, enda lítilli reynslu fyrir að fara í jafnsérhæfðum rekstri og útvarpsrekstur er hjá þeim aðilum sem í frv. er ætlað að fela þetta. Þá kemur og ýmislegt fleira til greina í þessu sambandi.

Fyrir nokkrum árum starfaði n. sem hafði það hlutverk að gera till. um kennslu í fjölmiðlun við Háskóla Íslands. Þessi n. skilaði áliti sem ekki hefur komist í framkvæmd, en í till. hennar er m.a. gert ráð fyrir því, að fram fari kennsla í alhliða fjölmiðlastörfum, bæði að því er varðar prentmiðla og ljósvakamiðlana svonefndu, og ég hygg að það væri ekki óskynsamlegt að slík kennsludeild við Háskóla Íslands fengi líka rétt til að reka í samvinnu við Ríkisútvarpið staðbundna útvarpsstöð.

Það hefur verið ákaflega mikið í tísku hér undanfarin ár að ræða um frjálst útvarp. Ákveðnir aðilar í þjóðfélaginu virðast sjá það sem lausn margra vandamála að þeirra dómi og telja að slíkt mundi til mikilla bóta. Það má auðvitað segja sem svo, að frjáls útvarpsrekstur hefur sína kosti, en hann hefur líka sína galla og svo verulega að engin af grannþjóðunum á Norðurlöndum hefur treyst sér til að fara inn á þær brautir. Sums staðar hefur þetta verið gefið alveg frjálst og skapað hreinan glundroða, eins og t.d. mun hafa gerst á Ítalíu. Sá er nefnilega eðlismunur á prentmiðlum og ljósvakamiðlum, þ.e. útvarpi og sjónvarpi, að þar er ekki nema ákveðið sendirými fyrir hendi, það geta ekki allir verið þar sem vilja. Meira að segja í því landi frelsisins, Bandaríkjunum, er útvarpsrekstur háður leyfum og ströngum reglum.

Ég held að það séu ekki, eins og hv. flm. komst að orði, eingöngu pólitískir fordómar og þröngsýni sem koma í veg fyrir að samþykkt sé að taka upp frjálsan útvarpsrekstur hér. Ég held að það sé miklu frekar að skynsemin hafi til þessa fengið að ráða. Ein af þeim röksemdum, sem haldið hefur verið fram í sambandi við frjálsan útvarpsrekstur, er að hann kosti nánast ekki neitt. Þarna er hlutunum gersamlega snúið við. Frjáls útvarpsrekstur kostar peninga, töluvert mikla peninga meira að segja, og mundi að öllum líkindum verða á kostnað Ríkisútvarpsins, sem mundi einfaldlega þýða það að almenningur borgaði afnotagjöld hins frjálsa útvarpsrekstrar í hærri afnotagjöldum og e.t.v. lakari þjónustu Ríkisútvarpsins, þar sem áreiðanlega mundi mjög draga verulega t.d. úr auglýsingatekjum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég tel að hér sé hreyft ágætu máli, þótt athuga megi e.t.v. betur hvort þetta sé hið eina og rétta form. Þar hygg ég að megi e.t.v. fara fleiri leiðir. En ég vona að þetta mál nái fram að ganga þannig að úr því verði að hér komist á fót landshlutaútvarp.