15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

84. mál, umferðarlög

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 40 frá 23. apríl 1968, á þskj. 92. Meðflm. mínir eru Ólafur G. Einarsson og Matthías Bjarnason:

„1. gr.: Skilgreining á orðinu bifreið í 2. gr. laganna orðist svo:

Bifreið: Vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga, svo og annarra nota, á almennum umferðarleiðum, ef það er gert til hraðari aksturs en 45 km á klst. án verulegra breytinga á því.

Í stað skilgreiningar á dráttarvél í sömu gr. laganna komi:

Dráttarvél: Vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til að draga annað ökutæki og ekki er gert til hraðari aksturs en 45 km á klst. án verulegra breytinga á því.

Vinnuvél: Vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til að nota sem vinnutæki og er ekki ætlað til hraðari aksturs en 45 km á klst. án verulegrar breytingar á því: Jarðýta: Vélknúið ökutæki á beltum eða hjólum, aðallega gerð til losunar og flutnings jarðefna. Hjólaskófla: Vélknúið ökutæki á hjólum, aðallega gert til lestunar og flutnings jarðefna. Námuvagn: Vélknúið ökutæki á hjólum, sem ekki samrýmist takmörkunum 55. og 56. gr. laga þessara um þunga og breidd ökutækja og er aðallega ætlað til flutnings á jarðefnum.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lesa hér grg. þá sem fylgir þessu frv., en hún hljóðar svo:

„Á síðari árum hefur notkun stórvirkra vinnuvéla við mannvirkjagerð aukist verulega og tækin orðið fjölbreyttari og fullkomnari. Við öflun slíkra tækja skiptir öllu máli að ljóst sé í hvaða flokk ökutækja viðkomandi tæki lendi, þar sem á því veltur um gjaldskyldu. Þess eru dæmi, að embættismenn, sem um þessi mál eiga að fjalla, komist að ólíkri niðurstöðu um hliðstæð tæki, en slíkt er með öllu ófært. Notkun námuvagns er torvelduð eða gerð ómöguleg ef skylt er að greiða þungaskatt af slíkum tækjum, enda þótt akstur á þjóðvegum væri óheimill, dæmi eru um að slíkur vagn hefur verið úrskurðaður bifreið, enda þótt akstur á vegum væri ekki heimilaður. Getur það varla verið ætlun löggjafans að koma í veg fyrir notkun stórvirkra vinnuvéla við mannvirkjagerð. Slíkt væri spor aftur á bak.

Hér er því lagt til að nánari skilgreining á ökutækjum verði tekin upp í umferðarlögum til þess að komast hjá þeirri óvissu og ósamræmi, sem hefur átt sér stað og valdið verulegum óþægindum og tjóni.

Þá var einnig lagt til, að hraðaviðmiðun sú, sem notuð er í lögunum í sambandi við bifreiðar, dráttarvélar og vinnuvélar, sé færð úr 30 km í 45 km á klst. Er það í samræmi við breytingar á hraðgengi slíkra vinnuvéla, sem framleiddar eru á síðari árum.“

Ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu, geta þess, að fjmrn. taldi þessar stórvirku vinnuvélar ekki gjaldskyldar samkv. bréfi dags. 18. okt. 1971. Byggir fjmrn. þar á niðurstöðum skoðunarmanna Bifreiðaeftirlits ríkisins sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, en það hljóðar svo, dags. 7. júlí 1972:

„Að beiðni Steypustöðvarinnar hf. í Reykjavík hef ég undirritaður bifreiðaeftirlitsmaður skoðað til athugunar hvort samrýmist gildandi umferðarlögum sem bifreið grjótflutningavagn á tveimur öxlum. Hjólbarðastærð framhjóla er 1400X24, en afturhjóla 1800X24. Grjótflutningavagn þessi er 3.40 m að breidd og eigin þyngd er 20 tonn. Leyfileg heildarþyngd með hlassi uppgefin af framleiðanda er 43.5 tonn, þ.e.a.s. farmur sé þá 23.5 tonn. Framangreindar upplýsingar samrýmast ekki 55. og 56. gr. umferðarlaga um skráningarskyld ökutæki. Hámarkshraði slíkra vagna mun vera allt að 45 km á klst. við allra bestu aðstæður.“

Síðan þetta var ritað hefur það gerst, að slíkir jarðflutningavagnar, sem flestir ef ekki allir þm. kannast við og eru með stærstu gerð af vinnuvélum og notaðir hafa verið við virkjunarframkvæmdir hér á landi og yfirleitt notaðir við stærstu mannvirkjagerð hvar sem er í veröldinni, hafa af sýslumanni Rangárvallasýslu eftir úrskurð fjmrn. verið dæmdir sem bifreið og látið greiða af bæði gúmmígjald og þungaskatt þrátt fyrir það að slíkur vagn sé óleyfilegt farartæki á vegum landsins. Þessu vil ég breyta og því hef ég lagt fram þetta frv., sem ég legg til að verði vísað til hv. allshn. og 2. umr. eftir þessa umræðu.