16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

322. mál, öryggisbúnaður smábáta

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi flutti ég till. til þál. um öryggisbúnað smábáta. Tilgangur þeirrar till. var að fá setta reglugerð um flothæfni, öryggisbúnað og eftirlit með opnum smábátum 6 metra og styttri. Um báta af þessari stærð gilda enn engar reglur um eftirlit eða lágmarkskröfur um flothæfni og öryggisbúnað af hálfu opinberra aðila. Tilefni þessarar till. minnar voru auðvitað hin hörmulegu slys sem orðið hafa á bátum af þessari gerð á mörgum undanförnum árum og þarf ekki að rekja.

Alþ. afgreiddi þetta mál í lok síðasta þings eftir till. allshn., sem gerði nokkra breytingu á tillgr. í þá átt að skora á ríkisstj. að undirbúa löggjöf um þetta efni. Ég lýsti því í umr. við það tækifæri, að ég væri ekki alls kostar ánægður með till. allshn., en gat fallist á að greiða henni atkv. vegna þess að fram kom þá í umr. yfirlýsing eða a.m.k. skoðun þáv. hæstv. samgrh. varðandi þetta mál. Tilefni óánægju var m.a. það, að með því að breyta tillgr. í það horf að undirbúa löggjöf yrði setningu reglugerðar eða laga a.m.k. frestað um eitt ár og fram undan var sá tími ársins sem slys eru tíðust á þessum bátum.

Eins og ég sagði lét ég kyrrt liggja vegna þess að hæstv. þáv. samgrh., Halldór E. Sigurðsson, lýsti því yfir sem skoðun sinni, að enda þótt till. væri afgreidd í því formi sem hv. allshn. lagði til, þá hindraði það ekki rn. í því að setja reglugerð um þetta efni og hún mundi gilda þangað til lög yrðu sett um málið. Hæstv. þáv. samgrh. lýsti því einnig yfir, að undirbúningur þeirrar reglugerðar væri raunar þegar hafinn, og ég lýsti í framhaldi af því þeirri skoðun minni, að þetta mál væri svo brýnt að setning slíkrar reglugerðar mætti ekki dragast.

Nú er mér ekki að fullu ljóst hvað síðan hefur gerst, en við vitum allir að a.m.k. eitt hörmulegt slys hefur orðið á bát af þessari stærð síðan þessi umr. fór fram hér á Alþ. í fyrravor, — slys sem ekki verður bætt frekar en hin fyrri. Sá atburður og atburðir fyrri ára af þessu tagi hrópa til okkar og hrópa til ráðamanna um að hefjast handa og setja þær reglur sem hér er um rætt. Ekki er hægt að segja að það sé vansalaust að láta það dragast ár frá ári og horfa upp á þau hörmulegu slys sem verða. Þau mundu kannske verða einhver fyrir því, en ég trúi því, að ef meiri aðgæsla væri um búnað þessara báta og reglur væru til þess að fara eftir um þann búnað og reglur um eftirlit, þá mundi þeim slysum fækka.

Ég hef af þessu tilefni leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. núv. samgrh. á þskj. 17, svo hljóðandi:

„Hvað líður setningu reglugerðar um öryggisbúnað smábáta?“

Ég vænti þess, að hæstv. samgrh. geti gefið svör um það, hvernig þessi mál standa, og í framhaldi af því, hvort hann telur að nauðsynlegt sé að slík reglugerð styðjist við setningu sérstakra laga eða hvort nægilegt sé að hún byggist á eldri lögum.